Álftin (svanurinn) er bæði staðfugl og farfugl og er stærsti varpfugl á Íslandi. Álftin er auðþekkjanleg frá öðrum fuglum af stærð og lögun. Hún hefur langan háls, svarta fætur, svartan gogg sem er gulur við rótina og dökk augu. Hálsinn er mjög gagnlegur fyrir hana við að leita að æti. Álftin leitar að fæðu bæði á landi og í vatni. Hún borðar samt aðallega vatnlendisgróður (gróður af botnum grunnra vatna og tjarna). Þegar hún leitar í vatni þá stingur hún meirihlutanum af skrokknum í kaf. Álftin velur sér maka sem hún heldur tryggð við ævilangt síðan verpir hún eggjum þegar hún er u.þ.b. 3-6 ára. Hún býr til hreiður úr mosa og grasi sem hún rífur upp úr jarðveginum. Hreiður hennar er kallað dyngja.
Hún notar sama hreiðrið ár eftir ár. Í maí verpir álftin 3-6 eggjum í hreiðrið. Þegar ungarnir klekjast úr eggjunum eru þeir öskugráir að lit með fölbleikan gogg sem er dökkur fremst. Álftin er venjulega félagslyndur fugl, heldur sig í stórum hópum en ekki á varptíma því þá þurfa álftapörin að verja unga sína. Eins og flest allir andfuglar þá byrjar álftin að missa flugfjaðrir sínar síðsumars og verður þá ófleyg um tíma. Flugið hjá álftinni er kröftugt með sterklegum og frekar hægum vængjatökum. Rödd álftarinnar er hávært og mikið garg sem minnir á lúðrablástur. Það eru ekki allir sammála um það hve fögur röddin er. Álftirnar kvaka stundum þegar þeim líður illa en þá kvaka þær angurblíðum rómi.
Sagt er að hún kvaki fegurst þegar hún er að dauða komin. Þegar álft er í hættu eða er ógnað þá byrjar hún að blása og hvæsa. Það er sagt að þetta geti verið banvænt og maður eigi að halda sig fjarri álft sem er í þessum ham. Einnig er sagt að maður geti orðið holdsveikur af þessu. En þetta er bara hjátrú og örugglega ekkert vit í þessu. Álftin var áður fyrr mikið veidd en nú er hún friðuð.

Þetta er úr ritgerð sem ég skrifaði
Langaði bara að senda eitthvað inná og vissi ekki um neitt annað til að senda