Sælt veri fólkið.

Ég er tiltölulega nýlega farinn að venja komur mínar hingað á Huga. Mér finnst þetta stórsniðugur og merkilegur vettvangur fyrir skoðanaskipti. Þetta er afar jákvæð birtingarmynd lýðræðisins. Allir geta tjáð sig á frjálsan hátt og komið skoðunum sínum og framfæri, fengið viðbrögð og rökrætt um heima og geima. Húrra fyrir því!

Samt sem áður finnst mér að hér megi margt bæta og færa til betri vegar. Ég hef tekið eftir því að of algengt er að sjá texta, hér og þar, sem minnir meira á myndlist en ritlist. Það kemur oft fyrir að ég hreinlega gefst upp á að lesa greinar sem ég ramba á.

Hvað á ég við? Ég á við það þegar fólk hefur augljóslega, meira af kappi en forsjá, pikkað inn í gríð og erg marga sentímetra af línum sem minnir meira á ferhyrninga fyllta með orðum en skipulegan, vel ígrundaðan og vel framsettan texta. Sumir hafa augljóslega gleymt setningarfræðinni, sem þeir lærðu í skóla, og telja að efnisgreinar séu hinn mesti óþarfi; skraut fyrir hallærislega íslenskufræðinga og kennara. Þá minnir greinamerkjasetning stundum frekar á málaralist en nokkuð annað; gæsalappir eru vinsælar og stundum notaðar á ótrúlegustu stöðum. Hástafir eru í oft á tíðum í miklu uppáhaldi, en kannski hafa menn bara ýtt óvart á hástafatakkann á lyklaborðinu :).

Mörgum finnst þetta vafalaust vera óttalegt nöldur og væl í hallærislegum gaur. Það er allt í lagi með það. Fólki er frjálst að hafa sýnar skoðanir, ekki satt? En mér er bara ekki sama um móðurmálið mitt. Það er langur vegur frá “tungumálafasisma”, þar sem fólk truflast ef það sér stafsetninga- og/eða málfræðivillur á stangli, og þeirri skoðun að ritmál eigi að vera þokkalega læsilegt og skiljanlegt. Ég tel mig ekki “fanatískan” en finnst þó sjálfsagt að fólk sé þokkalega skipulagt í hugsun og framsetningu talaðs og ritaðs máls.

Við, sem komum hugsunum okkar og skoðunum á framfæri hér á Huga, þurfum aðhald. Hverjir eiga að veita það aðhald? Það hljóta að vera stjórnendur áhugamálanna, eða “adminar”. Ég skora á þá, sem ákvarða hvað skal birta og hvað ekki, að vera vandfýsnari og gagnrýnni í ákvörðunum sínum. Það á bæði við innihald og framsetningu greina. Ritskoðun á rétt á sér, ef hún er byggð á lýðræðislegum vinnubrögðum, að ég tel. T.d. ætti aldrei að birta greinar þar sem verið er að rægja og niðurlægja fólk, sér í lagi ef fólk er nefnt með nafni. Það er slúður og ósæmandi siðuðu fólki.

Ég vona að ég sé ekki að kveikja skógarelda með þessari grein. Þetta eru einungis mínar skoðanir, eftir að hafa verið notandi hér í tiltölulega stuttan tíma. Endilega látið heyra í ykkur og segið mér ykkar skoðanir á þessum vangaveltum mínum.

hugi.is lengi lifi!

Hlynu