Ég potaði inn skoðanakönnun nú fyrr í vikunni þar sem ég spurði að aldri CS-leikmanna.

Þetta er í lengri kantinum hjá mér þannig að þeir sem ekki nenna að lesa mikið geta flett neðst þar sem að síðustu línurnar eru svona einfölduð samantekt.

=x=x=x=

Að koma inn í CS-heiminn er svolítið sjokk eftir að hafa verið í TFC-heiminum. Þetta kemur til aðallega út af því hversu mikill munur er á aldri leikmanna.

Þátt tóku 216 manns, þar af voru aðeins 6 kvenmenn. Þar sem að ég geri ráð fyrir því að meirihluti CS-leikmanna heimsæki þennan vef þá má alveg gera ráð fyrir því að líkurnar á því að ná sér í kvenkyns maka eru einstaklega litlar í þessum heimi, of margir um hituna. Líkurnar á því að ná sér í karlkyns maka ættu að vera betri hins vegar, hlutfallslega séð :)

Aldursskiptingin var sú að enginn leikmaður var 10 ára eða yngri. Fyrir 2 árum efast ég ekki um að þó nokkrir hefðu verið í þessum flokki, ég minnist Skjálfta þar sem að ég var að keppa í TFC (síðasti Skjálftinn þar sem TFC var) og ungbarnaklanið var í sama herbergi (WarriorJoe þeirra langelstur?).

8 voru á aldrinum 11-12 ára, á þessum aldri var ég að spila Tank Commander á Sinclair Spectrum með gúmmítökkum, þessi börn vita ekki hversu hratt heimurinn hefur breyst :p

50 voru á aldrinum 13-15 ára, þar af 1 stúlka. Á þessum aldri var ég að spila í Apple IIe með grænum skjá, vélin hafði ekki harðan disk og allt fór fram með stóru floppy-diskunum.

90 voru á aldrinum 16-18 ára, þar af 3 stúlkur, þetta er sumsé langstærsti hópur þeirra sem svöruðu. Á þessum aldri var ég með PC með 230mb hörðum diski minnir mig :p, og spilaði CM93/94 og hvað þeir hétu, svo ekki sé minnst á UFO.

13 voru á aldrinum 19-20, þar af ein stúlka. Þarna er maður kominn með aðeins betri tölvu og Quake spilað af miklum móð á LANinu í skólanum, módemin voru orðin risastór, heil 33.6kb !

31 voru á aldrinum 20-25, enginn kvenmaður. Þetta er nokkuð víðari aldurshópur en þeir fyrri, þarna upplifir maður byltinguna þegar að maður er á feitri háskólatengingu í tölvuverum HÍ, hins vegar reynir maður ekki að spila Quake á netinu nema einu sinni á módeminu heima. Ekki að ganga upp.

19 voru á aldrinum 25-30, þar af einn kvenmaður. Þar sem maður er á þessu aldursskeiði þá bæti ég því bara við að þarna fær maður loksins háhraðatengingu heim til sín´.

4 karlmenn eru svo eldri en 30, það fer að líða að þessu hjá manni :p

=x=x=x=

Af þessari upptalningu má sjá að mikill meirihluti leikmanna er undir tvítugu. Þetta kemur ekki á óvart þar sem að orðafar leikmanna í CS er frekar óþroskað oft á tíðum, held ég að grunur beinist þá að undir fimmtán aldurshópnum einna mest.

Maður hefur spilað leiki á netinu lengi, og maður hefur séð unga og óþroskaða rugludalla þroskast og dafna og verða jafnvel fyrirmyndarleikmenn á þessum tíma.

Fyrirmyndarleikmaður er ekki endilega sá sem er bestur með AWM-inn (hvar í ósköpunum stendur AWP? ekki í mínum “buy” menu…). Fyrirmyndarleikmaður er sá sem að kastar ekki skít í aðra, og bölsótast ekki þó hann sé drepinn. Fyrirmyndarleikmaður er að spila tölvuleik sem hann hefur gaman af, hann veit að þetta headshot var ekki persónuleg móðgun við hann.

Hér virðist greinin vera að fara útí smávegis tuð um þessa hvolpa, en svo er ekki endilega. Margir ungir leikmenn eru til fyrirmyndar, sem dæmi má taka blibb, sem hefur verið kurteis allt frá fyrsta leik hans. Kannski er það líka af því að hann átti sér tvo eldri bræður sem voru góðar fyrirmyndir, gamlar TFC hetjur.

TFC-senan var nefnilega (því lítið er eftir af henni núna) mjög svo vinaleg, menn voru flestir komnir yfir tvítugt og kunnu því að haga sér eins og menn, og þeim sem ekki kunnu að haga sér var gerð grein fyrir því að þeir fengju hvergi að spila nema þeir spiluðu eins og menn. Ég ætla ekki að nefna nein nöfn en nokkrir orðhákar sem að voru illþolandi breyttust hægt og rólega og fóru að spila eins og menn, og höfðu persónulega mjög gott af þessu.

Ég er orðinn langorður, ég tek mér ekki oft “penna í hönd” til að skrifa greinar, en þegar ég byrja þá er erfitt að stoppa. Ég er nú á góðri leið með að fara út í það að hvernig menn haga sér í tölvuleikjum er oft góður vitnisburður um það hvernig þeir haga sér í samfélaginu.

Það má verða ofurlítið pirraður ef að manni gengur illa, en ALDREI á að láta þann pirring ná ofurhöndinni. Það sem gerist þá er að bæði byrjar maður að spila ennþá verr en áður, heldur líka að manni tekst að gera sig óvinsælan meðal annara. Ef maður heldur ró sinni og einbeitir sér, eða hreinlega hættir ef að maður nær ekki að einbeita sér, þá sýnir það þroska.

Þar sem að svona stór hluti leikmanna er undir menntaskólaaldri (en menntaskólaárin eru alveg gríðarlegur þroskatími andlega og samfélagslega séð) þá er það nú þannig að þeir hafa ekki lært þessar hegðunarreglur sem eru í samfélaginu, þeir hafa ekki fattað að þessar reglur skipta máli.

Það er öllum ungum sálum hollt að hafa eldri og reyndari sálir til að leiðbeina þeim, einfalt að sjá þetta á sterkustu klönum landsins þar sem að kjarninn er vel yfir tvítugt oftast.

Þá hafið þið núna lokið inngangskafla Bókar Ágústusar (gamall TFC brandari, þeir fatta sem fatta).

=x=x=x=

Stutt samantekt:

Margir leikmenn mjög ungir. Ungir leikmenn fatta margir ekki að hegðun þeirra skiptir máli. Ungir leikmenn ættu að taka marga eldri leikmenn sér til fyrirmyndar. Gæði leikmanns mælast ekki nema að litlum hluta til í kills og headshots.

Þá er mánaðarskammturinn minn eða svo búinn, þar til síðar,
-Augustus
Summum ius summa inuria