Ég hef núna spilað CS á netinu síðan c.a. 1.0 þegar mér hlotnaðist sá heiður að verða eigandi ADSL tengingar. Ég get þessvegna ekki talað um “gömlu góðu dagana”, því að CS var þá þegar mjög vinsæll leikur.

Nú á dögum fer maður vart í gegnum daginn, hvort sem það er í vinnunni, vinahópnum eða bara út á götu, nema einhver sé að tala um þennan leik. Sú sprenging sem hefur orðið við tilkomu Counter Strike er í rauninni bara eðlilegt framhald af því sem Doom byrjaði, þ.e.a.s. brytja náungann í spað yfir netið, í fullkomnum þrívíddarskotleik með tilheyrandi grafík. Hinsvegar myndi leikurinn vart standa undir sér ef fólk myndi aldrei talast við.

Þegar þessi orð eru skrifuð er rásin #counter-strike sú stærsta á sínum IRC-þjóni, með ríflega 270 manns á henni. Auk þess er múgur manns að spila í hvert skipti á fjölmörgum vefþjónum.

Vinsældir leiksins draga að sér enn fleiri spilendur, og því finnst mér tími til kominn að ég reyni að leggja mitt að mörkum í þessu “þjóðfélagi” sem hefur orðið til í kringum CS.


1. Orðið “Good Game” er ekki endilega bara að lýsa reynslu þinni af sögðum leik. Þeir sem hafa æft keppnisíþróttir, hvort sem það er fótbolti, körfubolti, júdó eða badminton, vita að mikilvægt er að þakka andstæðingnum og meðspilendum fyrir leikinn. Þú gengur ekki að t.d. markmanni andstæðinganna eftir leik og segir “þetta var hundleiðinlegur leikur”

Svoleiðis gerir maður ekki.


2. “Kemur” er annað orð komið úr keppnisíþróttum, og er til að hughreysta spilara sem ekki tókst ákveðið ætlunarverk, hversu mikið sem hann reyndi. Þegar einhver vesalings nýgræðlingur lendir einn og óstuddur, síðastur í sínu liði, í að þurfa klára leikinn sjálfur, þá er bara kurteisi að hughreysta hann skuli honum ekki takast að hespa þetta af. Auk þess er alltaf gaman að heyra svona, því það þýðir að fólki er ekki endilega sama.


3. Þótt einhver skjóti þig óvart, þá þýðir það ekki að hann hafi haft eitthvað illt í huga. Og ef þú bókstaflega hljópst fyrir hann meðan hann var að skjóta, ekki ásaka hann. Ég hef lent í því að hlaupa svona fyrir í hugsunarleysi, og einusinni var hinn svo miður sín að hann drap sig í byrjun næstu umferðar. Ég náttúrulega baðst innilega fyrirgefningar strax og ég gat, því þetta var algjörlega mér að kenna.


4. Counterstrike er hópleikur. Þú ert ekki einn í leiknum. Ekki kasta handsprengjum á spawn, standa viljandi fyrir í hurðum og skilja félaga þína eftir óvarða þegar þeir eru að planta eða aftengja. Svoleiðis er bara leiðinlegt og dregur úr ánægju allra.


5. Hafið gaman af leiknum. Ef þið eruð ekki að skemmta ykkur, reynið að fara á aðra netþjóna eða skipta um lið. Sumum finnst skemmtilegra í ákveðnum liðum, og ekkert að því.

En ekki skemmta ykkur með því að skemma fyrir öðrum


-Minkur-