Ég Elska Forritun 1 Ég er að spá í að byrja með smá syrpu hérna á hugi.is/forritun.
Syrpan er ætluð forriturum sem *elska* að forrita og langar að læra meira.
Þetta er ekki ætlað byrjendum en aðeins lengra komnir ættu að geta tekið þátt.

Ég ætla semsagt (vikulega) að koma með eitt forritunardæmi (af öllum stærðum og gerðum), og koma með hugtök sem geta hjálpað til við að leysa dæmið. Svo getið þið farið á google (eða annað) og lært um þessi hugtök og reynt við dæmið með þessi hugtök í huga.
Markmiðið mitt er að þið fáið fleiri algorithma í toolboxið ykkar, og verðið betri forritarar fyrir vikið.

Fyrsta dæmið hljóðar svona:

Jónas stendur í norð-vestur horninu á 100x100 metra stórum fleti.
Hann hefur eftirfarandi þrjá möguleika:

1. Ganga 1 meter í austur.
2. Ganga 1 meter í suður.
3. Ganga *kvaðratrótin af 2* metra í suð-austur.

Hann velur einn af möguleikunum, af handhófi, og gengur samkvæmt honum.
Hann endurtekur þennan leik (velur nýjan möguleika af handhófi í hvert skipti) þar til hann er kominn í suð-austur hornið á fletinum.
Hann má aldrei ganga út af fletinum, svo að ef hann er t.d. við austur brúnina þá verður hann að velja “1 meter í suður” valmöguleikann.

Líkurnar á því að hann fari styðstu leiðina að suð-austur horninu eru 1 / N.
Hvað er N?

Hugtökin sem ég ætla að láta ykkur fá fyrir þetta dæmi eru: recursion, memoization og arbitrary-precision arithmetic (bignum/biginteger).
Ef þú getur ekki notað arbitrary-precision arithmetic í forritunarmálinu þínu, þá geturðu minnkað flötinn niður í t.d. 10x10 metra.

Þið megið sýna okkur ykkar dæmi með því að commenta link á pastebin.com eða aðra svipaða síðu (ekki pastea kóðann ykkar hingað, það er spoiler fyrir þá sem vilja gera dæmið sjálfir).

Þetta er ekki keppni og er aðeins ætlað sem fróðleikur fyrir þá sem vilja.
Endilega commentið eða sendið mér skilaboð ef það er eitthvað.

Vona að þið hafið gaman af þessu og fræðist kannski eitthvað í leiðinni.
Látið mig vita ef þið eruð með önnur skemmtileg dæmi.
I <3 forritun!