Ég fór til Ítalíu í júní í sumar. Ég var þar í þrjár vikur og var dvölin æðisleg. Síðan ég kom frá Ítalíu hef ég verið heltekin af landinu. Hitinn þar var mjög fínn, ekki of heitt eins og á Spáni. Ísinn þarna var einnig æðislegur. Menningin var þvílík og frábært að fá að ganga á brú sem var til þegar Jesús gekk hér á jörð!
Ég var á Rimini og fór í ferð til Feneyja, sem var ómissandi. Í feneyjum fórum við í ferð á gondóla og sáum húsið sem Marco Polo bjó í. Markúsarkirkjan var einnig glæsileg sem og allt það sem við sáum þarna í Feneyjum. Í Feneyjum er karnival eða kjötkveðjuhátíð í febrúar minnir mig. Þá klæðist fólk skrautlegum búningum og grímum, sem er eitt helsta tákn Feneyja. Alls staðar voru karnivalgrímur til sölu. Ég keypti mér eina slíka sem minjagrip, þó ekki þá fallegustu, en ég er sannfærð um að kaupa fallegri í næstu ferð minni til Feneyja.
Í Rimini fórum við oft og gengum um gamla bæinn og skoðuðum hann ítarlega. Allt í kringum mann voru falleg blóm, tré, hús og síðast en ekki síst fallegt tungumál.
Á næstu árum hyggst ég læra ítölsku, bæði hérlendis og á Ítalíu.