Ég var einmitt nýlega að lesa grein sem heitir “the soul of man under Socialism” eftir hann Oscar Wilde, og ég sé hreint út sagt ekki eftir því.

Þetta er mjög áhugaverð grein og mér flestar þær kenningar sem hann setur fram virðast standast mínar skoðanir nokkuð vel. Mig langaði aðeins til að ræða um greinina hér og um það heimskipulag sem hann telur vera hvað æskilegast.
Hún er undir greinilegum áhrifum sósíalisma, auk þess að hann virðist sækja í kenningar frá anarkisma, og blandar síðan jafnvel inn kenningum Krists (en tekur hreint fram að það væri undir hverjum komið hvort hann vilji blanda trú inn í þetta málefni). Síðan tekst honum að blanda þessu öllusaman í einn pott, og er hreinlega kominn með ágætis samsuðu af kenningum.
Það sem ég dáist kannski mest af í þessari grein er að hann tekur það fram líkt og allir hugsandi menn að: “allar tegundir stjórna eru gallaðar”, sama hversu göfugir höfundarnir eru.
Ég vil bara minnast á það að þetta eru allt saman útskýringar mínar á greininni auk minna hugleyðinga, ég hvet ykkur til að skoða greinina sjálf til að mynda ykkar eigin skoðun.

Hann minnist á það að eignir eru í raun ekkert nema byrði á eigandanum, og á samfélaginu. Eignum er hægt að stela, og miklum tíma og peningum er varið í að verja sig gegn óhöppum.
Safnaraáráttan er greinileg í nútímaþjóðfélagi, enda ætlast þjóðfélagið hreinlega til þess að við eigum eignir til að geta talist gildur þegn í samfélaginu. Enda er hefðin oft á tíðum sú í dómstólum samfélagsins að skemmdir á eignum eru metnar meir en líkamlegir áverkar (ég hendi fram nauðgun sem einu af fjölmörgum dæmum).
Peninga verða allir að eiga til að geta komist “áfram” í lífinu. Til að stunda nám þarf peninga, og samfélagið dregur þig óafvitandi inn í vítahring eyðslu og skulda þangað til að þú ert algerlega búinn að tapa sjálfum þér.

Ef ríkið tæki við öllum eignum, og útvegaði þegnunum þess sem þeir þyrftu, þá myndi mismunur ríkra og fátækra hverfa. Stuldur á eignum hverfa þar sem það væri enginn markaður fyrir þjófnað. Sultur myndi hverfa með breyttu kerfi og samfélagshugsun.

“Allar tegundir siðmenninga þurfa sína þræla”
Hinn vinnandi maður er þræll samfélagsins. Ekki nógu ríkur til að ná á hæstu tinda, en samt nógu ríkur til að vera sáttur við sitt. Við skulum ekki gleyma því að undir 1% mannkyns stjórnar í raun auðæfum okkar allra.
Harðstjórar sem sýna undirmönnum sínum hörku eru auðþekkjanlegir og hataðir af þjóð sinni, en versta ógn alþýðunnar eru yfirmenn sem sýna vægð og góðvild.
Þessi staðhæfing fær mann til að hugsa aðeins betur um vinnuhvetjandi launakerfi. Verkamaðurinn er settur á alger lágmarkslaun markaðarins, en fær á móti það “tækifæri” að vinna sig upp í launum svo hann fái þá tilfinningu að hann sé að fá hærri laun en hann ætti í raun að fá.
Vinnuveitandinn verðlaunar hann fyrir þá vinnu sem hann átti hvort er eð að gera, og launþeginn er þakklátur, enda veit hann ekki betur. Almúginn er fastur í hugsun eignasöfnunnar og er haldið frá því að átta sig á raunveruleikanum með offlæði upplýsinga og múgsefjun.
En við Íslendingar þurfum ekkert að hafa áhyggjur af þessu, því að við búum við bestu þjóðfélagsskipun, besta veiðikerfi og minnst spilltu ríkistjórn í heiminum ekki satt?
Auk þess sem við erum með besta vatnið, fallegasta kvennfólkið og lifum öll í vellystingum þar sem enginn er fátækur í okkar þjóðfélagi.
Ekki satt?
Þau sósíalísku samfélög sem við könnumst við byggjast upp á fjöldanum, ríkistjórnin ræður öllu, og klíkur myndast innan valdasétta. Svipað og með kapítalisma, þar sem fyrirtækin mynda valdablokkir heimsins.
Einstaklingurinn er stórlega vanmetinn, og frelsi hans til aðgerða og menntuna er takmarkað eftir því hvað ríkisstjórnin vill mennta hann, eða því fjármagni sem hann hefur yfir að ráða.

Öll stjórnkerfi verða að gera ráð fyrir því að mannkynið er auðspillanlegt, og að enginn maður hafi of mikil völd í sínum höndum
Tökum til dæmis gömlu tugguna með forseta Bandaríkjanna, sem hefur undir sínu embætti stjórn allra herafla Bandaríkjamanna, auk þess sem hann stýrir öllum innanríkismálunum beint eða óbeint.
Lítum síðan á gömlu Sovétríkin, undir stjórn Stalíns, afskræmingu af sósíalisma. Og jafnvel Kastró, leiðtoga Kúbu. Ekki myndi lýðnum farnast neitt betur undir þeirra stjórn. Kostir kapítalismans augljósir yfir stjórn þessara herramanna, þó svo að báðir kostirnir séu slæmir. Enda situr þjóðarleiðtogi kapítalismans ekki að vild við völd.

Hvorugt þessara kerfa leyfa einstaklingnum að blómstra, enda ætlast bæði kerfin til þess að einstaklingurinn fylgi lögmálum yfirboðaranna. Þar kemur anarkisminn inn.
Hreintrúaður anarkisti trúir á algera óreiðu, og algert frelsi til aðgerða.
Greinin mælir reyndar ekki með þvílíku “skipulagi” heldur með sósíalísku skipulagi þar sem fulltrúar eru kosnir í stjórn af alþýðunni. Og þar sem stjórnin útvegar alþýðunni allt það sem hún þarfnast.
Svo sem heilbrigðisþjónustu, húsnæði, menntun að eigin vali án hamla og án endurgjalds. Enstaklingurinn á að fá algert frelsi til að velja sér sína lífsleið án þrýstings frá samfélaginu eða yfirboðurum.

“Ekkert landakort er þess virði að líta á, ef það inniheldur ekki að minnsta kosti eina utopiu.” En allar tegundir siðmenninga þurfa sína þræla. Jafnvel paradís.
Við þurfum einhvern til að vinna skítverkin, og enginn nýtur þess að þurfa að húkka í kolanámum heilu sólahringana, eða að sópa göturnar alla daga.
Öll sú vinna sem menn geta ekki notið brýtur niður andann.
Þetta er kannski of listamannleg hugsun fyrir marga, en samt rétt að mörgu leiti.
Menn verða að geta orðið stoltir af vinnu sinni, og hún verður að geta gefið jafnt sem hún tekur, líkamlega sem og andlega.
Enginn maður fæðist brotinn inn í þennan heim, heldur brýtur samfélagið hann niður með kröfum sínum og hefðum.

Frá fæðingu vélarinnar hefur maðurinn orðið þræll hennar. Oscar Wilde átti sér þann draum í þessari grein, þann draum að einhvern daginn gæti maðurinn notfært sér vélina til eigin nota. Að hún vinni með manninum og þjóni honum.
Að hún létti honum lífið svo að allar stéttir geti lifað betra lífi.
Til að vera í takt við tímann þá er hann að boða það samfélag sem okkur var sýnt í Matrix, samfélagið áður en vélarnar gerðu uppreisn. Vélar eða ekki engum viti bornum verum líkar við það að láta traðka á sér. Slíkt endar ávalt með ósköpum.

Þessi umfjöllun á líklega eftir að skapa einhverja umræðu, hérna á huga. Og ég býð hana velkomna, enda er alltaf gaman að fá skoðanir annara.