Í sumar var ég staddur á Kirkjubæjarklaustri í rúman mánuð, og mætti segja að Klaustur sé svona “my second home” þar sem flest allir ættingjar mínir búa þar og í nágreni, og mamma ólst upp á sveitabæ þar litlu austur þar sem bústaðurinn okkar er einmitt núna. En nóg um það.

Þegar við erum þarna í bústaðnum er ég oftast bara niðrá Klaustri hjá frænda mínum sem býr þar. Þegar það er gott veður skellum við frændi minn, og fleiri, okkur nánast undantekningarlaust í Stjórn, sem er á sem rennur við hliðina á Kirkjubæjarklaustri. Fyrstu skiptin í fyrra var maður bara að stökkva af kletti sem stendur útí ánni ofan í hyl þar fyrir neðan, en það hætti stuttu síðar að vera gaman, þar sem við fundum leið til að klifra uppí klettinn við hliðina á Stjórnarfossi, og sá hylur er mun dýpri.

En nú í sumar ákváðum ég og annar gutti þarna að hætta þessu rugli og fara bara uppá fossinn. Við fundum leið til að klifra upp (reyndar hafði hann farið þarna einu sinni áður með einhverjum sem hafði gert þetta áður) og fórum upp. Frænda mínum leist ekkert á þetta, og vildi bíða niðri og horfa á okkur.
Ég tók eftir því strax og ég var kominn upp, að það þýddi ekkert að gugna, enda mun hættulegra að klifra aftur niður heldur en að láta bara gossa. Ég ákvað bara að stökkva á eftir hinum gaurnum, til að sjá hvar maður ætti að lenda. Þegar ég átti að stökkva kom svona nettur fiðringur í magann, og maður horfði niður á hylinn með svona tilfinningu sem ábyggilega einhverjir kannast við, en ég get þó ekki lýst. Kannski pínulítið ógnvekjandi svona fyrst.
Ég sá að það þýddi ekkert að standa þarna lengur og stökk bara af fossinum án þess að hugsa neitt meira um það. Og tilfinningin þegar maður er í loftinu!!! Ekkert nema frábært.
Þetta er líklega svona ca. 7-10 metra fall, og þegar maður lendir í vatninu næ ég ekki einu sinni til botns - og ég er 1.84 ;)

Eftir að maður hefur stokkið einu sinni verður maður alveg hoppandi vitlaus, og getur ekkert hætt þessu fyrr en sólin er farin að síga.
Fyrsta daginn sem ég gerði þetta stökk ég í kringum 30sinnum, og þetta var bara rétt byrjunin. Þetta var svona vika sem var “Stjórnarveður” eins og við frændurnir kölluðum það.

Eftir marga daga af rigningu kom svo ágætis veður í viku, sem endaði svo með annari viku sem var þessi “hitabylgja” sem fór yfir landið. Í bústaðnum hjá okkur fór hitinn mest í 32°C, og hvað gerir maður þá annað en að skella sér útí á? ;)

Þetta ættu allir að prufa einhverntíman ef þeir koma við á Kirkjubæjarklaustri á hringferðinni sinni eða eitthvað í góðu veðri. En þó væri ráðlegt að finna fyrst einhvern sem hefur áður gert þetta til að leiðbeina, og sýna leið upp.

Takk fyrir mig, Quadratic.