African Grey Til hamingju með fuglaáhugamálið kæru Hugarar! Í tilefni dagsins langar mig til að fræða ykkur aðeins um minn uppáhalds fugl sem kallast á ensku African Grey Parrot. Hann er eins og nafnið bendir til upprunninn í Afríku og skiptist í tvær deilitegundir; Congo African Grey (CAG) og Timneh African Grey (TAG). Congóinn telst miðlungsstór, ljósgrár að lit með svartan gogg og rautt, stutt stél sem er aðaleinkenni tegundarinnar. Þeir vega milli 400 og 650 grömm. (Flestir hafa eflaust séð fuglinn Jakob í Blómaval, en hann tilheyrir einmitt þessari tegund.)
Timneh-inn er heldur minni (275-400 gr.), auk þess að vera dekkri á lit og með vínrautt stél. Báðar tegundir geta náð 50-70 ára aldri með réttri umönnun.
Þessir fuglar hafa ótrúlega hermi-hæfileika (betri en nokkur önnur tegund fugla). Þeir geta lært að apa upp orð og frasa, auk allra mögulegra hljóða. Margar sögur fara af fuglum sem herma eftir dyrabjöllunni, símanum, og meira að segja geltinu í hundinum! Flestir byrja þeir á þessu um eins árs aldurinn, þó sumir byrji fyrr og aðrir seinna, og þeir hafa hæfileikann til að ná upp 2000 orða orðaforða.
Þetta hljómar allt mjög skemmtilega, ekki satt, en þó verð ég að taka fram að það er engin trygging fyrir því að Grey-inn þinn muni tala, þó flestir geri það. Enda ætti það eitt aldrei að vera ástæða þess að fá sér svona krefjandi fugl. Ég segi krefjandi, því sá sem eignast fugl af þessari tegund (eða annarri stórri tegund) þarf að vera tilbúinn að veita honum athygli daglega og læra hvernig á að meðhöndla hann. Annars getur fuglinn orðið taugaveiklaður og hræddur við fólk (rétt eins og aðrir sem eru látnir dúsa einir úti í horni).
Því er haldið fram að African Grey fuglar hafi vitsmunaþroska 5 ára barns og tilfinningaþroska tveggja ára. Þeir eru því eins og áður sagði, krefjandi og þurfa mikla athygli og örvandi umhverfi sem ætti að samanstanda af stóru búri, fullt af ólíkum leikföngum og einnig er mælt með að hafa prik fyrir þá utan við búrið þar sem þeir geta setið og fylgst með því sem fram fer á heimilinu. Fari þeim að leiðast er hætta á að þeir taki upp á ósiðum eins og að reita af sér fjaðrirnar!
African Grey fuglar eru varkárir að eðlisfari og þurfa tíma til að aðlagast eigenda sínum og öðrum fjölskyldumeðlimum áður en þeir vinna traust þeirra. Þeir eru oft feimnir við ókunnuga og ber að umgangast þá rólega og ákveðið, og forðast læti og gassagang. En þegar þú hefur einu sinni unnið þér inn traust hans, þá áttu vin fyrir lífstíð, því þeir eru mjög hollir eigenda sínum og bindast honum sterkum böndum.