Að kúka í klósettið Þú þarf einungis þrennt til að kenna fuglinum þínum að kúka í klósettið: “klósett”, smá tíma og þolinmæði. Gott er að útbúa lítinn T-stand sem klósett og setja bara smá pappír undir til að auðvelda þrif. Það sem ég gerði var að ég útbjó stóra leikgrind sem var jafnframt klósett til að hafa hér heima og svo lítinn T-stand sem ferðaklósett þar sem við förum gjarnan saman í heimsóknir. Að sjálfsögðu er alveg nóg að gera einn T-stand.
Það sem við gerum er að setja fuglinn á klósettið. Gott er að gera það strax og fuglinn kemur úr búrinu sínu því það er oft með þeirra fyrstu verkum að kúka. Þegar fuglinn hefur komið sér fyrir á klósettinu sínu er einfaldlega sagt “kúka”. Fuglinn á væntanlega eftir að horfa á ykkur með furðusvip, en þið endurtakið bara kúka og ekki líður á löngu að fuglinn kúki. Þá hrósið honum í hástöfum, takið hann og kjassið við hann og segið honum hvað hann sé duglegur! Fuglinn er eflaust undrandi á þessum látalátum, en eftir nokkur skipti fattar hann að þegar hann kúkar fái hann hrós og þá vill hann gjarnan endurtaka atburðinn. Fuglar kúka að meðaltali á 20 mínútna fresti svo það er ykkar ábyrgð að setja hann aftur á standinn sinn og segja “kúka”. Þeir eru yfirleitt mjög fljótir að ná þessu, t.d. var hann Breki minn einungis 3 daga að verða alveg húshreinn. Ef ég er ekki nógu dugleg að leyfa honum að fara á standinn sinn eða að ég er ekki með neitt klósett á mér, þá veit hann alveg að mér finnst ekki gaman að fá fuglaskít á fötin mín, svo hann er svo elskulegur að bakka aðeins af öxlinni á mér svo að skíturinn falli frekar á gólfið en á peysuna mína :) Ég hef heyrt þessa aðferð virka hjá allflestum fuglategundum nema hjá gárum. Það þýðir ekki að gárar geti ekki lært þetta, en ég veit ekki til þess að það hafi gengið hingað til. Vil minna aftur á að það er töluverður greindarmunur á t.d. gárum og ástargaukum.
Svo er um að gera að grípa gæsina þegar fuglinn gerir eitthvað flott. Breka mínum finnst t.d. ekkert sérlega gaman að hanga inni í búrinu sínu, en einu sinni þegar hann var innilokaður og ég var að fylgjast með honum fór hann í hring á prikinu sínu. Ég stökk upp og sagði “VÁ!!! Duglegur!” og hleypti honum út. Núna fær hann ekki að koma úr búrinu án þess að fara í hring fyrst fyrir mig. Stundum á hann reyndar til að horfa á mig með “farðu bara sjálf í hring” svip, en þá labba ég bara í burtu eins og ég hafi engan áhuga á honum, kem svo aftur eftir 5 min og þá er hann alltaf til í að fara í hring fyrir mig!
Gangi ykkur vel!
- www.dobermann.name -