Jæja, ég var að skiptast á skoðunum hér í vor um Mosa minn, sem er rúmlega 1 og 1/2 árs Dísarfugl. Hann átti það til að koma fljúgandi og reyna að bíta, helst í andlitið! Ekki gaman, en mjög blíður þess á milli.
Mér var ráðlagt að láta klippa fjaðrirnar hans, sem ég gerði eftir góða umhugsun. Og viti menn, hann er mun skemmtilegri fugl en áður, jafnvel þó hann væri alger dýrðardindill fyrir.
Hann er samt sem áður skapmikill fugl sem vill ráða. Og mér var sagt að hann mundi kannski reyna að taka flugið svona tvisvar eða þrisvar eftir klippingu, svo bara hætta þegar hann sæi að hann gæti ekki flogið! En, nei nei, ekki hann Mosi minn, þverhausinn, hann hefur reynt að fljúga æ síðan. Hann gefst ekki upp.Og nú eru fjaðrirnar smá að koma aftur og hann finnur það, og fær sko byr undir báða!! Ég þarf að fara með hann í jólaklippingu í vetur! En ég mæli eindregið með svona aðgerð ef einhver á í vandræðum með að hemja fuglinn sinn.
Svona fuglar eru yndislegir félagar og vinir. Mosi er skapstór og getur verið óttaleg frekjudós, en þá bara set ég hann í búrið sitt, og þá verður hann blíður og bljúgur eins og barnslundin eftir smástund.
Páfagaukar eru hreint alveg frábær dýr, en þurfa talsverðan tíma og þolinmæði. Þeir eru sannarlega vinir vina sinna.