Skaufahreinsun á geldingum. Þegar ég var að byrja að einhverju viti í hestum var enginn sem segir mér frá hlandsteinum (öðru nafni þvagsteinar), en hesturinn minn var líklega haldinn hlandsteini þegar ég fékk hann og ágerðist það eftir því sem leið á, folinn varð geðverri og erfiðari þar sem honum leið bara ekki vel, þegar farið var að tala um að fá dýralækninn til að koma og skaufahreinsa fór ég að forvitnast hvað það væri, þá búin að eiga Þokka í 2 ár og líklega hafði hann ekki verið skaufahreinsaður árum saman vegna þess að áður en ég fékk hann þá var hann á útigangi. Þegar dýralæknirinn var að skaufahreinsa fann hann ýmist engan stein eða einn lítinn, en svo kom að mínum og þá fannst alveg slatti, 6-8 steinar! Fólk hló auk þess að mér þegar ég bað um að trippið Strákur væri skaufahreinsaður líka en það reyndist vera í honum líka, síðan þá hafa þeir báðir verið skaufahreinsaðir árlega til öryggis og alltaf fundist eitthvað smá.

Hvað er hlandsteinn?

Hlandsteinn er einn af þeim kvillum sem eru nokkuð algengir í íslenskum hestum, hlandsteinar myndast aðeins í karlhestum og svipar örugglega til nýrnasteina ef pælt er í sársaukanum, þeir myndast í þvagrásinni, þrýsta þar á og geta valdið hestinum gífurlegum kvölum ef ekkert er að gert. Það er mismunandi er hvað mér hefur verið sagt að hlandsteinn sé, annarsvegar hefur mér verið sagt að hann myndist af eggjahvítuefnum og hinsvegar að þetta sé bara harðnað þvag og óhreinindi, hvort sem það er þá þarf allavega að láta þrífa þetta burt.

Algengur miskilningur er að hlandsteinn finnist bara í hestum inni á húsum, það er algengara að hestar á húsi fái hlandstein en hestar á útigangi fá hann líka. Eins eru sumir sem vilja meina að hlandsteinninn hverfi þegar hesturinn fer út á beit en það er algjör vitleysa.

Hvernig sérðu hvort hesturinn sé með hlandstein?

Besta leiðin til að komast að því hvort hross sé með hlandstein er að fylgjast með þegar það mígur, ef folinn lætur hann síga og mígur eðlilega þá er mjög ólíklegt að hesturinn sé með hlandstein. Ef hesturinn hinsvegar lætur aldrei síga, mígur sjaldan eða rikkjott, þá er mjög líklega, nær örugglega um hlandstein að ræða.

Hestur með hlandstein er kvalinn, spennist oft allur upp og á í miklum erfiðleikum með að míga. Jafnvel hinn þægasti hestur getur farið að hrekkja eða rjúka út frá sársaukanum. Aðrir hestar umbera sársaukann og sína engin merki nema fyrr en einn daginn geta þeir í raun ekki migið lengur.

Hvað er svo gert í því þegar hestar fá hlandstein?

Þegar grunur er um að hestur hafi hlandstein skal hringja í dýralækni sem fyrst, hann kemur á staðinn, gefur hestinum deyfilyf sem veldur því að hesturinn verður allur útúr dópaður, lætur skaufann ósjálfrátt síga og berst svo minna á móti þegar dýralæknirinn þvær á honum skaufann með volgu vatni og að mig minnir mildri sápu, finnur steinana og jagar þeim út úr þvagrásinni. Eftir þetta þarf klárinn 1-2 daga til að láta renna af sér og jafna sig. Ef hesturinn er hræddur og stressaður almennt þá er ágætt að nýta tímann og raspa hann meðan hann er svona dofinn.

Mögulegt vandamál í skaufahreinsun

Sumir hestar eru mjög viðhvæmir fyrir þessu svæði (skiljanlega) og verja sig ákvaft meðan verið er að skaufahreinsa jafnvel þó að hann sé dópaður, ég veit bæði um dæmi þar sem við vorum 3 að halda hestinum meðan á þessu stóð og dýralæknirinn varð ítrekað að hætta og stökkva frá þar sem hesturinn sem aldrei var slægur áður sló til hans, þessi hestur var ÓÞokki minn, hann var mjög viðhvæmur fyrir því ef einhver strauk nærri náranum fyrst á eftir ógnaði fólki þar sem hlandsteinninn hafði virkilega kvalið hann. Svo er það dæmi þar sem að gefa þurfti hesti tvöfaldan skammt svo hann sætti sig við hlutina og dýralæknirinn gæti sinnt sínu starfi.

Að lokum.


Ég vona að þessi grein hafi orðið einhverjum til fróðleiks og verði því til forvarnar að einhverjir hestanna ykkar hérna á huga verði fyrir þeim kvölum sem Þokki minn varð fyrir, en líklega er þessi reynsla það sem gerir klárinn svo skapillan inn á milli í dag.

Ég hef það fyrir reglu að skaufahreinsa árlega, en margir gera það aðeins á tveggja eða jafnvel þriggja ára fresti en þá líka aukast líkurnar á að þetta eigi eftir að há honum, þó svo að sumir hestar fái aldrei nokkurn hlandstein.
-