Smá pælingar um greinina sem birtist hér á heimspeki með sama titli. Þetta svar var orðið svo langt að ég ákvað að senda það inn sem sérstaka grein.

Í “The Matrix” er manninum líkt við vírus. Ég vil meina að maðurinn er ekki vírus sem slíkur, en þetta kerfi sem við köllum manninn er að öllum líkindum afurð tveggja “vírusa”, eða öllu heldur tveggja upplýsingakerfa. Annað þessara kerfa er genið, hitt þessara kerfa er memið. Genið er sjálfafritandi fyrirbæri sem skapar líkama okkar í þeim tilgangi að framleiða afrit af sjálfu sér. Memið er sjálfafritandi fyrirbæri sem skapar huga okkar í þeim tilgangi að framleiða afrit af sjálfu sér. Samtvinningur þessara tveggja fyrirbæra á sér stað í þróun mannsheilans. Þannig má segja að genin hafi skapað memin. Genin eru sköpuð af efnafræðilegum upplýsingaferlum sem sköpuð eru af öðrum upplýsingaferlum sem sköpuð eru af kosmískum ferlum sem sköpuð eru af metakosmískum ferlum o.s.frv.

Það má þess vegna segja að tilgangur lífsins sé okkur ekki endilega hulinn, svo framarlega sem við séum tilbúin að horfa hlutlægt á eigin tilveru. Eins og býflugan hjálpar við getnað blómanna gerum við svipaða hluti fyrir genin og memin. Þau eru fræin sem mannveran sprettur upp af, fræin sem henni vaxa og hún sáir síðan í jarðveg mannlegs samfélags.

Pirringur félaga okkar út í vestrænt samfélag er þess vegna pirringur út í memin sem skapa samfélagið. En það þarf hvorki niðurrif né byltingu til að breyta til. Það sem þarf til er ferli sem þegar hefur verið í gangi frá upphafi alheimsins: þróun.

Þróun á sér stað í öllum nægilega flóknum kerfum. Í slíkum kerfum eru þrjú atriði sem hafa áhrif á þróun: hversu oft upplýsingar eru afritaðar, hversu nákvæmlega, og hversu lengi upplýsingarnar endast. Genetísk þróun er tiltölulega hægfara (en þó leifturhröð miðað við kosmíska þróun). Memetísk þróun er aftur á móti mörgum milljón sinnum hraðvirkari en genetísk. Og það sem meira er; memetísk þróun hraðar stöðugt á sér. Því oftar, nákvæmar og lengur sem við getum skipst á upplýsingum, því hraðari verður memetísk þróun mannshugans.

Það merkilegasta við memetíska þróun er að það er á færi hugans sem hún skapar að hafa áhrif á hana beint. Við getum sjálf valið og hafnað memum sem hugi okkar afritar. Sum mem hópa sig saman í varnarvirki gegn öðrum memum, og er þróunin þannig ómeðvituð. Trúarbrögð eru góð dæmi um memavirki sem útiloka sterklega önnur mem. Pólítískar stefnur eru þannig einnig memavirki. En allra sterkasta memavirki í mannshuganum (a.m.k. í mannshuga sem við myndum kalla “heilbrigðan”) er sjálfið. Ef sjálfið er meðvitað um memetíska þróun, þá getur hugurinn sjálfur valið og hafnað memum með meðvitaðri ákvörðun.

Þetta kallast “memetic engineering” á enskunni, og er einfalt í framkvæmd innan þess huga sem slíkt framkvæmir. Aftur á móti er mögulegt, en erfiðara, að stunda slíkt “memetic engineering” á öðrum, og jafnvel á heilu samfélögunum. “The Matrix”, “Fight Club” og “The Communist Manifesto” eru til dæmis fyrirtaks dæmi um memetíska hvata sem stuðla að útbreiðslu ákveðinna mema og tekst einstaklega vel til.

Þetta gefur manni kannski von. Kannski getur maðurinn stjórnað þessari þróun. Kannski getum við reynt að breiða út memum sem eru uppbyggjandi og hjálpsamleg. Nei. Það getum við ekki. Því það eru memin sem stjórna manninum, en ekki öfugt. Allar tilraunir mannsins til að stýra þessari þróun eru þá lítið annað en þróunin að stjórna manninum að stjórna þróuninni. Ef til vill myndast í þeirri togstreitu þriðja upplýsingaflæðið. Eitthvað enn merkilegra en memetísk og genetísk þróun, eitthvað milljón sinnum hraðvirkara, langlífara og skilvirkara.