ENGIR SPOILERAR!!! ENGIR SPOILERAR!!! ENGIR SPOILERAR!!!

Jæja. Þegar morgun Harry Potter dagsins 21. júní skreið fram, sólin hóf uppför sína að himni og byrjaði að kvíða fyrir skjótu falli aftur í dýptir hafsins, var ég staddur í Frakklandi, Provance, í fríi, nýbúinn að endurlesa allar fjórar fyrri Harry Potter bækurnar, hlustandi á fagra tóna Sigur Rósar á meðan (jafnvel tyggjó verður fagurt meðan maður hlustar á þá, og Harry Potter…).

Þá vissi ég að nokkuð ólíklegt væri að ég mundi fá bókina í mínar sveittu hendur þann dag, Harry Potter daginn sjálfan, þar sem mestallur dagurinn mundi fara í flug frá Nice (það er ekki borið fram eins og enska orðið, heldur eins og “nís”) til Heathrow í London og svo þaðan til lands íss og elda. Það var lítil von um að við mundum ná að kaupa bókina á Heathrow (Londonflugvelli) vegna þess að það voru aðeins 50 mínútur milli flugvéla, og við vorum sein fyrir. Þó mundi ég reyna með öllum mætti…

Og það varð svo að ég og fjölskylda hlupum með öllum mætti niður færibönd flugvallarins (sem tvöfölduðu hraðann…) og þannig náðum við að hlaupa í gegnum allan flugvöllinn á 10 mínútum, sem er mikið afrek. Það var raunar býsna gaman að hlaupa milli fólks á færibandinu, muldrandi “Excuse me, pardon, rude people from Iceland coming through, sorry…”

Svo fékk ég loksins bókina í hendurnar (það voru keyptar tvær, ein fyrir systur mína svo ekki yrði borgarastyrjöld…) og augljóslega tók ég hvorki eftir flugtaki né lendingu, heimurinn, í lofti eða á jörðu, var sokkinn niður, horfinn; og það eina sem var eftir var heimur Harrys. Matur, líf, dauði, fagrar flugfreyjur eru ekkert miðað við þetta sem ég las.

Hér er dómurinn um bókina í lista; að sjálfsögðu allt mitt álit, alltsaman.

Spenna: Þetta er mest spennandi Harry Potter bókin, og þá er mikið sagt, mjög mikið sagt!

Saga: Alveg stórkostleg… endirinn er alveg einstaklega frábær. Nokkuð flott tvist á þetta allt saman… ekki jafn rosalegur endir og Goblet of Fire, en frábær samt.

Lýsingar: J.K. Rowling hefur stöðugt bætt lýsingar sínar eftir því sem bókunum fjölgar, og þessi er langbest til þessa. Sumar lýsingarnar kveikja strax í gæsahúð hjá manni.

Karaktersköpun: Ekki alveg jafn góð og restin… það eru margir nýjir karakterar, og þrátt fyrir að sumum er gerð ágæt skil og öðrum frábær þá er einn og einn karakter sem ég skil ekki af hverju er þarna… þeir verða þá líklegast mikilvægir í næstu bókum. Enginn karakter er þýðingarlaus í þessum bókum.

Húmor: Lang, lang, lang, langbestur til þessa. Fred og George eru með þeirra besta ár. Þeir eru algerlega og fullkomlega óborganlegir. Harry er meira að segja búinn að þróa með sér ágætan húmor, og Ron er frábær eins og venjulega. Svo er McGonagall líka í stuði í bókinni…

En það eru gallar, það er satt. Einn sem er nú aðallega persónulegur pirringur er að það er ekki mikið Quidditch í þessari bók, sem er nú hálfgert rugl þar sem Goblet of Fire er uppáhalds Harry Potter bókin mín, og það er ekkert Quidditch þar nema Heimsmeistarakepnin í byrjun…

Ég get fátt fleira sagt án þess að koma með spoilera svo að ég mun nú bara sleppa því… það sem ég mun hér gera er að bera OotP (Order of the Phoenix) saman við hinar Potter bækurnar, og þá er mín persónulega röð svona:

Philosopher's Stone
Chamber of Secrets
Prisoner of Azkaban
Order of the Phoenix
Goblet of Fire

Já, ég er á því að þessi bók sé ekki besta Harry Potter bókin, en ég fullyrði það að hún sé mest spennandi. Hún er alger skyldulestur fyrir alla sem kalla sig bókaorma, og hina líka. Hún lofar miklu, skilar miklu, og biður um lítið í staðinn. Húrra fyrir J.K. Rowling og hennar sköpunarverki! Nú hefst biðin eftir bók 6, og hún mun vera biðarinnar virði, þessi var það svo sannarlega.
She's well acquainted with the touch of the velvet hand, like a lizard on a windowpane