Ég vil byrja á því að segja það að ég er enginn heimsspekingur. Ég er bara meðalmanneskja með pælingar og spurningar, og ég hugsa ekki nema stundum. (Það eru ekki einusinni mjög gáfulegar hugsanir!) Ég hef þó tilhneigingu tilað reyna að skilgreina flesta hluti, en það á þó frekar við um tilfinningar en t.d. þá meiningu manna að þeir séu til. Samt geri ég tilraunir við og við.

Vinkona mín var að fara í heimspekipróf í fyrradag. Próf í heimspeki? Er manni ætlað að skilja það sem próf í hugsun? Hvernig ætlar prófdómarinn að lesa hugsanir nemendanna? Jæja, þegiég.

En allavega; hluti af glósunum sem þessi vinkona mín var að lesa yfir var alger steypa. Dygðir og lestir voru flokkuð í flokka, undirflokka og hvaðeina. Er það ekki bara nákvæmlega það sama og að reyna að draga skýr mörk á milli rétts og rangs?

Ég hreifst samt af tilraunum Sókratesar tilað fá fólk tilað hugsa. Ganga uppað því og spyrja það óþægilegra spurninga. Ég meina, hver fer ekki að pæla aðeins dýpra en venjulega þegar bláókunugur maður spyr mann hreint út: hvað er hugrekki? Nóg tilað gera heimspeking úr hverjum sem er.

René Descartes sagði: Ég hugsa og þessvegna er ég. Er rúmið sem ég sef í þá ekki? (Ekki hugsar það.) Sef ég þá liggjandi í tómarúmi, kviknakin og dreymandi ekkert? Er ég að misskilja eitthvað?

Ég er engin ofstækisfull efasemdamanneskja. Ég trúi í blindni á Guð og Jesú, ég er handviss um að ég ER til, og ég er nokkuð örugg um að mér þykir í raun og veru vænt um mömmu mína.

Þegar ég var smástrumpur var ég þó stundum með smávægilegar ofsóknarbrjálæðishugmyndir um að allir í kringum mig væru vélmenni, og í raun og veru væri ég sú eina sem sæi, hugsaði og dreymdi á nóttunni. Á tímabili hélt ég jafnvel að raddir annarra mannekja væri aðeins hugarburður minn, þó í takt við varahreyfingar “vélmennanna”.

Ætli þessar hugmyndir mínar hafi ekki verið sprottnar af því að ég var að uppgötva að ég sá í rauninni hluti og atvik með eigin augum, ég hafði sjálfstæðan vilja, og ég gat sagt það sem mig langaði til. (Enda talaði ég frekar mikið einmitt á þessum árum.) Ég fór að halda að ég sæi ekki það sama og aðrir, að aðrir sæju jafnvel aðra liti, eða á hvolfi. Eða, ef um vélmenni var að ræða; ekkineitt.

Flestir efast um tilvist sína á trítilsárunum. (Sbr. Fleiri greinar hérna á Huga.) Eða það held ég. Með komandi árum og þroska verðum við þröngsýnni og staðnaðri í hugsun. Ætli margir venjist ekki bara einfaldlega með aldrinum þeirri tilhugsun að heimurinn sé sjálfsagður hlutur. Sem hann er náttúrulega. Hvort sem hann er ímyndun eða fúlasta alvara, missýning eða gildra æðri máttarvalda tilað lokka okkur í glötun (ehm, ehm!) þá held ég a.m.k. að hann sé til, að ég sé til, og að ég búi í þessum heimi í sátt og samlyndi við hann og aðra. Þráttfyrir allt.

Og enn um þennan margumtalaða heim: Hvenær varð hann til? Hvað var fyrir þann tíma? Hvar endar hann? Hvað er fyrir utan endamörk hans? (Þetta voru nú bara svona klassískar aulaspurningar sem allir spyrja sjálfa sig að annað slagið og geta auðveldlega orðið geðbilaðir af.)

Ég og þessi vinkona mín (ég get því miður ekki komið með nákvæma skilgreiningu á vináttu, en ég er þess þó fullviss að við séum vinkonur,) ætlum að skreppa í bæinn eða Kringluna í páskafríinu. Við ætlum að labba uppað saklausu fólki og spyrja það spurninga. Bara svona tilað prófa. Við erum auðvitað engir Sókratesar. Komiði endilega með einhverjar hugmyndir að spurningum handa okkur…