Þegar fólk er komið á það stig að það er farið að lifa sínu eigin lífi og taka sínar eigin ákvarðanir þá kemur upp spurningin um tilgang. Til eru margar útgáfur af spurningunni, og við hverri spurninganna eru til mörg svör sem eiga fullan rétt á sér, jafnvel þó að þau séu í mótsögn hvert við annað. Þetta er aðeins örstutt yfirlit yfir nokkur atriði í þessum pælingum.

Til hvers erum við hér?

Þessarar spurningar spyrja þeir sem trúa að til sé eitthvað æðra og merkilegra en við sjálf, og að við séum hér til að fylgja vilja þessa “æðra máttarvalds”. En til hvers er ætlast af okkur? Svar náttúrunnar væri að við eigum að tryggja áframhald lífs á jörð. Berum þetta saman við ofurmenniskenningu Nietzsches. Markmiðið með henni var einnig að tryggja áframhald lífsins, þó að aðeins þeir sterkustu fái að lifa.

Ef við aðhyllumst einhver trúarbrögð þá fela þau í sér einhverskonar boðorð til að fara eftir og markmið til að ná. Andstætt þessu öllu er að fólk eigi að finna sinn eigin tilgang og reyni að finna hjá sjálfu sér hvað gefur lífinu gildi.

Hvað gefur lífinu gildi?

Þessarar spurningar spyrja þeir sem hafa engar áhyggjur af því hvað “guð” vill, en hugsa frekar um sig og sína hamingju. Hamingja manns sjálfs er alltaf lokatakmarkið í þessari leit, vegna þess að það sem gefur lífi manns gildi gerir mann óhjákvæmilega hamingjusaman og sáttan við líf sitt.

Harald Ofstad nefnir fimm höfuðgildi: 1) Leit að þekkingu og skilningi á heiminum. 2) Að stunda réttlæti. 3) “Að skapa og njóta þess sem hefur fagurfræðilegt gildi” 4) Að njóta andlegrar og líkamlegrar vellíðunar. 5) Kærleikur. Öll þessi gildi skapa mönnum hamingju, og allt sem gefur lífinu gildi má setja undir þessi höfuðgildi.

Að lokum er vert að nefna eitt sem gefur lífinu gildi og veitir mönnum mikla hamingju. Það er það sem kalla má streymi eða flæði. Það er andlegt ástand sem maður kemst í þegar einbeiting er algjör og maður “fílar” það sem maður er að gera.

___________________________________
Þetta er smá heimaverkefni fyrir heimspeki 103 sem ég mun skila inn á morgun. Stuðst var við 5. kafla í kennslubókinni “Heimspeki” eftir Martin Levander.