KISS Daginn, ein grein um KISS hérna, tek fram að ég kýs að skrifa KISS með stórum stöfum og hananú! Enjoy…

KISS

Í upphafi voru félagar að nafni Gene Simmons(Gene Klein, fæddur í Haifa, Ísrael) og Paul Stanley(Stanley Harvey Eisen, fæddur í New York) saman í hljómsveitinni Wicked Lester. Gene spilaði á bassa en Paul gítar og söng. En meðlimir sveitarinnar voru með ólíkar hugmyndir um tónlist. Að lokum ráku Paul og Gene hina meðlimina og réðu nýja í staðinn. Það voru trommarinn Peter Criss(Peter Crisscoula, fæddur í New York), sem áður hafði m.a. spilað með Rolling Stones og gítarleikarinn Ace Frehley(Paul Daniel Frehley, fæddur í New York). Síðan breyttu þeir nafninu úr Wicked Lester í KISS. Þeir gerðu mjög mikið út á útlitið og klæddust mjög sérkennilega. Gengu í samfestingum og stígvélum. Máluðu sig í framan með málningu og gerviblóði.

Þeir héldu sína fyrstu tónleika á Manhattan 1973 og í febrúar 1974 kom út þeirra fyrsta plata, sem hét einfaldlega KISS. Þetta var nokkuð góð frumraun og innihélt hún m.a. lögin Strutter, Deuce, Kissin’ Time og Black Diamond. Hún náði 87. sæti á Bandaríska plötusölulistanum og singullinn Kissin’ Time náði 83 sæti. Ágæt plata en enn vantaði eitthvað uppá hana. Í nóvember sama ár kom út ný plata, Hotter Than Hell. Hún náði aðeins 100. sæti.

En nú voru þeir ákveðnir í að gera betur með næstu plötu, Dressed To Kill. Hún kom út í apríl 1975 og var þeirra besta plata til þessa. Náði alla leið upp í 32. sæti á plötusölulista Bandaríkjanna. Hún innihélt m.a. hið stórgóða lag, Rock And Roll All Nite. Þeir voru einnig duglegir að halda tónleika og eignuðust mikið af aðdáendum, sem flestir voru Amerískir unglingar. Nú var komið að því að slá virkilega í gegn, og gerðu þeir það með tónleikaplötunni Alive! Hún náði 9. sæti á Billboard listanum og var á honum í heilar 110 vikur! Gömlu lögin fengu nú að heyrast ‘live’ og þetta er að margra mati besta plata KISS.

Nú voru KISS orðnir eitt stærsta rokkband heims og urðu að fylgja frægðinni eftir með nýrri plötu. Sú kom út í mars 1977. Próduser var Bob Ezrin, sem hefur m.a. unnið með Lou Reed, Aerosmith, Pink Floyd og Alice Cooper. Platan náði 11. sæti á Billboard listanum en singlarnir Beth, sem trommarinn Peter Criss söng og Detroit Rock City náðu báðir 7. sæti auk þess sem Shout It Out Loud og Flaming Youth komust einnig inn á listann. Skömmu síðar fóru þeir á stórt tónleikaferðalag um Bandaríkin.

Eftir þessa frábæru plötu kom frá þeim ný plata að nafni Rock And Roll Over. Bob Ezrin próduseraði ekki lengur og Eddie Kramer tók við, en hann hafði unnið með Led Zeppelin og fleiri góðum. Platan, sem kom út 1976 innihélt tvo af þeirra stærstu lögum, Calling Dr. Love og Hard Luck Women, sem kántrítónlistarmaðurinn Garth Brooks koveraði síðar. Platan náði 11. sæti í Bandaríkjunum. Í könnun Gallup í Bandaríkjunum 1976 kom í ljós að KISS var vinsælasta hljómsveitin þar í landi.

Frægð þeirra var gífurleg þegar platan Love Gun kom út í júlí 1977. Ýmis söluvarningur tengdur hljómsveitinni var til sölu um allan heim. T.a.m. KISS kúluspil(pinball machines), andlitsmálning, nestisbox, teiknimyndasögur, nærbuxur, tölvuleikar og allt mögulegt. Margir voru á þeirri skoðun að þeir væru meira að hugsa um peningana en tónlistina og misstu margir álit sitt á þeim. Þrátt fyrir það voru þeir ennþá gífurlega vinsælir. Love Gun var þeirra sjöunda plata. Hún seldist upp úr öllu magni í Bandaríkjunum og náði alla leið í 4. sæti Billboard listans. Í laginu Almost Human tekur Frehley Hendrix sóló sem á líklega rætur sínar að rekja til þess að Eddie Kramer hafði verið að vinna með Jimi Hendrix.

KISS voru duglegir að halda tónleika og eignuðust alltaf fleiri og fleira aðdáendur. Í nóveber 1977 kom út platan Alive II. Þessi fjórfalda plata innihélt upptökur frá tónleikum í Los Angeles, fyrir utan nokkur lög sem voru tekin í Japan. Á fjórðu hliðinni voru ný lög og m.a. lag Dave Clarks, Any Way You Want It.
1978 gáfu allir meðlimir sveitarinnar út sólóplötur sínar sama dag í október. Plata Gene Simmons náði hæst, eða í 22. sæti en allar náðu þær inná topp 50.

Platan Dynasty kom út 1979 og var það þeirra síðasta plata saman. Platan innihélt ofursmellinn I Was Made For Loving You sem fór á toppin í flestum löndum, Rolling Stones lagið 2000 man og Dirty Livin. Ágæt plata en ekkert á borð við meistaraverkin Hotter Than Hell, Loge Gun og Destroyer.
Árið eftir hætti Peter Criss og í hans stað kom Anton Fig. Paul Stanley sagði um I Was Made For Loving You: “It was easy to write and made a lot of money”, eða “Það var auðvelt að semja og skilaði miklum peningum”. Þarna misstu margir af dyggustu stuðningsmönnum þeirra allt álit á þeim og nýju tónlistinni þeirra, töldu þá aðeins vera að gera þetta vegna peninganna. En vegna nýrri, og yngri aðdáenda héldu þeir ennþá vinsældum.

Árið 1980 gerðu KISS, með nýjan trommara, plötuna KISS Unmasked. Þetta var fyrsta platan síðan að Destroyer kom út, sem náði ekki í Platinum. Og ekki að ástæðulausu. Platan var eiginlega bara léleg. Eric Carr kom síðan inn sem trommari í stað Antons Fig. KISS vissu að næsta plata yrði að vera góð, annars mundu aðdáendum fara fækkandi. Þeir fengu til liðs við sig gamla próduserinn Bob Ezrin og voru tilbúnir í þetta nýja verkefni. Þetta fór ekki eins og ætlast var til. Platan, Music From “”The Elder”, eða bara The Elder, var virkilega slök og náði ekki einu sinni í gull. Á henni voru einungis 2 lög sem minntu á gömlu tímana, Dark Light og instrumental lagið Escape From The Island. Platan var seinasta plata Frehleys. Vinnie Vincent kom í staðinn.

Eftir The Elder stakk plötufyrirtækið þeirra upp á því að þeir gerðu best of plötu til að sýna fráfallandi aðdáendum að þeir væru enn alvöru þungarokkarar, ekki útbrunnir prog-rokkarar. Í maí 1982 kom út best of platan Killers. Hún innihélt 4 ný lög, I’m a Legend Tonight, Down on Your Knees, Partners In Crime og Nowhere to Run.
En þetta var ekki þeira eina plata á árinu. Í október kom út ný breiðskífa, Creatures Of The Night. Þetta var líklega þeirra besta plata síðan Love Gun kom út 1977. Hún innihélt mörg stórgóð lög og má það helst nefna Killer, War Machine, Saint And Sinner, eitt af bestu lögum KISS, Love It Loud auk einnar bestu ballöðu KISS, I Still Love You. Lagið Rock And Roll Hell, samið um Ace Frehley, sem var á leiðinni að segja sig úr bandinu. Þetta er ein vanmetnasta plata þeirra og stórgóð.

Það var kominn tími á breytingu, KISS sögðu skilið við andlitsmálninguna í september 1983, öllum að óvöru, og sendu frá sér plötuna Lick It Up, 18. þess mánaðar. Þessi plata seldist vel og varð sú fyrsta í 4 ár til að ná í platinum og náði hæst í 24. sæti Billboard listans. Þetta er vafalaust besta plata KISS eftir ‘málningarleysið’. Vinnie Vincent staldraði ekki lengi við í sveitinni og hætti eftir að Lick It Up tónleikaferðalaginu lauk. Margir vildu þó meina að hann hefði verið rekinn en það er önnur saga. Hann stofnaði síðan hljómsveitina Vinnie Vincent Invasion ásamt Bobby Rock(sem vann áður með m.a. Jimi Hendrix) ofl.

Eftir tvær sterkar plötur síðastliðin tvö ár var plata framundan. Aðdáendur sveitarinnar bjuggust við góðu verki frá þeim. Platan Animalize kom út 13. september 1984 og var Mark St. John kominn í stað Vinnie Vincent. Þriðji gítarleikarinn á þrem árum(Frehley, Vincent og St. John). Það voru fá sterk lög á plötunni, að undanskildum slagaranum Heaven On Fire. Alls ekki jafn góð plata og fyrri tvær.

Um þessar mundir voru KISS aðeins skugginn af sjálfum sér. Gítarleikaravandræðin héldu áfram og Mark St. John hætti og Bruce Kulick kom í hans stað. Í september 1985 sendu þeir frá sér plötuna Asylum. Fyrir utan singulinn Tears Are Falling þá eru flest lögin þarna betur gleymd. Ein þeirra versta plata.
2 árum og 2 dögum eftir að stórslysið Asylum kom út kom út platan Crazy Nights. Þessi plata var gerð með von um að KISS kæmist aftur á kortið, tónlistarlega séð. Þegar menn héldu að KISS gætu ekki sokkið dýpra þá kom út platan Crazy Nights. Margir töldu að dagar KISS væru taldir. Titillagið og Reason To Live fengu nokkra spilun í útvarpi, bara af því að lagið var eftir KISS, enda ekkert varið í megnið af lögunum.

Síðustu tvær plötur voru ekki í líkingu við gömlu klassíkina og nú reyndi á að koma sér á beinu brautina á ný. Með plötunni Hot in the Shade sem kom út 1989 var allt á uppleið. Flestir voru sammála um að þetta væri betri plata en síðustu tvær. Hún innihélt þeirra stærsta slagara síðan Beth af plötunni Destroyer frá 1976, lagið Forever. Lagið Read My Body var sagt eftirherma af Def Leppard laginu Pour Some Sugar on Me. 1991 gerðist sá sorglegi atburður að Eric Carr, trommari KISS til 11 ára, lést vegna krabbameins. Sorglegur endir á lífi þessa frábæra tónlistarmanns. Hann er grafinn í Cedar Hill Mausoleum í New York.

Fráfall Eric hafði mikil áhrif á meðlimi KISS og kom ný plata út 1992. Þá hafði aldrei liðið jafn langur tími milli platna. Grunge stefnan var í hámarki en þrátt fyrir það höfðu KISS enn áhrif á marga tónlistarmenn. M.a. Lenny Kravitz og Trent Reznor. Í stað Eric Carr kom nafni hans Eric Singer, sem hafði m.a. unnið með rokkkóngunum í Black Sabbath. Platan Revenge var nokkuð góð miðað við síðustu 3. Lagið Carr Jam 1981 var samið um Eric Carr og slagarinn God Gave Rock N Roll To You fékk mikla spilun í útvarpi og platan náði mikilli sölu og fór upp í 6. sæti Billboard listans.

Á tónleikaferðalaginu sem fylgdi sterkustu plötu þeirra í langan tíma, Revenge voru bestu lögin af því tekin og sett á tónleikaplötu. Platan hét að sjálfsögðu Alive III og innihélt m.a. Heaven’s on Fire, I Was Made For Loving You, Rock And Roll All Nite og Detroit Rock City.

1996 gerðist það að aðdáendur KISS fengu tækifæri til að sjá þá spila órafmagnað í fyrsta skipti þegar þeir héldu órafmagnaða tónleika á vegum MTV tónlistarstöðvarinnar. Eigendur stöðvarinnar báðu Gene og Paul að halda órafmagnaða tónleika og fá með sér fyrrum meðlimi KISS, Peter Criss og Ace Frehley. Þeir samþykktu það og tónleikarnir heppnuðust með miklum ágætum. Þeir byrjuðu á Comin’ Home og enduðu á Rock and Roll All Nite. Meðal annara laga voru Beth og Rolling Stones 2000 Man. Sumarið 1996 fóru KISS með Criss og Frehley á tónleikaferðalag og gekk það svo vel að Singer og Kulick hættu einfaldlega.

Áður en Gene og Paul tóku saman með Frehley og Criss höfðu þeir tekið upp plötuna Carnival of Souls:The Final Session með Eric Singer á trommum og Bruce Kulick á gítar. Hún átti að koma út um áramótin 95-96 en hætt var við það. Platan, sem kom út í október 1997 gerði ekki mikla lukku meðal tónlistarunnenda víðsvegar.

En KISS voru ekki hættir. Nú, með Frehley og Criss á ný, tóku þeir upp nýja plötu. Platan Psycho Circus kom út í september 1998 og eins og á seinustu plötum virtist allur kraftur farinn úr þeim. Þó náðu þeir að koma út nokkrum ágætis slögurum til að sætta aðdáendur. Þrátt fyrir slaka plötu, seldist hún verulega vel og náði 3. sæti í Bandarikjunum og 2. í Kanada.

Snemma á árinu 2000 hófu KISS svokallað Farewell tónleikaferðalag sem endaði 2001. Enn þann dag í dag eru þeir á tónleikaferðalagi um heiminn.

www.kissonline.com

Kv,
Massimo