LEd Zeppelin Í ensku hljómsveitinni Led Zeppelin voru fjórir menn. Robert Plant var
söngvari hennar, Jimmy Page var gítarleikarinn, John Paul Jones var
bassaleikarinn og John Bonham trommarinn. Sérhver þeirra er af mörgum talinn einn sá besti á sínu sviði innan rokktónlistar.
Þegar hljómsveitin The Yardbirds hætti átti hún ennþá eftir að halda
nokkra hljómleika á Norðurlöndum. Þetta var náttúrlega samningsbundið svo það sem Jimmy Page, gítarleikarinn, ásamt Chris Dreja, bassaleikaranum, varð að gera var að hnoða saman hljómsveit til að geta klárað dagskrána. Fljótlega hætti þó Chris Dreja svo Page hóaði í kunningja sinn John Paul Jones, bassaleikara sem hann hafði spilað aðeins með en þeir höfðu báðir verið að spila sem svokallaðir “session” hljómlistarmenn. Þá eru þeir ekki í neinni einni hljómsveit heldur hjálpa hinum og þessum hljómsveitum í hljóðverinu með hljóðfæraleik þegar þær eru að taka upp plötur. Jones hafði einmitt beðið Page um að hafa sig með í hvaða framtíðarverkefnum sem hann kynni að taka sér fyrir hendur svo að hann var meira en reiðubúinn að slá til. Þar með var Page kominn með bassaleikara. Ennþá þurfti Page trommara og söngvara. Page var bent á Robert nokkurn Plant sem þá var að syngja með hljómsveitinni Hobbstweedle.

Page fékk Plant til að ganga í hljómsveitina og það var svo Plant sem benti Page á John Bonham, trommara sem hafði á tímabili trommað með Plant í hljómsveitinni The Band of Joy. Eftir nokkra umhugsun ákvað Bonham að ganga í hljómsveitina. Fyrst kölluðu fjórmenningarnir sig The New Yardbirds og spiluðu þá á tónleikunum sem The Yardbirds höfðu áður verið búnir að lofa sig á. Mánuði seinna var því lokið og þá breytti hljómsveitin nafni sínu í Led Zeppelin. Sagan segið að nafnið Led Zeppelin hafi komið frá trommara The Who, Keith Moon, en hann hafi notað frasann: ,,It went down like a lead zeppelin“ eða ,,það féll eins og loftfar úr blýi” um misheppnaða tónleika. Nafnið var ekki beint viðeigandi þar sem þetta var byrjunin á einhverjum glæstasta ferli hljómsveitar í rokksögunni.
Led Zeppelin tók upp sína fyrstu plötu í október 1968. Stuttu seinna var hljómsveitin komin með samning við bandarísku plötuútgáfuna Atlantic Records og snemma árið 1969 voru Led Zeppelin komnir af stað í sitt fyrsta bandaríska tónleikaferðalag. Í janúar 1969 kom út fyrsta plata hljómsveitarinnar sem hét bara Led Zeppelin og komst sveitin strax ofarlega á vinsældalista í Bandaríkjunum og víðar. Fyrsta platan einkenndist af breskum blús sem á þessum tíma var mjög vinsæll eftir að tónlistarmenn eins og John Mayall, Cream og Jeff Beck höfðu gert það gott. Einnig mátti þar heyra áhrif frá þjóðlagatónlist og psychadelicu sem útleggst á íslensku sem skyn-örvandi rokk og er eiginlega hálfgert dópvímu rokk sem hljómsveitir eins og Jefferson Airplane, The Doors og The Grateful Dead hafa meðal annarra gert frægt.Næstu mánuði túraði hljómsveitin stíft um Bandaríkin og England ásamt því að taka upp plötu númer tvö sem hét því frumlega nafni, Led Zeppelin II og kom hún út í október 1969. Þessi plata gerði meira en áður hafði verið gert fyrir “Heavy Metal”. Já, það er rétt, tónlistin sem hljómsveitir eins og Megadeth og Metallica hafa gert fræga seinna meir byrjaði m.a. hjá Led Zeppelin en einnig voru Kiss, Deep Purple og síðast en alls ekki síst Black Sabbath mjög atkvæðamikil þegar kom að mótun þessa stíls. Í lögum eins og Whole Lotta Love sem er opnunarlag plötunnar eru Led Zeppelin að nota aðferðir sem seinna einkenndu Heavy Metal. Það eru stutt og síendurtekin gítarriff ásamt því að tónlistin sé gítardrifin, há, þung, mikill ryþmi og gítarinn sé stilltur á sérstakan hátt. Seinni platan var líka mjög vinsæl og gerði mikið til að festa Led Zeppelin í sessi sem eina af bestu rokkhljómsveitum þess tíma.

Áfram hélt hljómsveitin að ferðast um og komu m.a. annars við hér á
Íslandi og spiluðu á goðsagnakenndum tónleikum í Laugardalshöllinni.
Þeir gáfu svo út Led Zeppelin III í október 1970 og þar fór stíll
hljómsveitarinnar að verða auðgreindari og þróaðri. Enn mátti greinilega heyra blúsinn og metalinn sem hafði einkennt hljómsveitina fram að þessu en það var í raun ekki það sem þessi þriðja plata byggði á. Hún byggði meira á kassagítarshljóm og þjóðlaga-rokki ásamt því að hafa flóknari og háþróaðri hljóðfæraleik.
Í nóvember 1971 gaf Led Zeppelin út sína fjórðu plötu sem var ónefnd en bara kölluð Led Zeppelin IV og er hún af mörgum talin hápunktur ferils þeirra og hefur hún selst mest allra platna þeirra. Það skýrist líklega að vissu leyti af því að á henni var vinsælasta og frægasta lag þeirra, Stairway to Heaven, sem enn heyrist reglulega í útvarpi þó að það hafi aldrei verið gefið út á smáskífu. Sú plata er líka stútfull af klassíkerum og líklega sniðugast að byrja á henni ef þú vilt kynna þér
þessa hljómsveit sjálf(ur).Hún byggir í raun á öllu sem Led Zeppelin hafði gert á fyrri plötum og er þannig sú fjölbreyttasta af öllum þeirra
plötum. Hún inniheldur allt frá hinu rólega og þjóðlagarokks-lega Stairway to Heaven til hinna mjög svo rokkuðu Black Dog og When The Levee Brakes ásamt því að hafa hið hressa og gleðilega Misty Mountain Hop sem gerir létt grín af hippum.
Til að styðja plötur III og IV ferðuðust Led Zeppelin menn víða um en þó minna en áður og einbeittu sér þess í stað að því að spila á færri og stærri tónleikum. Síðan drógu þeir sig úr sviðsljósinu og tóku upp
fimmtu plötu sína, Houses of the Holy, sem kom út í mars 1973.

Houses of the Holy var tilraunakenndari en fyrri plötur og á henni
leyfði Led Zeppelin sér að slaka aðeins á og gera rólegri plötu en áður
og áherslan á þessari plötu er meira á þjóðlagarokk og lögin byggð á
melódíum meira en áður þrátt fyrir nokkrar undantekningar. Þeir eru líka með svolítið fönkað lag þarna, The Crunge og annað reggí-legt, D’Yer Mak’er. Kannski voru þeir bara að verða uppiskroppa með efni en útkoman samt sú að platan varð fjölbreyttari.
Á túrnum eftir þessa plötu slógu Led Zeppelin hvert aðsóknarmetið á
fætur öðru í Bandaríkjunum. Eftir það tók Led Zeppelin sér hvíld allt
árið 1974. Í febrúar 1975 gáfu Led Zeppelin svo út tvöfalda plötu,
Physical Graffiti sem varð strax mjög vinsæl og var á toppi
vinsældalista báðum megin Atlantshafsins.
Physical Graffiti var eiginlega óræð blanda af ýmis konar stílum og þar virkuðu mörg lög eins og inngangur í nýja tónlistarstefnu fyrir Led
Zeppelin. Þeir fóru líka lengra með marga af þeim stílum sem þeir höfðu verið að fikta við fram að þessu. T.d. er In My Time of Dying djúpur og vel slípaður blús og Down By The Seaside fer með kántrí-ið lengra en áður hafði verið gert.
Hafið var og áætlað langt hljómleikaferðalag í Bandaríkjunum eftir þessa plötu. Það var þó skyndilega stöðvað og öllum tónleikum sem eftir voru aflýst þegar Robert Plant, ásamt eiginkonu sinni, lenti í alvarlegu bílslysi í Grikklandi þar sem þau voru í fríi. Plant eyddi því sem eftir var af árinu í að jafna sig.Vorið 1976 gáfu Led Zeppelin svo út plötuna Presence.
Presence er í raun fyrsta platan þar sem Led Zeppelin fer að fara
áberandi aftur. Það mátti kannski heyra aðeins á Physical Graffiti en
þarna verður það greinlegt. Þrátt fyrir það rokseldist platan en
gagnrýnendur voru ekki jafnánægðir með hana og aðdáendur.

Presence heldur áfram á svipuðum nótum og Physical Graffiti en gerir
ekki jafn vel það sem gert var þar. Á henni eru epísk 10 mínútna löng
lög og þar á milli lög sem virðast vera lítið annað en leiðir til þess
að fylla upp í á milli löngu laganna. Þessi lög eru því ekkert sérstök
og í raun tekst Led Zeppelin ekki að gera nógu góða hluti með epísku
lögin heldur. Það eina nýja sem Led Zeppelin er að gera hér er eiginlega bara að semja lengri lög en þeir eru vanir. Án vafa slapp-asta plata Led Zeppelin.

Það var svo loksins 1977, þá um vorið, sem Led Zeppelin kom aftur til
Bandaríkjanna með túr. Nokkrum mánuðum seinna dó sex ára gamall sonur Plant, Karac, úr sýkingu og þá var túrnum aflýst. Lengi vel eftir það var framtíð Led Zeppelin mjög óljós. Robert Plant eyddi lokum ársins 1977 og byrjun 1978 einn með fjölskyldu sinni. Sumarið 1978 byrjaði hljómsveitin þó að vinna að nýrri plötu. Ári seinna fóru þeir í stutta ferð um nokkur Evrópulönd og í ágúst 1979 spiluðu þeir svo á tveimur stórum tónleikum í Knebwort í Englandi, þeim síðustu sem hljómsveitin spilaði þar í landi. Það var svo loks í september 1979 sem platan In Through The Out Door kom út eftir mikla bið og margar frestanir.

In Through The Out Door var sem betur fer mun betri en Presence og má það kannski að einhverju leyti þakka því að á þessum tíma hafði rokkið breyst og þar með komu nýir áhrifaþættir inn í tónlist Led Zeppelin. Þannig eru hljóðgervlar (sythesizer) að koma inn, en það höndlar Jones mjög vel, og þar að auki breyttar áherslur í trommuleiknum hjá Bonham. Platan er ágætlega fjölbreytt og kynnir nýjar hugmyndir en samt eru Led Zeppelin ekkert hættir að rokka eins og þeir höfðu gert áður. Þannig verður platan ágætis endir á glæstum ferli Led Zeppelin þó að hún hafi ekki alls ekki verið hugsuð þannig.

Þrátt fyrir vesenið sem hafði verið á hljómsveitinni undanfarin ár höfðu
þeir ekki misst tryggð aðdáenda sinna og platan seldist strax vel bæði í Evrópu og Ameríku. Í maí 1980 lagði Led Zeppelin svo stað í ferð um Evrópu sem reyndist vera þeirra síðasta. 25. september 1980 fannst John Bonham látinn en hann hafði kafnað í eigin ælu eftir mikla drykkju.
Led Zeppelin tilkynnti í desember sama ár að hljómsveitin væri hætt þar sem þeir gætu ekki haldið áfram án Bonham. Einhver frægasta, áhrifamesta og besta hljómsveit rokksögunnar var hætt. Tónlist hennar á fáa jafnoka þegar um er að ræða að vera einkennandi fyrir gullöldina svokölluðu og hún setti mark sitt á rokk 8. áratugarins meira en nokkur önnur.
Eftir þetta hófu þeir sem eftir lifðu sólóferil. Þeir hafa komið saman í
örfá skipti til að spila við sérstök tækifæri og hafa þá notið aðstoðar
sonar John Bonham, Jason Bonham, á trommunum. Einnig hafa verið gefnar út safnplötur með tónlist Led Zeppelin á seinni árum og þá nýlegast How the West Was Won árið 2003. Það er frábær tónleikaplata með flottum útgáfum af flestum þeirra bestu lögum. Einnig kom út DVD pakki með tónleikaupptökum á sama tíma.
Heimildir:
www.allmusic.com
www.wikipedia.org
Eyes down, round and round, let's all sit and watch the moneygoround.