Nú langar mig að tala svolítið um það umrædda og oft misskilda fyrirbæri MLM eða multi level marketing einnig oft þekkt sem network marketing og á íslensku tengslamarkaðssetning (einnig til fleiri útsetningar).

Tengslamarkaðssetning er það kallað þegar fólki er borgað fyrir að kynna og kenna um vörur og eða þjónustu sem fyrirtæki er að bjóða, á þann hátt að fólk fær greitt þegar vara eða þjónusta er keypt, þ.e. vöruvelta á sér stað. Tengslamarkaðssetning er markaðssetning á neysluvöru, þar sem þeir sem markaðssetja hafa sumir gjarnan enga reynslu af sölu. Í stað þess að auglýsa fyrirtæki með hinum ýmsu leiðum er fólki ætlað að miðla af eigin reynslu. Segja sína sögu. Sem virkar oft mun betur en auglýsingar þar sem fólk hefur samskipti við fólk sem það þekkir og treystir. Það er þess vegna sem fólk í tengslamarkaðssetningargeiranum segir að það selji aldrei neitt. Það segir aðeins frá. Mörg fyrirtæki nota tengslamarkaðssetningu auk auglýsinga s.s. Colgate, Coca Cola, Microsoft og mörg fleiri stór fyrirtæki. Sum fara algjörlega þá leið að láta fólk sjá um markaðssetninguna.

MLM hefur jú verið misnotað eins og margt annað og þannig svert að mörgu leyti því það eru jú alltaf einhverjir sem þurfa að skemma góðar hugmyndir með því að reyna að græða á því að svindla á fólki en alvöru MLM fyrirtæki (þau sem ég þekki til) hafa mun sanngjarnari launamódel en öll önnur fyrirtæki sem ég þekki því þau borga þér meira eftir því sem þú ert duglegri og ekki bara það því eftir að þú hefur verið dugleg/ur í einhvern tíma þá missirðu ekki tekjurnar eins og með aðra vinnu! Launakerfið það sanngjarnasta sem þekkist, borgað eftir dugnaði og árangri.

Eitt af því sem mér finnst mjög stór kostur og MLM fyrirtæki hafa fram yfir önnur fyrirtæki er að innkoman er ”passív”, þ.e.a.s. þó þú sért ekki að vinna þá ertu að fá borgað fyrir vinnu sem þú hefur gert áður og þess vegna ef þú ert dugleg/ur í einhvern tíma þá helduru tekjunum þó þú takir þér langt frí eða hættir jafnvel alveg að vinna við þetta!

Margir hugsa Pýramídasvindl þegar þeir heyra orðið MLM nefnt á nafn. Þessi fullyrðing er RÖNG! Pýramídasvindl heitir öðru nafni Keðjubréf og gengur út á það að þú færð sent skeyti um að senda pening á einhvern aðila sem þú veist ekkert hver er og svo áttu að senda bréfið áfram og samkvæmt því að fá þessa upphæð margfalda til baka. Þessi aðferð er bönnuð með lögum og kemur MLM ekki við á nokkurn hátt! MLM fyrirtæki hafa öll vörur sem þau eru að bjóða það gera keðjubréf ekki!

Annað sem fólki dettur í hug þegar það heyrir MLM og hugsar Pýramídi er ”fyrstir koma fyrstir fá” þessi fullyrðing er líka RÖNG, manneskja sem kemur inn númer milljón á nákvæmlega sömu möguleika og manneskjan númer 1 ef ekki meiri því þá er fyrirtækið komið yfir fyrstu skrefin og fyrstu árin sem 95% fyrirtækja gefast upp á eða fara á hausinn og þá hafa líka fleiri heyrt um fyrirtækið svo það þarf að kynna minna = minni vinna.

Þess má svo til gamans geta að MLM er kennt í yfir 30 háskólum í Bandaríkjunum og margir þeirra eru mjög virtir, t.d. Harvard Business School.

Þegar það er farið út í þetta pýramídahjal þá skil ég persónulega ekki afhverju sumt fólk er svona hrætt við pýramídalögun því ef þið lítið vel í kringum ykkur á það sem er næst ykkur þá sjáið þið að öll fyrirtæki á Íslandi eru byggð þannig upp launalega nema MLM fyrirtæki. Í venjulegum fyrirtækjum er eigandi fyrirtækisins alltaf efstur og númer 1 svo stjórnendur því næst stjórnendur í einstökum deildum og svo verkafólkið og þannig stækka stöplarnir eftir því sem neðar dregur!

Annars er það kannski aðeins þægilegt að hugsa sem svo að það sé ekki til nein önnur leið en að skipta á tíma fyrir peninga með því að vinna frá 8-4 eða 9-5 eða hvað það nú er. Eigum við val um eitthvað betra? Já auðvitað. Spurningin er hvort við nennum að skoða það eitthvað frekar. Og staðreyndin er sú að tengslamarkaðssetning gefur sem flestum möguleika á sem mestu. Tengslamarkaðssetning er ekki bara árangursríkasta markaðssetningar aðferðin heldur hafa MLM fyrirtæki búið fleiri milljónamæringa en öll önnur viðskiptamódel heimsins til samans síðustu 2 áratugi! Og margir hafa skapað sér góðar aukatekjur varanlega.

Það er kannski þess vegna sem margir berjast á móti tengslamarkaðssetningu þó þeir segi það ekki upphátt. Þetta ógnar á vissan hátt þeim sem fullir eru af menntahroka. Staðreyndin er sú að ungt fólk sem þjáist af lesblindu eða öðru slíku og hefur gefist upp í menntakerfinu eru að ná góðum árangri í tengslamarkaðssetningu. Ástæða þess er e.t.v. sú að þetta er leið sem við notum daglega án þess að vita af því, sbr öll þau meðmæli sem hin og þessi fyrirtæki fá fyrir góða þjónustu eða vöru. En á maður ekki að gleðjast með því fólki sem ákveður að gera eitthvað annað og ná árangri. Að sjálfsögðu. Allar nýjungar fara í gegnum ákveðin skeið. Skeið þar sem þær eru taldar fáránlegar, þar sem barist er á móti þeim og þær síðan samþykktar. Misjafnt er hvað hver og ein nýjung er lengi á hverju skeiði. Internetið er dæmi um nýjung sem fer gegnum þessi skeið.

Þeir sem koma sér yfir hjalla fordóma og fáfræði og fara að kynna sér það sem er að gerast í heiminum, reyna að skilja þær breytingar sem eru að eiga sér stað og nýta sér þær eru þeir sem standa uppi með sigurvegarar. Ekki þeir sem sitja og nöldra og berjast á móti bara til að vera á móti… Staðreyndin er sú að MLM er mest vaxandi atvinnugrein í heiminum í dag.

Að lokum … vil ég ég skora á þig lesandi góður að skoða það ef einhver í fjöskyldunni þinni eða vinur býður þér að skoða eitthvað svona með sér, spurðu spurninga og vertu gagnrýnin/n en vertu samt opin/n fyrir nýjungum. Ekki skella hurðinni bara á viðkomandi af því þú hefur myndað þér fyrirfram skoðun á hlutnum eða heyrt einhvern annan segja eitthvað slæmt. Miklar líkur eru á því að viðkomandi hafi verið í nákvæmlega sömu stöðu og þú og ekki kynnt sér það sjálf/ur heldur heyrt það frá einhverjum öðrum í stað þess að láta sig hafa það að skoða málið.

Svo vil ég þakka ykkur fyrir lesturinn og ef þið hafið einhverjar spurningar getið þið haft samband hér eða við mig beint. Ég vil einnig benda ykkur á að lesa frábæra bók sem heitir ”Your Home-Based Business (and how to make it work)” eftir Pete Billac og svo einnig bækurnar ”Rich Dad, Poor Dad” og ”Cashflow Quadrant” eftir Robert Kiyosaki sem eru mjög góðar og fá mann virkilega til að hugsa!