Ég var á Geirsnefi fyrir nokkru með tvo af hundunum mínum og búið er að gelda annan þeirra.
Þar hitti ég konu sem sagði að það mætti alls ekki gelda hunda. Það myndi algerlega eyðileggja þá og
væri grimmdarverk gagnvart dýrinu.
Ástæðan fyrir því að ég lét gelda hann er sú, að hann
merkti allt, hvort sem það var innan eða utan dyra og þegar hann fór að pissa á fólk líka ákvað ég að láta
gelda hann. Ég ráðfærði mig við hundaþjálfara sem sagði mér að fylgjast vel með honum og skamma hann
duglega í hvert skipti sem ég gómaði hann. Ég ákvað að reyna það en það var alveg sama, það skipti hann engu
máli hvort hann fengi skammir eða ekki, samt hélt hann áfram að merkja. Þá ráðfærði ég mig við dýralækni sem
sagði að ef ég ætlaði mér ekki að nota hundinn til undaneldis, þá væri best fyrir hann sjálfan að vera geldur.
Það er verra fyrir hund að vera ógeldur og fá aldrei neitt heldur en að láta bara gelda hann. Hundar hafa sínar
þarfir og langanir, og það getur skapað vissa streitu að hafa allar þessar hvatir og fá enga útrás fyrir hana (þið
þekkið kannski hunda sem hamast á nánast hverju sem er). Ef hundurinn er geldur, þá pælir hann ekkert í þessu
og líður þar af leiðandi betur. Það eru líka minni líkur á að hann fái krabbamein og aðra sjúkdóma og því meiri líkur
á langlífi, sem er alls ekki slæmt þar sem ég vil að hundurinn minn lifi eins löngu og góðu lífi og hægt er :)
Gelding hefur á engan hátt áhrif á hæfni hundsins sem varðhunds né veiðihæfni hans. Kemur ekki í veg fyrir
að hann bíti né á árásargirni vegna yfirráðasvæðis.
Og hvað gerðist, eftir þetta hætti hann algerlega að merkja og það er auðveldara að þjálfa hann og eiga við hann
á allan hátt. Hann er rólegri og nýtur þess betur að vera í félagsskap manna en að vera elta hunda í næsta nágrenni.
Ég hef heyrt marga segja að það sé rangt að gelda dýr og ómannúðlegt. Ég var sjálf á þeirri skoðun einu sinni en
sé nú að það var bara fáfræði hjá mér. Ég get því sagt ykkur sem eruð í vandræðum með hundinn, hvort sem hann
er merkjandi eða önnur vandamál, þá gæti það bætt úr ef hann væri geldur. Ég tek það samt fram að það er engin trygging
fyrir því að hundurinn breytist, því sumir hundar breytast ekki neitt. Einnig hafa margir áhyggjur af að hundurinn fitni, því yngri
sem hann er þegar hann er geldur, því minni líkur eru á að hann fitni. Svo er bara að hafa rétt matarræði og hreyfa hundinn nóg.
Hvað finnst ykkur hinum um þetta mál?

Kveðja, Tristen.