Japanese Spitz Hér eru smá upplýsingar um Japanese Spitz sem var sýndur í fyrsta sinn hérlendis á seinustu sýningu.

Uppruni Japanese Spitz er talin vera frá German White Spitz sem barst til Japan 1920 í gegn um Síberíu og Norð-Austur Kína. Tegundin var fyrst sýnd í Tokyo 1921.
Árið 1925 voru 4 hundar innfluttir frá Kanada og til 1956 voru innfluttir hundar frá Kanada, USA, Kína og Ástralíu. Úr afkvæmum þeirra var svo ræktað til að bæta tegundina. 1948 setti Japanski ræktunarklúbburinn ræktunarviðmið og hefur verið farið eftir þeim síðan.

Japanese Spitz eru gáfaðir, glaðlegir og fjörugir litlir spitz hundar. Feldurinn er alveg hvítur og mjög loðinn en samt er auðvelt að hirða hann. Eyrun eru upprétt og augun eru fallega dökk. Þrátt fyrir að vera litlir hundar þá eru þeir mjög sterkir.

Japanese Spitz eru miklir félagar og yndislegir fjölskylduhundar. Þeir elska að elta húsbóndann út um allt. Japanese Spitz er ekki tegund sem liggur uppi í sófa og slappar af. Þeir þurfa töluverða hreyfingu og vilja hafa mikið fyrir stafni. Þeir elska að þóknast húsbóndanum en þurfa ákveðna þjálfun því þeir geta reynt að taka stjórnina.

Eitt vandamál við Spitz hunda almennt er að þeir eiga það til að vera gjammarar (sbr. Íslenski fjárhundurinn) en þetta vandamál virðist ekki vera hjá Japanese Spitz samkvæmt ræktendum erlendis.

Persónulega finnst mér þessir hundar æðislegir og minna að mörgu leiti á þjóðarhundinn okkar. Vonandi eigum við eftir að sjá meira af þessari tegund hérlendis í framtíðinni. :)