Dömur og herrar.

Ég ætla að fjalla agnarögn um “corporate vs. open-source” hugbúnaðarþróun, og ákveðinn grundvallarmun þar á sem viðkemur umræðunni þar að lútandi. Þetta svið hugbúnaðargeirans jaðrar við að vera stjórnmálalegs eðlis, enda menn beggja megin úthrópaðir kommúnistar og fasistar til skiptis.

Maður hefur séð helvíti fyndnar auglýsingar þar sem stendur “Remember, when you're coding open-source, you're coding COMMUNISM!”. Þetta er grín auglýsing og á að lýsa því hvernig auðvaldið (helst í Bandaríkjunum, fæstum til furðu) er að reyna að innprenta það í fólk að open-source sé falleg hugsjón sem gengur ekki upp vegna skorts á grundvallaratriðum, enda jafn hlægileg auglýsing og sú röksemdafærsla. Við skulum láta umræðuna um kommúnisma vs. kapítalisma liggja á milli hluta í bili, enda vil ég helst ekki að þessi umræða þróist út í raunveruleg stjórnmál, frekar en þið.

Inntakið í kommúnisma er “from each according to ability, to each according to need”. Hugsjónin gengur út á það sem rétt er, að það er nógu mikið af gæðum á þessari plánetu fyrir öll mannsbörn, en treystir á það að menn nenni að hafa meira fyrir hlutunum en þeir þurfa. Þeir gleyma lykilatriðinu “leti”. (Kommúnistum til varnar gleyma kapítalistar oft lykilatriðinu “græðgi”).

Þessi tvö hugtök taka fyrir tvo mannlega vankosti sem eru bæði algengir og öðrum til ama. Græðgi og leti er hvort tveggja eitthvað sem mönnum þykir alla jafnan vera löstur, og fjalla hugtökin í fyrsta lagi um það hversu mikið einstaklingur þarf að láta af hendi til að hafa fyrir sínu (hvort sem það eru peningar eða vinna), og hversu mikið umfram það sem hann þarf, hann vill.

Og þá fer ég loksins að koma mér að kjarna málsins, og punktinum sem þessi grein er skrifuð til þess að benda á.

Þegar ég baka brauð, baka ég það fyrir einn. Það er einungis svo mikið til af brauði, vegna þess að ef ég ætla að gefa fleiri en einum það, þá þarf að baka meira, þ.e.a.s. leggja til meiri vinnu og meira af hráefni. Til þess að hafa skipulag og góðan mælikvarða á því hvernig skipta skuli slíkum verðmætum (vinnuframlagi og hráefnum), fundu menn upp peninga. Peningar eru helvíti hentugt verkfæri til þess að búa til efnahagslegt jafnvægi, þar sem hægt er að mæla hvern hlut samkvæmt virði hans og skipta honum í (in theory) fullkomið jafnvægi við það sem þú leggur af höndum. Sanngirni, að svo er virðist.

Þegar ég skrifa hugbúnað, aftur á móti, eru engin takmörk fyrir því hversu oft ég get fjölritað hann án þess að þurfa að leggja til snefil af vinnu eða hráefnum.

Jesús á að hafa fætt þúsundir manna með brauðhleif og þremur fiskum, að mig minnir. Hvað ef allir prestar gætu gert hið sama? Þar er tekið út grundvallarforsendan á bakvið það, að einn dauði sé annars brauð. Bakarinn Jesús þarf bara eitt brauð til þess að fæða allan heiminn, og hann getur sjálfur étið brauðið, og selt það í leiðinni. Allir ánægðir, enginn tapar. Nema sá sem er háður því, að aðrir hafi ekki nóg af brauði.

Núna, á seinni tímum, sérstaklega í hinum vestræna heimi, er fólk dálítið upptekið af veraldlegum gæðum og hef ég svosem ekkert út á það að setja. Þessi veraldlegu gæði mælum við í peningum, og þá lendum við í vandræðum þegar við ætlum að hengja hluti á borð við hugbúnað í þetta peningakerfi okkar, sem við erum orðin vön á árþúsundum.

En grundvöllinn vantar, þ.e.a.s. þann grundvöll sem gerði peninga að raunveruleika til að byrja með. Forsendurnar sjálfar vantar. Þannig að ef ég er að baka brauð og er bara að gefa það, þá er ég að fylgja kommúnískri hugsjón. Leggja meira á mig og sóa eigin hráefnum án þess að fá neitt til baka. Þegar ég bý til open-source hugbúnað, þá þarf ég ekki að leggja neitt á mig til þess að hvert einasta mannsbarn á jörðinni hafi aðgang að því og geti notað það. Ég tapa brauði þegar annar tekur það af mér, en ég tapa engu þegar einhver fær hjá mér hugbúnað sem ég hef hjá mér líka hvort sem er.

Það gleymist nefnilega að það er hugbúnaðurinn sjálfur sem er verðmætið. Það er hann sem er hinn raunverulegi hagvöxtur; notagildi hans. Það er hinn raunverulegi hagvöxtur að breyta mynd af sjálfum mér, fegra hana aðeins, taka burt örin og litlu bólurnar sem sjást bara á myndum. Ef ég bý til forrit sem gerir sjálfum mér þetta kleyft, hvers vegna ætti ég að hamla við útbreiðslu þess hugbúnaðar, ef ég hyggst ekkert græða á honum til að byrja með? Hvers vegna mega ekki aðrir líka njóta minnar vinnu, ef ég þarf hvort sem er að gera hana fyrir sjálfan mig? Svolítið eins og að skutla manni í vinnuna ef það er í leiðinni… ef maður þarf ekki að taka á sig krók er það augljós hagkvæmari leið heldur en að farþeginn taki annars leigubíl.

Það er þessi grundvallarmunur á veraldlegum hlutum og hugverkum sem gerir það að verkum að hin kapítalíska hugsjón er ekki fullkomlega samhæf við hugbúnaðargerð eða hugverk almennt. Það er engin tilviljun að ríkustu menn heimsins skuli vera hugbúnaðargerðarmenn. Þeir gera hugbúnaðinn einu sinni, selja hann milljón sinnum. Um hugverk er að ræða og það er ekkert hægt að setja út það að menn setji þau leyfi á sín hugverk sem þeim sýnist, EN, sömuleiðis er ekkert hægt að setja út á menn sem skrifa hugbúnaðinn einu sinni, og leyfa heiminum að njóta hans. Þegar yfir allt er litið, eru hin raunverulegu gæði (þ.e.a.s. verðmæti hugbúnaðarins), engu minni í open-source heiminum.

Ákveðinn kóði er mér alveg jafn gagnlegur, sama hvort ég borgaði fyrir hann eður ei.

Svo að nei, open-source er ekki kommúnismi, og nei, hann grefur ekki undan neinum hagvexti og minnkar ekki verðmæti eins eða neins. Það eina sem hann gerir, er að nýta eiginleika upplýsingatækninnar betur, en hin ævaforna kapítalíska hugsjón gerði nokkurn tíma ráð fyrir að væri hægt.

Ég vil taka það skýrt fram að ég vil ekki að þessi umræða fari út í stjórnmál utan þessa efnis, og ég vil alls ekki meina mönnum að búa til corporate hugbúnað, og hef ekkert á móti mönnum sem gjöra svo. Þetta er eingöngu og alfarið innlegg í þá heimskulegu umræðu, að tengja open-source við eitthvað “sinister” og illt. Lítið á þessa grein til varnaðar open-source hugtakinu, ekki sem árás á önnur hugtök.