Hrafninn ég sá að það er langt síðan það var send inn góð grein um einhverja fuglategund svo að ég setti saman smá umfjöllun.



Hrafninn er staðfugl og algengur um allt land. Hrafninn er stærstur spörfugla og getur vegið um 1200 - 1600 grömm.


Hann er allur biksvartur, hamur, goggur og tær og engin munur á kynjum eða ungum og gömlum hröfnum. Nefið er stórt og sterklegt, fætur frekar langir og klær bognar.

Vængir eru stórir og breiðir og vængendinn gleiður. Hrafninn er auðþekktur á stærð, lit og rödd.

Hrafninn er alæta, fæðan er þó mest úr dýraríkinu, bæði hræ og dýr sem hann drepur en hann er skæður eggja- og ungaræningi. Hrafninn fer líka í sorp og allskonar úrgang og einnig étur hann ber, ávexti og korn.

Hrafninn verpir snemma, stundum síðast í mars, en oftast um miðjan apríl. Hrafninn byggir sér stórt og fyrirferðamikið hreiður á stöðum sem erfitt er að komast að, venjulega í klettasyllu en líka stundum á mannvirkjum svo sem útihúsum, háspennumöstrum, brúm og jafnvel í trjám.

Hreiðrið kallast laupur. Hrafninn safnar alls konar drasli í það, t.d. þangi, fiskbeinum, dauðum trjágreinum og jafnvel járnarusli. Hann gætir þess að hafa mýkra undir eggjunum sjálfum. Þau hvíla á mosa, grasi eða ull. Hrafninn verpir 4-6 eggjum. Ungarnir koma úr eggjunum eftir tæpar þrjár vikur og verða fleygir um miðjan júní. Bæði kyn sjá um útungun og uppeldi unganna.

Íslenski hrafnastofninn er talinn telja um 2000 varppör og um 9000 geldfugla. Hrafnar eru ofsóttir og á hverju ári eru drepnir rúmlega 6000 hrafnar. Af þessum sökum hefur hröfnum fækkað, m.a. í Þingeyjarsýslum, og hrafninn er á válista Náttúrufræðistofnunar. Hrafnar verða kynþroska 2–4 ára gamlir. Elsti þekkti hrafn á Íslandi var um 13 ára þegar hann dó.

Hrafnar eru auðtamdir og næmir, þeir geta lært ýmis hljóð og jafnvel lært að segja nokkur orð.

Hrafninn var fugl Hrafna-Flóka og hann var líka fugl Óðins en hrafnar hans, Huginn og Muninn, voru tákn visku og spádómsgáfu í norrænni goðafræði.

Hrafninum fylgja ýmsar sagnir. Ein er sú að hver sá sem reynir að ósekju að steypa undan hrafni, drýgi synd og verði ólánsmaður. Það er líka sagt að “Guð launi fyrir hrafninn” sem er ekki slæmt þegar þröngt er í búi. En hrafninn hefur einnig sína galla því hann er bæði glysgjarn og þjófóttur.


Heimildir: www.namsgagnastofnun.is
www.krummi.is