Fuglalíf Þetta er fyrsta greinin mín hér á þessu áhugamáli og mig langar til þess að fjalla um fuglalífið á golfvellinum mínum sem er staðsettur á Vífilsstöðum í Garðabæ. Þar sem ég spila mikið golf og er á golfvellinum nánast alla daga, allann daginn hef ég kynnst fuglalífinu þar. Völlurinn liggur í fallegu umhverfi og má þar nefna Smalaholtið sem stendur upp úr. Nokkrar tegundir fugla sveima þarna um meðan ég er að spila völlinn og má þar nefna stelk, skógarþresti, endur, gæsir, lóur, hrossagaukar og spóar svo einhverjir séu nefndir. Mikið er að hreiðrum á svæðinu og hef ég fundið nokkur hreiður og t.d. hef ég fundið þrjú lóuhreiður.

Eitt hreiðrið var staðsett við 1. teig á vellinum og var það alveg falið og ég steig næstum á það. Ég tók bara eftir því þegar lóan flaug skyndilega upp og mér brá smá. Þá snarstoppaði ég og leitaði og þá stóð ég svona 10 cm. frá því. Í hreiðrinu voru fjögur egg. Á sömu braut (1. braut) er lítill skógur með grenitrjám og öspum og þess háttar trjám. Ég varð fyrir því óhappi að skjóta inní þennan skóg og ég er að leita að kúlunni í rólegheitunum og þá flýgur skyndilega þröstur úr einu trénu. Mér var náttúrulega brugðið ekki frekar en fyrri daginn og kíki í tréð. Þar var lítið hreiður og í hreiðrinu voru fjögur egg. Ég ákvað að kíkja á hreiðrið í gær og voru þá ungarnir komnir og var smá fiður komið á þá.

Í dag var ég einnig að spila með félögum mínum og vorum við að pútta á 4. flöt og þá heyrðist þessi yndislegi fuglasöngur. Ég lít við og sé þennan fallega skógarþröst sitja á teigarmerkinu á 5. braut og söng hann mjög fallega. En þegar við nálguðumst flaug hann eins og vant er í burtu en settist á stein sem var ofar í hlíðinni og hóf sönginn á ný. Sjaldan eða aldrei hef ég heyrt jafn fallegan söng og þennan.

Alltaf þegar ég er á vellinum og er að spila 7. braut en á þeirri braut eru einmitt þrjár tjarnir og á þessum tjörnum sé ég oft andahjón syndandi á tjörnunum með ungana sína átta. Þeir eru pínkulitlir og voðalega krúttlegir. Einnig er mikið af stelk á vellinum og ég verð bara að segja eins og er að ég þoli ekki þennan fugl. Þrátt fyrir að þetta sé fallegur fugl og allt það þá þoli ég bara ekki gargið í honum þegar maður nálgast varpsvæðið hans. En það er bara mitt álit á þessum fugli.

En ég hef ekkert meira að segja um fuglalífið á Golfvelli Kópavogs og Garðabæjar. Ég kveð að sinni og ég vona að þið hafið haft gaman af þessari litlu samantekt um fuglalífið á vellinum.
Takk fyrir mig
Geithafu