Mikið hefur verið rætt og ritað um Open Source hugbúnað undanfarna mánuði, hér eftir kalla ég það hugtak: opnar lindir.
Það er dálítið einkennileg umræða í gangi. Mjög vinsælt er að ræða um kosti opinna linda og yfirleitt virðist inntak þessarar umræðu vera árás á Microsoft.
Sömuleiðis er varla hægt að lesa um opnar lindir í greinum frá Microsoft nema þeir úthúði slíku glamri sem uppátæki hins vonda.
Ég styð opnar lindir heils hugar og skil vel áhuga fólks á slíku fyrirbæri. Hvers vegna? Líklega af mörgum ástæðum.
Ég nota mjög mikið MySQL gagnagrunna, svo mikið að ég ákvað að skrifa um það bók (sem þú getur lesið á http://www.isbok.is)
Mér líkar það helst við MySQL að ég get grautast fram og til baka í gagnagrunnsvinnslu í biðlara/miðlara vinnslu án þess að borga fyrir það. Að sjálfsögðu á ég við að ég er að grúska í áhugamennsku.
Frá upphafi tölvunotkunar minnar hef ég vanist því að geta fengið hugbúnað frítt og hef ég nýtt mér það. Ég grautast í alls konar dóti og hef gaman af. Einhvern veginn skilast þetta grautardót mitt svo út í atvinnuna. Ég skrifa um það sem ég læri, kenni á það og nota í fyrirtækjum. Yfirleitt kaupa fyrirtæki þann hugbúnað sem þar er notaður; þetta er mergurinn málsins.
Fyrirtæki kaupa hugbúnað, eða einstaklingar hafi þeir beinan hag af notkun hans. MySQL er einmitt gefinn út undir þessum formerkjum. Á vefsíðu miðlarans er beinlínis sagt: við viljum eitthvað fyrir eitthvað. Við viljum að eitthvað sé lagt af mörkum hjá þeim sem hafa hag af okkar vinnu; hvort heldur sem greiðslu, þáttöku í kótun, skjölun, eða á einhvern annan hátt.
Hver sem er getur kynnt sér hugbúnaðinn og lært að nota hann. Þegar þekkingin skilar sér út í atvinnulífið skilar það sér áfram til framleiðanda.
Flest forrit sem hafa breitt úr sér um víðan tölvuvöll hafa einmitt dreifst vegna aðgengileika. Aðgengileika í því formi að notendur komast yfir hugbúnaðinn, hagnýta sér hann og síðan er hann keyptur í fyrirtækjum.
Auðvitað hljóta opnar lindir að vera óttalegar hinum stóru, því þær ógna þeim. Ókeypis hugbúnaður dreifist, dreifist, dreifist …
Elías Ívarsson