Mývatnsferð, dagur 2 og 3 Mývatnsferð, dagur 2 & 3

Ekki náði ég að lesa nema nokkrar síður í bók Heinrich. Þrestirnir í skóginum sáu um að svæfa mig og ég vaknaði kl. 9 næsta morgun. Sólin skín en það blæs þó nokkuð. Kannski næ ég einhverjum myndum þrátt fyrir slæma veðurspá. Ég dríf mig af stað og held för minni áfram í átt að Mývatni. Ekkert spennandi sé ég fyrsta spölinn þennan daginn enda er vegurinn frá Silfrasöðum og að Öxnadalsheiðinni einn sá leiðinlegasti á norðurleiðini, blindhæðum og einbreiðum brúm er þar vel blandað saman. Lítið er um umferð og keyri ég rólega að vanda. Ég er sennilega álitinn bölvaður sleði en ég hinsvegar fer óspart út í kant og safna ekki upp bílalestum fyrir aftan mig.

Þegar kemur niður í Öxnadalinn fer ég að sjá Þúfutittlinga og nokkrar Straumendur sé ég frekar ofarlega í dalnum. Aðra Straumönd sé ég í “Höfuðstað Kóks Í Gleri” eins og stendur á skilti þar í bæ. Af hverju Akureyringar kippa þessu fáránlega skilti ekki niður eða skipta út “gleri” fyrir “bauks” skil ég ekki. KEA sér um að fylla nestisbaukinn minn og ég held áfram til Húsavíkur.

Sóleyar, fíflar og lúpína lita upp nágrenið þegar ég keyri út Eyjafjörðinn. Ég keyri frekar greitt þar sem sólin skýn og ég væri alveg til í að fá smá sól á leiðarenda. Næst stoppa ég í Húsavík og þar býður frænka mín og hennar fjölskylda mér í grillaðan silung. Eftir mat og síðan kaffi legg ég í hann og er næsti áfangastaður Mývatn.

Rétt áður en komið er að Mývatni sé ég hvar aldraðir túristar eru að reyna að koma húsbíl sínum upp á veginn. Ég hægi á mér og fylgist með þar sem þau rembast við að moka sandi undir annað framhjólið og spóla honum síðan út í móa. Ég stoppa og reyna að aðstoða þau. Á endanum dreg ég ferlíkið upp með Terrano trukknum mínum sem er svona 1/3 af stærð húsbílsins. Ég fæ rauðvínsflösku fyrir vikið þrátt fyrir mótmæli mín. Eftir þetta er leiðin greið að Mývatni.

Loks sé ég vatnið og keyri suður meðfram því að vestanverðu. Á þessari leið sé ég margar endur vatnssins: Rauðhöfða, Húsönd, Duggönd, Stokkönd, Hávellu, Urtönd, Gargönd. Einnig Hrafna, Óðinshana, Stelka, Himbrima og fleira. Þegar ég fer yfir Laxá fer ég að skimast eftir Straumendum en sé ekki. Þegar kemur að Álftagerði legg ég bílnum og tek fram myndavélina og geng að vatninu. Þar sé ég að Flórgoðaparið sem sat á hreiðri fyrir tveimur vikum eru með 2 unga. Annað krílið skríður á bak móður sinnar þegar fjölskyldan tekur eftir ógurlega ferlíkinu með myndavélina nálgast. Ég mynda aðeins þessa fjölskyldu, svo og Óðinshana og Hávellu sem velkjast um í öldunum. Það er ansi hvasst og ég tel að myndirnar gætu orðið betri ef það lægði aðeins.

Nú fer í inn í íbúðina (sem maður frænku á Húsavík ólst upp í) og hita mér kaffi og fæ mér brauðbita. Síðan fer ég aftur niður að vatni og hrelli Flórgoðana aðeins meira og einnig Rauðhöfðarkollu með 9 unga. Nú tek ég mig til og keyri kringum vatnið, stoppa hér og þar og reyni að mynda eitthvað af fuglum. Við Laxá sé ég 2 ljósmyndrar með 2 hvítar kanónur (lesið: “með miklu flottari linsur en ég”). Síðan fer ég og geri tilraun við að ljósmynda nokkra Rauðhöfða við Álftagerði en geri lítið annað en að fæla greyin burt. Nú fer ég í íbúðina og fæ mer kvöldverð. Ég held áfram að lesa bók Heinrich og sofna svo.

Næsta morgun vakna ég klukkan átta og það er bara glampandi sólskin! Ég dríf mig út og skrölti niður að vatninu, mynda aðeins nágrenið og keyri síðan af stað og skoða Neslöndin betur. Ég sé að ljósmyndararnir 2 eru komnir á kreik. Á Neslöndunum fer ég og mynda Hávellupar en mér bregður ansi þegar ég fæli upp Rauðhöfða sem ég sá ekki mun nær mér. Ég mynda Hávellurnar um stund og síðan keyri ég norður fyrir vatnið og nú er orðið nær alskýjað. Ég ákveð því að leggja bara að stað í bæinn. Ég geng frá dótinu í bílinn og legg að stað. Við Laxá sé ég ljósmyndarana og ákveð að heilsa upp á þá. Þetta reynist vera atvinnumenn frá Svíþjóð og ætla að vera á landinu í 3 vikur. Þeir voru á Langanesi fyrir nokkru að mynda Súlur og stefna næst á Látrabjarg. Síðan ætla þeir suður og einnig í Landmannalaugar og víðar. Ég kveð þessa prýðismenn og geng upp með Laxá og mynda Straumendir, Húsendur, Hávellur og Óðinshana.

Leiðin í bæinn var frekar óspennandi, skýjað og rigning mikin hluta leiðarinnar. Því læt ég þar við sitja og vona að þið hafið haft gaman af þessum frásögnum.

Fuglamyndir úr ferðini, svo og aðrar má sjá á <a href="http://www.simnet.is/jakobs">heimsíðu minni</a>.