Súpergrúppa verður til Ég hafði hugsað mér að skrifa grein um uppáhalds íslensku hljómsveitina mína en þegar ég var að browsa netið í leit að upplýsingum og ýmsu öðru þá rakst ég á þessu meiriháttar vel skrifuðu grein eftir hann Þorstein Eggertsson og ákvað í staðinn að taka mér bessaleyfi og birta hana hér.

Ég vona að þið fyrirgefið mér það.


Breytingar í tónlistarheiminum - súpergrúppa verður til

Árið 1969 voru Hljómar og Flowers vinsælustu hljómsveitir landsins og Björgvin Halldórsson var kosinn poppstjarna ársins í Laugardalshöllinni. Dúmbó og Steini frá Akranesi voru vinsælasta hljómsveit Vesturlands, B. G. og Ingibjörg á Vestfjörðum, Ingimar Eydal á Norðurlandi, Mánar og Hljómsveit Þorsteins Guðmundssonar á Suðurlandi og svo mætti lengi telja. Í Reykjavík átti Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar fastan sess á Hótel Sögu og Sextett Ólafs Gauks í Tónabæ.

Reyndar úði og grúði af öðrum vinsælum skemmtistöðum í Reykjavík; Sigtúni, Hótel Borg, Glaumbæ, Leikhúskjallaranum, Breiðfirðingabúð, Silfurtunglinu, Röðli, Þórscafé, Klúbbnum, Glæsibæ og fleirum. En hljómsveitirnar voru fleiri en danshúsin og samkeppnin mikil. Það hlaut því að koma að því að spilin yrðu stokkuð upp.

Hljómar og Flowers hættu samkeppninni og úr varð megahljómsveitin Trúbrot; Gunnar Þórðarson, Rúnar Júlíusson og Shady Owens úr Hljómum og Karl J. Sighvatsson og Gunnar Jökull Hákonarson úr Flowers. Úti í kuldanum stóðu Engilbert Jensen og Erlingur Björnsson úr Hljómum og Sigurjón Sighvatsson, Arnar Sigurbjörnsson og Jónas R. Jónsson úr Flowers. Jónas R., Arnar og Sigurjón stofnuðu þá Náttúru, Engilbert gekk til liðs við Tilveru en Erlingur hætti spilamennsku. Á sama tíma fór Björgvin Halldórsson í enn eina nýstofnaða hljómsveit; Ævintýri og Magnús Kjartansson stofnaði Júdas í Keflavík.

Nú hétu hljómsveitirnar ekki lengur Hljómar, Ljómar, Ómar, Tónar og Taktar, heldur var komin ný tíska í nafnagiftirnar; Trúbrot (Árni Johnsen, síðar Alþingismaður, fann upp nafnið), Náttúra, Tilvera, Ævintýri, Brimkló, Hafrót osfrv. Íslensk poppmúsík hafði líka slitið barnsskónum og hljómsveitirnar lögðu mikið upp úr frumsömdu efni og fræábærum flutningi.

Fyrsta plata Trúbrots sá dagsins ljós um haustið og flest lögin á henni voru frumsamin. Eitthvað fór þó tónlistin á plötunni fyrir brjóstið á forráðamönnum tónlistardeildar Ríkisútvarpsins, því tvö lög af plötunni, Elskaðu náungann og Konuþjófurinn voru bönnuð í útvarpinu. Næsta sumar hélt breska hljómsveitin Led Zeppelin hljómleika í Reykjavík og hreifst ma. af leik Trúbrots í Glaumbæ.

Lifun og ljúfar minningar

Að frátöldum lögunum á fyrstu breiðskífu Trúbrots og lítilli plötu sem kom út tæpu ári síðar voru öll önnur lög sem hljómsveitin sendi frá sér á plötum á ensku. Margar hljómsveitir voru farnar að syngja á því máli og voru ástæðurnar fyrir því einkum tvær. Söngvarar sögðust eiga betra með að syngja á ensku en á móðurmálinu sínu ástkæra. Hin ástæðan var draumurinn um heimsfrægð. Nokkrar íslenskar hljómsveitir höfðu farið utan og undantekningalaust fengið góða dóma þar.

Auk þess skutu af og til upp kollinum útlendir hugsjónamenn sem þóttust geta komið íslenskum á framfæri í útlöndum. Nafnið á annarri breiðskífu Trúbrots var því nokkuð vel til fundið; Undir áhrifum. Hún var tekin upp í Kaupmannahöfn 1970 og á henni er að finna einhver mögnuðustu hippaáhrif sem komið hafa fram í íslenskri poppmúsík. Mannabreytingar höfðu orðið í hljómsveitinni; Shady Owens, Gunnar Jökull og Karl Sighvatsson voru hætt en Magnús Kjartansson kominn á píanó og Ólafur Garðarsson á trommur. Trúbrot var orðin að hreinræktaðri hippahljómsveit og sumarið 1971 stóð hún að einskonar íslenskri Woodstock-hátíð í Saltvík á Kjalarnesi í samvinnu við Æskulýðsráð Reykjavíkur.

Metnaðarfyllsta og sérkennilegasta verk Trúbrots sá einnig dagsins ljós árið 1971 og var kallað …lifun. Þá voru Gunnar Jökull og Karl Sighvatsson aftur komnir í hópinn en Ólafur var hættur. Strákarnir ákváðu að semja heildstætt verk um æviskeið venjulegs smáborgara og til að fá hæfilega andagift ákváðu þeir að kaupa hver sinn uppáhaldslit af málningu, hræra öllu saman og mála kjallarann heima hjá Rúnari Júlíussyni með blöndunni. Liturinn varð fremur hlutlaus en þarna varð …lifun til. Verkið var flutt á hljómleikum í Háskólabíói í mars 1971 og gefin út á plötu skömmu síðar. Enn í dag er …lifun talið eitt merkasta verk íslenskrar poppsögu enda tók Sinfóníuhljómsveit Íslands það til flutnings árið 1992 og gaf það út á hljómplötu skömmu síðar.

Trúbrot tókst aldrei að „toppa“ …lifun. Árið 1972 gaf hljómsveitin sjálf út hljómplötu. Sú hét Mandala og þar var fátt um eftirminnileg lög nema “My Friend and I” eftir Magnús Kjartansson. Ári síðar var komið að nýjum kaflaskiptum í poppsögunnu en þá hættu nokkrar rótgrónar hljómsveitir að koma fram fyrir fullt og allt, ma. Trúbrot og Náttúra.

Texti: Þorsteinn Eggertsson
Mynd: Kristján Magnússon

Tekið af www.poppminjasafn.is

Vona að þið hafið haft gaman ef þessari lesningu, allavega hafði ég gaman af henni.
ibbets úber alles!!!