Já, ég held áfram og áfram að spyrja mig þessarar spurningar.

Alltaf þegar einhver ný hljómsveit dúkkar upp, annað hvort á einhverjum litlum tónleikum eða nýr diskur sem maður rekst á í plötubúðum, er sú hljómsveit undantekningarlaust samansett af strákum.

Strákar. Þetta karlkyns einræðisvald sem gnæfir yfir öllu og stjórnar í hljómsveitabransanum á Íslandi og raun heiminum öllum með harðri hendi! Ef ske kynni að ein og ein stelpa sé í hljómsveitum er hún nær undantekningarlaust rokkaratýpa með stutt hár sem syngur og ekkert annað. (Ath. að hér er ég eingöngu að tala um stereótýpur). Maður sér nær aldrei kvenkyns meðlimi í hljómsveitum SEM SPILA Á HLJÓÐFÆRI.

Ég er í hljómsveit sem keppti á músíktilraunum fyrr á þessu ári. Við komumst í úrslit; og það sem mér kom gríðarlega á óvart var, að í öllum þessum 11 hljómsveitum sem kepptu til úrslita, var aðeins ein, og ég endurtek, EIN stelpa! Og hún söng örlítinn lagstúf í einu lagi sem þessi annars ágæta rapphljómsveit flutti. Síðan voru þessar tilraunir rómaðar fyrir hversu fjölbreyttar þær væru? Mér finnst það fjarri lagi hvað varðar kynjaskiptingu.

Stelpur eru gríðarlega ónýtt auðlind. Við erum sífellt að staglast á því hvað tónlistarlífið hérna á þessum klaka sé fjölbreytt, litskrúðugt og standi í ótrúlegum blóma miðað við höfðatölu. Hugsið út í það hversu margar yndislegar hljómsveitir væru starfræktar hér á landi ef jafnmargar stelpur og strákar kynnu á hljóðfæri! Hljómsveitum á Íslandi myndi fjölga um 40-50%! Ég spyr, hvað er því til fyrirstöðu að stelpur geti ekki samið og spilað eins góða tónlist og svo margar strákahljómsveitir gera á Íslandi? Er virkilega enn þá svo mikill munur á kynjunum að stelpur eru beinlínis vanhæfar til þess að halda takti eða semja góð lög? Ég kasta þeim fullyrðingum fyrir róða. Það eru til nógu margar stelpur á Íslandi sem æfa á þverflautu eða píanó og láta þar

Konur eru í sífellu að berjast fyrir auknum réttindum og sterkari stöðum í samfélaginu. Mín skoðun er sú að jafnrétti kynjanna muni stórbætast ef stelpur þora að koma undan skelinni og hafa kjark í að búa til tónlist. Þær geta það alveg eins og við. Stelpur eru ekki það vitlausar að þær geta ekki talið sér trú um að þær geti gert góða tónlist. Að sjálfsögðu þurfa þær ekki að einskorða sig að vera í hljómsveit með öðrum stelpum, að sjálfsögðu ekki. Þessi tvö kyn geta leikandi létt verið saman í hljómsveit. Ég vona að á músíktilraunum í framtíðinni eigi ég eftir að sjá hljómsveitir með blönduðum kynjum.

Það eru til nógu margar stelpur á Íslandi sem æfa á þverflautu eða píanó og láta þar við sitja. Á meðan hlutföllin milli stelpna og stráka eru eins og þau eru í dag, get ég ekki fallist á að tónlistarlífið á Íslandi liggi í blómstra.