Já ég rakst á þessa skemmtilegu pælingu á daglegu vafri mínu um netið og þótti hún þess verðug að smella henni hingað.

Við vitum öll að Albus Percival Wulfric Brian Dumbledore eða Albus Dumbledore eins og flestir þekkja hann er á spjöldunum sem galdramenn fá úr súkkulaði froskum og einnig hefur herra Dumbledore sagt að honum sé sama hvað galdramálaráðuneytið tekur marga titla af honum svo lengi sem hann verði ekki tekinn af spjöldum súkkulaðifroskanna. En hver er sönnunin fyrir því að Albus Dumbledore sé ekki einfaldlega að nota þessi saklausu spjöld til að njósna um litla krakka og foreldra þeirra? Gæti hugsanlega verið að hann geymi eitthvert tól á hinni margfrægu skrifstofu sinni (sem allir vita að er meira en lítið dularfull) sem gerir honum kleyft að sjá allt sem súkkulaðifroskaspjöldin hans sjá? Þá einkum og sér í lagi á yfirráðasvæði Hogwartsskóla þar sem flestir unnendur súkkulaðifroska eru búsettir mestan hluta ársins. Líklegast er að hann hafi sett myndbandsupptökuvél sem er vel þekkt meðal mugga sem tæki sem þeir nota til að taka upp myndir af sér og sínum nánustu eða jafnvel að hann hafi bara eitthvert spjaldið hjá sér og tali við myndina af sjálfum sér.

Albus Dumbledore sem hefur fengið æðstu orðu Merlin fyrir ýmislegt t.d. að sigra hinn myrka galdramann Grindelwald. Gæti ekki vel hugsast að Grindelwald hafi verið súkkulaðifroskafíkill og þannig hafi hann komið upp um staðsetningu sína og áætlanir sínar og því hefur það verið léttur leikur fyrir Dumbledore að sigra hann. Sá sem ekki má nefna á nafn hefur greinilega vit á því að borða ekki súkkulaðifroska enda hefur Dumbledore aldrei náð að fanga hann, við verðum bara að vona að Dumbledore og félagar finni einhverja betri leið næst til þess að klekkja á myrka herranum.

Munið bara ekki borða súkkulaðifroska, það gæti verið einhver að horfa á ykkur.