Ég fór svolítið að velta því fyrir mér hvort glasið væri hálffullt eða hálftómt eftir að ég svaraði skoðunakönnuninni hérna áðan (ég sagði hálffullt).

Þessi spurning er dæmigerð fyrir heimspekitöffaraskap. Þ.e. fleygar setningar sem eiga að fá fólk til að velta einhverju heimskulegu fyrir sér. T.d. “Ég er því ég hugsa” - hvað þýðir það? Nei þú veist það ekki neitt þó þú haldir það! :)

Mér finnst (ekki það að ég sé einhver snillingur) fólk sem þykist vera heimspekilega þenkjandi oft tapa heimspekinni og sannleikanum úr því sem það fæst við. Til að finna sannleikann verðurðu að kynna þér allar hliðar málsins og skoða það svo út frá rökhyggju og með hlutlausu hugarfari, ekki rétt? Og svo þegar þú ert búinn að komast að sannleikanum, þá ertu um leið búinn að tapa honum vegna þess að þá ertu búinn að taka afstöðu og ert ekki lengur dómbær á málefnið…

Einnig; Ef þú lýtur á eitthvert málefni með linsum heimspekinnar þá ertu í raun að taka afstöðu með heimspekinni; þar af leiðandi ertu vaðandi í villu og svima.


Hvort er glasið hálffullt eða hálftómt?

Það fer að sjálfsögðu eftir því hvort þú ert að hella í það eða úr því, ef þú veist ekki hvort það var verið að hella úr því eða í, þá geturðu ekki vitað hvort glasið er hálffullt eða hálftómt.

En heimspekin fæst ekkert við það að komast að sannleikanum. Um hvað heimspekin snýst er í sjálfu sér heimspekilegt umræðuefni. Það er kannski það sem hún snýst um…

- Ég tek það fram að:
1) Ég hef lítið lesið um heimspeki
2) Ég hef lítið kynnt mér heimspeki
3) Ég er á engann hátt hæfur til að fjalla um heimspeki
4) Ég er heimsk-spakur
5) Ég er því mamma og pabbi hugsuðu ekki

“Skoðanir sem koma fram í greininni endurspegla á engann hátt nokkurn sannleika. Þær eru skoðanir margra, þangað til þeir sannfærast um annað. Aðrir eru því hvattir til að sýna sig og sannfæra aðra með því að svara með háð og skömm og draga ekkert undann”
- nefndin