Ég ákvað að skrifa þessa grein vegna þess að ég er farinn að hafa verulegar áhyggjur að þróun tónlistarinnar!

Ég er enn frekar ungur að árum og er ekki langt síðan ég byrjaði að hlusta á tónlist að nokkru ráði. Nú er ég búinn að kaupa mér þónokkra diska og hlusta á þá. Ég byrjaði að kaupa mér nýlegar popp- og rokkplötur (samanber Creed, Staind, Metallica og Coldplay) fín tónlist og allt það. En síðan ég byrjaði að hlusta á eldra rokk (samanber Led Zeppelin, Meat Loaf, CCR, Dylan, Deep purple og Queen) þá hefur þessi nýrri tónlist varla ratað í spilarann.

Ég er ekki að segja að nútíma hljómsveitir séu lélegar, alls ekki, margar sveitir eru að gera fína hluti t.d. Coldplay, Red hot chili peppers og Queens of the stone age. En það sem ég er að reyna að segja að þessar hljómsveitir ná ekki upp í sömu snilldina og gömlu klassísku félagarnir. Það er bara eitthvað svo grípandi og þægilegt við gömlu tónlistina.

Það er ekki þannig í dag að menn hópast niður í Skífu til að kaupa nýjustu plötuna með Palla og Nonna. Einnig er það óþolandi hvað það líður langur tími á milli platna (yfirleitt tvö-þrjú ár). En í gamla daga gáfu menn út jafnvel tvær plötur á ári. En af hverju? Jú, því núna eru menn bara að gefa út nýtt efni vegna peninga en ekki vegna ástríðu (ein mesta ástríða í söng sem hægt er að finna er þegar Freddie Mercury syngur Let me live). Einnig finnst mér ömurlegt þegar hljómsveitir láta sér nægja að túra um Bandaríkin þegar það gefur þeim nóg í vasann. Enda fáum við sjaldan hljómsveitir hingað á klakann. Einfandlega vegna þess að þær græða meira að spila á meginlandi Evrópu og í USA. Þó hafa Led Zeppelin komið, Dylan kom og Bob Marley ætlaði að koma.

En hverjum er þetta að kenna? Er það MTV og allri þeirri skítamenningu eða er það okkur kaupendum og hlustendum að kenna. Hver veit hver á sökina.

Því spyr ég eru einhverjar hljómsveitir á sínu blómaskeiði núna sem eiga eftir að verða dáðar eftir ca. 30 ár?
Nei, ég held bara ekki.

P.S. Þetta er mín fyrsta tilraun til að skrifa grein og ég vona að henni verði tekið vel. Að lokum vil ég minna á það að Bob Marley er kóngurinn.