“Nei, hann er hættur, orðinn líka fimmtán ára gamall svo þess vegna er hann nú hættur”. Þetta er ekki óalgengt að heyra í hestamennskunni. Fólk býst við því að börn hætti þegar þau verði að unglingum. Ástæðan er yfirleitt sögð vera sú að unglingarnir hafi hreinlega ekki lengur áhuga, hitt kynið sé það sem vekji áhugann og hestamennskan fari í einhvers konar dá. Þessi kenning er röng. Ég er sjálfur unglingur og er að draga mig út úr hestamennskunni og ég skal segja ykkur af hverju. Í raun er þrjár ástæður. Fyrst er það að fullorðna hestafólkið býst við því. Það getur varla ímyndað sér að ég, unglingurinn, haldi áfram. Í öðru lagi þá er þetta ekki þess virði, hjá mér alla veganna. Hestamennskan mín hefur verið allt annað en dans á rósum. Man ekki eftir einum vetri sem hefur gengið vel! Í lokin er það aðal ástæðan í þessu öllu saman. Það er pressan. Ég er undir svo mikilli pressu um að ríða þessu hrossi, gera þetta, gera hitt. Ég á ekki að klúðra neinu lengur, ég á að ríða hrekkjóttum truntum alla daga og njóta þess.
Okkur unglingana vantar einhvers konar aðhald. Einhver hópur sem gæti riðið út saman án þess að hafa það á hættu að þurfa allt í einu að prufa þennan, gera þetta eða hitt. Þar sem við fengjum að skemmta okkur.

Við erum ekki vandamálið heldur umhverfið!