Farsímakerfi Íslandssíma var formlega tekið í notkun í dag. Það var Ómar Ragnarsson sem hringdi fyrstur um kerfi Íslandssíma í Jón Baldvin Hannibalsson, sendiherra í Washington.
Í frétt frá Íslandssíma segir að símtalið marki tímamót í starfsemi Íslandssíma en fyrirtækið er nú í stakk búið til að veita alla meginþætti símaþjónustu til einstaklinga, heimila og fyrirtækja.

Íslandssími rekur eigið GSM/GPRS farsímakerfi á höfuðborgarsvæðinu og nágrenni þess, Reykjanesi og Eyjafirði. Reikisamningur við Landssímann gerir Íslandssíma kleift að þjóna öllum landshlutum frá upphafi rekstrar. Þetta þýðir að viðskiptavinir Íslandssíma geta farið hvert á land sem er og notað þjónustu Íslandssíma í gegnum dreifikerfi Landssímans.

Farsímanet Íslandssíma er afar þéttriðið og fullkomið, en það tryggir gott talsamband og að lítið verður um slit. Þéttleiki netsins þýða einnig að gagnaflutningar með GPRS tækni verða hraðir og öruggir. Þá er í kerfinu boðið upp á SMS þjónustu, talhólf og upplýsingaveitu sem fyrirtækið hefur kosið að kalla Gluggann. Glugginn, sem byggir á nýrri gagnvirkri tækni, er samansafn fjölbreyttrar þjónustu sem viðskiptavinir Íslandssíma geta nálgast í símum sínum. Hægt er að skoða tölvupóstinn sinn, fréttir, ýmsan fróðleik og gagnlegar upplýsingar og veðurspá í Glugganum, svo fátt eitt sé nefnt.

Íslandssími býður viðskiptavinum sínum einnig upp á öfluga farsímaþjónustu á erlendri grundu. Með einum samningi, sem skrifað var undir sl. haust, er tryggður aðgangur að farsímanetum um 300 farsímafyrirtækja í 123 löndum, þar af í öllum 50 ríkjum Bandaríkjanna.

Íslandssími hefur gengið til samninga við yfir 20 sölu- og þjónustuaðila sem bjóða munu þjónustu fyrirtækisins. Þeirra á meðal eru Heimilistæki, sem mun hýsa þjónustumiðstöð Íslandssíma, Húsasmiðjan, Japis, Penninn, Fríhöfnin, Nýherji og fleiri. Ráðgert er að sölu- og þjónustuaðilum fjölgi til muna á næstunni. Þá er einnig að finna margvíslega þjónustu og upplýsingar um farsímarekstur Íslandssíma á vef Íslandssíma, www.islandssimi.is.

Símanúmer Íslandssími byrja á 82 og talhólf á 62. Þegar er búið að úthluta þúsund viðskiptavinum númerum og byrja þeir að hringja um kerfi Íslandssíma nú þegar.