Eftir óhóflegar og heimskulegar fjárfestingar stórfyrirtækja er kominn gríðarlegur samdráttur í tölvugeiranum.

Það líður ekki mánuður að maður heyrir í fréttum að fjölda fólks hafi verið sagt upp hjá hinum og þessum tölvufyrirtækjum. Oftast er þetta mjög hæft fólk með mikla starfsreynslu og menntun.

Þekki ég marga sem hafa lent undir niðurskurðarhnífnum, en ég hef lent undir honum einnig.

Erfitt er fyrir fólk að finna sér ný störf, þar sem engin fyrirtæki eru að ráða fólk, almennt séð og sérstaklega ekki með þessa sérhæfingu.

Stærstu fyrirtækin eru öll búin að setja stopp á fjárfestingar, útgjöld og ráðningar og litlu fyrirtækin líða fyrir það með þeim afleiðingum að mörg segja upp meirihluta starfsfólks til að mæta samdrættinum og önnur fara einfaldlega á hausinn.

Það eru fleiri en “litlu” fyrirtækin sem lenda illa í þessu, nýlega sagði Teymi upp fjölda manns (9 talsins minnir mig), en þetta fyrirtæki hefur ávallt verið litið sem mjög öruggt og stöðugt fyrirtæki, a.m.k. hingað til.

Tæknival er einnig búið að lenda mjög illa í þessu, en það er búið að segja upp tugum ef ekki hundrað manns síðan þessi samdráttur hófst.

Ég get nefnt mörg önnur fyrirtæki.

Einnig er það að gerast að fólk sem er að útskrifast úr Háskóla finnur engin störf, en þetta er það fólk sem fór í Háskóla þegar atvinnulífið öskraði á meira fólk með meiri menntun og allt útlit var fyrir verulegan skort á tölvufólki næstu áratugi, samkvæmt hinum og þessum könnunum og rannsóknum. Mjög svekkjandi.

Hámenntað og hæft tölvufólk er byrjað vinna í bónus og 10-11 og önnur láglaunastörf.

Ég spyr, hvað gerðist?


Nú vilja margir meina að þetta sé hollt fyrir geirann að fara í gegnum svona, þessi fyrirtæki þurfa að hagræða og kunna að reka sig eðlilega án þess að brenna upp hlutafé sem fjárfestar hafa lagt til.

Það er jú alveg satt, tölvufyrirtæki hafa verið illa rekin. Flest hafa verið rekin með tapi, sem hefur þó þótt sjálfsagt fyrir “start-up” fyrirtæki, a.m.k. 1. og kannski 2. árið.

Einnig hafa stórfyrirtæki farið offari í fjárfestingar í dot-com-buzz-word-fyrirtækjum síðustu ár, og hafa einfaldlega klárað allan fjárfestingarkvótann sinn.

Bankarnir eru búnir að ráða heilan helling af fólki til sín í vinnu, en hvað gerist þá? Þau verkefni sem bankarnir hafa áður látið önnur fyrirtæki vinna fyrir sig verða öll unnin innanhúss, og þau fyrirtæki sem verða af þessum verkefnum þurfa að segja upp enn meira af fólki.

Stóru fyrirtækin, sérstaklegar ríkið, eiga að fara með fleiri verkefni út til smærru fyrirtækjanna áður en þau hverfa öll, og þá er voðinn vís.

Þetta byrjaði allt saman þegar krónan byrjaði að lækka, en nú þegar krónan er byrjuð að hækka aftur þó vonar maður að það komi meira jafnvægi á þennan markað. Einnig eru stærstu fyrirtækin að skila hagnaði, þannig að vonandi reyna þau að dæla einhverju fjármagni inn í þennan frekar vannærða markað.

Vinsamlegast segið álit ykkar á ástandinu í dag.