| 06.03.2001 | 16:56
Reglugerð um innheimtu höfundargjalda breytt

Björn Bjarnason, menntamálaráðherra, ákvað í dag að breyta ákvæðum reglugerðar um innheimtu höfundaréttargjalda af óáteknum geisladiskum og tækjum til stafrænnar upptöku verka. Í tilkynningu frá menntamálaráðuneytinu segir að Björn hafi rætt í gær við fulltrúa innflytjenda, netverja og höfundaréttarhafa um efni reglugerðarinnar og þau ákvæði hennar, sem sætt hafa gagnrýni. Í framhaldi af því ákvað ráðherrann að gjald af óáteknum geisladiskum með minna geymslurými en 2 Gb skyldi lækka um 50% eða úr 35 kr. í 17 kr. Gjald af óáteknum geisladiskum með meira geymslurými en 2 Gb lækkar einnig um 50% eða úr 100 kr. í 50 kr. Ráðherrann ákvað jafnframt, að ekki skyldi innheimt höfundaréttargjald af tölvum með innbyggðum geislabrennurum / geisladiskaskrifurum. Með reglugerðinni er menntamálaráðuneytið að framfylgja lögum, sem samþykkt voru á alþingi vorið 2000, en þar er ráðherra veitt heimild til að lækka höfundaréttargjald frá því, sem í lagatexta segir og hefur það nú verið gert um 50%. Gjaldi þessu er ætlað að vera sanngjörn þóknun til höfunda vegna afritunar verka þeirra til einkanota eingöngu en slík einkanot eru heimil samkvæmt höfundalögum og eru ekki háð því að menn leiti heimildar höfunda eða rétthafa fyrirfram. Með þeim breytingum, sem nú hafa verið gerðar á reglugerðinni er komið til móts við sjónarmið innflytjenda og netverja og höfundaréttargjaldið ákveðið miðað við meðaltalsgjöld í þeim löndum Evrópu, þar sem hefur verið farið inn á þessa braut til að tryggja í senn frelsi notenda geisladiska og lögvarinn rétt höfunda.

[.Hate.]AnyKey
It takes blood & guts to be this good !