Þetta er ekki ein sjálfstæð saga heldur lít ég á þetta sem inngang að miklu stærra ritverki sem ég á enn eftir að skrifa. Þessi saga tengist reyndar annari sögu sem ég sendi hingað inn á Huga, Ust Nagrat (tengill), en atburðir hennar gerast á eftir þeim atburðum sem ég segi frá í þessari smásögu.

Varðandi titil sögunnar, þá er hann ekki endanlegur. Vandinn er að ég fann hreinlega ekki betri titil, svo ég nefndi hana eftir a) staðnum sem hún hefst á, þ.e. á uppgraftarsvæðinu og b) í höfuðið á hinum frábæra ævintýraleik The Dig, frá LucasArts.

Sagan er ekki alveg 100% tilbúin, ég á örugglega eftir að fínpússa hana í framtíðinni, en þetta er allaveganna sú útgáfa sem ég vil kynna fyrir fólki þessa stundina, enda finnst mér hún vera orðin nógu heilsteypt til þess að birta.

Smá orðaútskýringar…

Kóboldar: Um það bil 120 sentimetra há kvikindi, má líkja þeim við blöndu af hundum, rottum og mönnum. Ganga um á tveimur fótum eins og menn, en afturfætur þeirra minna á rottufætur og andlitseinkenni í ætt við rottur og hunda (hér gæti orðið “rottuhundur” líklega útskýrt margt).

Ljósagat: Ekki alvöru bergtegund, en eins og ég hef hugsað mér það þá er það bergtegund sem hefur svipaða áferð og yfirborð og agat en er frábrugðið öllum raunverulegum bergtegundum að því leiti að það gefur frá sér daufa birtu í myrkri. Þessi birta er nógu sterk fyrir mann til þess að átta sig á nánasta umhverfi sínu, en alls ekki nógu mikil til þess að taka við af kyndlum eða lömpum sem ljósgjafi.

——————————————

“Uppgröfturinn”

Rigningin sýndi enga vægð og var fljót að grafa sig í gegnum þykkar flíkur Araths. Það var alltaf erfitt að standa vaktina en einhver þurfti að gera það. Fjóra daga í röð höfðu Arath og félagi hans fylgst með uppgreftri kóboldanna í Kortyrdal en hegðun þeirra var enn sem komið er óútskýranleg. Þrátt fyrir að kóboldar væru frábærir námugrafarar höfðu þeir ekki gáfurnar til þess að skilja fræðslugildi eða verðmæti fornleifa; þeir höfðu mun meiri áhuga á gulli og öðrum glansandi hlutum. Það var lítið sem ekkert um slíkt á þessu svæði og því engin hvatning fyrir þann uppgröft sem þeir stunduðu þar.

Á meðan uppgröfturinn fór fram í dalbotninum þá var vaktarstaðurinn sjálfur staðsettur í hærri hæð í „hlíðum“ dalsins. Kortyldalur lá frá suðvestri til norðausturs og náði alla leið frá Haranfljóti og nokkuð vestur yfir veginn. Hann átti þó lítið skylt við hina miklu fjalladali, hann var frekar einhver óútskýranleg dæld í skógi vöxnu landslaginu.

Arath lagði bogann sinn á jörðina svo hann ætti auðveldara með að breiða úr sér og jafna sig í bakinu eftir að því er virtist endalausa vakt. Það var ekki langt í það að hann þyrfti að vekja félaga sinn af sínum væra blundi til þess að taka við af sér. Arath skimaði yfir vinnustöðvar kóboldanna – engin breyting hafði orðið á. Þeir skófluðu moldinni upp eins viðstöðulaust og áður og núna hafði uppgröfturinn nær tvöfaldast að stærð síðan daginn áður. Það var farið að glitta í húsþök á nokkrum stöðum – rústirnar voru heillegri en nokkurn gat grunað. Við nánari athugun sá Arath höfuð á styttu standa upp úr moldinni. Það var augljóst að kóboldarnir máttu ekki raska því sem þeir voru að grafa upp – þetta hefði líklega tekið mun styttri tíma ef þeir hefðu fengið að gera þetta á sinn hátt. En hvers vegna gerðu þeir það ekki?

Arath sneri aftur til tjaldbúðanna sem þeir höfðu reist skammt frá vaktarstaðnum. Tjöldin tvö voru lág og falin í litlu rjóðri sem umkringt var hávöxnum runnum, fullkomið fyrir þá sem vildu ekki láta til sín sjást. Á milli þeirra voru leifar lítils varðelds, en þykkt rjóðursins og staðsetningin gerðu það að verkum að óhætt var að kveikja elda þegar rökkva tók. Eldurinn færði þeim eiginleikann til þess að hita sér mat þegar rökkra tók en hann hélt rándýrum einnig í skefjum. Arath sparkaði í bungu sem stóð út úr öðru tjaldinu.

„Láttu mig vera, helvískur,“ heyrðist í bungunni. Orðunum var fylgt eftir með látum úr tjaldinu og að lokum steig félagi Araths, Ralek, út úr því, klæddur í einfalda tautreyju og leðurbrynju og með sverð bundið í einfalt slíður. Hann hafði fest hníf um lærið á sér með ódýrri leðuról. Ralek var töluvert hávaxnari en Arath, sem náði honum upp að höku. „Eru þeir enn að?“

Arath sagði ekkert en gaf honum þó svar með því að kinka kolli. „Þetta hefur tekið sinn tíma en svo virðist sem þeir séu byrjaðir að sjá afraksturinn,“ sagði Arath og benti Ralek á þá örfáu hluti sem höfðu verið afhjúpaðir yfir daginn. „Fjórir dagar í það að grafa upp menjar fornrar siðmenningar í staðinn fyrir að grafa upp gull.“ Fimm dagar höfðu liðið síðan kóboldarnir gengu fylktu liði í gegnum Baral, þegjandi og hljóðalaust, íbúum bæjarins til mikillar undrunar.
„Þér er sama þótt þú standir vaktina aðeins lengur, er það ekki?“ spurðu Ralek. „Ég þarf að sinna köllum náttúrunnar – ég er ekki viss hvort líkami minn muni samþykkja ef slíkri beiðni yrði hafnað,“ bætti hann við með gusu af léttum hlátri. Arath gaf Ralek þögult samþykki sitt og sneri til baka á vaktarstaðinn. Lítið hafði breyst á síðustu mínútum. Ekki að það hafi margt gerst á undanförnum dögum. Eða hafði eitthvað breyst? Arath pírði augun.

Dreifingin á kóboldunum hafði breyst. Það lá í augum uppi; þeir voru farnir að einbeita sér að þrengra svæði. Svæðinu í kringum styttuna. Einnig virtust þeir vera ágengnari í verkum sínum en áður, líkt og þeir hefðu fundið óvænta gullæð. Þeir héldu sama hraða í nokkra stund. Hempuklædd fígúra steig út úr skóginum til austurs frá uppgraftarsvæðinu og gekk í áttina að kóboldahópnum. Eins og hendi væri veifað skiptust veður í lofti og rigningin breyttist í éljagang og kóboldahópurinn sem hafði myndast tvístraðist í óreiðu. Þeir skríktu og æptu hvor á annan og hlupu í allar áttir, augljóslega hræddir við fígúruna, sem virtist vera yfirboðari þeirra.

Veðurofsinn jókst og éljagangurinn versnaði. Arath átti erfiðara með að sjá hvað á gekk og gnísti tönnum þegar högl á stærð við steinvölur hófu að falla á loftinu. Slíkt var ofanfallið að það eina sem hann sá af hempuklæddu fígúrunni var lítið annað en skuggi … og ljósbjarmi? Drunur heyrðust í loftinu, en öfugt við þrumur höfðu þessar drunur ónáttúrulegan hljómgrunn. Ljósbjarminn birtist nokkrum sinnum fyrir framan skuggann og drunur fylgdu á eftir, en eftir stutta stund hætti hann að birtast og allt varð hljótt; einungis veðrið lét í sér heyra. Haglið hélt áfram að lemja Arath um stund en hætti svo jafn skjótt og það hafði byrjað. Vindinn lægði og ljósgeislar byrjuðu að smeygja sér á milli skýjanna og gáfu fórnarlambi náttúrunnar tækifæri til þess að ná áttum. Hann leit yfir uppgraftarsvæðið.

Arath sá brennd lík kóbolda á víð og dreif, en enn fleiri stóðu annaðhvort stjarfir af hræðslu eða lágu skjálfandi í grúfu á jörðinni. Hempuklædda fígúran stóð ein eftir. Hún gaf kóboldunum merki með höndum sínum. Áhrifin létu ekki á sér standa; hver einn og einasti kóboldi tók aftur upp verkfæri sín og sneru aftur til verks og héldu áfram að vinna af sömu vandvirkni og áður. Fígúran lét hettu sína falla og undan henni birtist mannshöfuð með eldrautt hár. Arath virti fígúruna fyrir sér.

„Hvert þó í hoppandi,“ sagði hann ósjálfrátt við sjálfan sig. Hann leit upp til himins og tók eftir nokkru sem gerði honum bylt við. Það hafði kannski stytt upp, en stórt, hringlaga gat í skýjunum gaf í skyn að ekkert náttúrulegt hafi verið þar að verki. Hann leit aftur í áttina að uppgraftarsvæðinu. Rauðhærði maðurinn hafði aftur sett á sig hettuna og var að strunsa í áttina að skóginum sem hann hafði upphaflega komið úr. Arath fylgdist grannt með honum, en þegar rauðhærði maðurinn var horfinn á milli hárra furutrjánna hljóp hann eins hratt og gat til tjaldbúðanna. Holan í skýjunum féll saman og rigningin byrjaðu aftur að streyma af himnum ofan.

Ralek hafði lokið sér af og var að tína saman vopn sín til þess að undirbúa vakt sína þegar Arath ruddist með látum inn í rjóðrið.

„Ralek …“ sagði Arath lafmóður. Hann útskýrði hvað hann hafði séð fara fram á uppgraftarsvæðinu. Hann lýsti manninum sem hann hafði séð eins vel og hann gat, og lýsti hárinu líkt og einhver myndi lýsa hesti eftir að hafa séð slíkt dýr í fyrsta skipti. „Ég hef aldrei séð neitt þessu líkt. Þessi maður er augljóslega ekki héðan … og ef það var hann sem drap kóboldana, hvernig fór hann að því? Líkin af þeim voru skaðbrennd, hvernig getur það verið útskýrt?“

„Náttúrugaldrar …“ muldraði Ralek. Arath horfði á hann með undrunaraugum. Ralek ræskti sig og hélt áfram, „Náttúrugaldrar. Ég hef heyrt um þetta áður. Þegar ég var barn heyrði ég oft furðulegar sögur frá einum gamlingja sem lifði í þorpinu. Hann hafði yndi af því að segja okkur háleitnar ævintýrasögur um ævintýraþyrsta ferðalanga sem lentu í svaðilförum víðs vegar um heiminn. Vitaskuld var þetta meira og minna allt bull, en í einni af sögum hans sagði hann frá hópi manna sem ferðuðust vestur til Galeu, og í þeirra hópi var maður sem gat notað náttúruöflin. Hann átti að geta skapað eld og vatn, ís og jörð upp úr engu, og hann átti að geta stjórnað veðrinu í allt að kílómetra radíus í kringum sig …“

Arath hlustaði á útskýringar félaga síns opnum eyrum. Eftir útskýringar Raleks kom óþægileg þögn á milli þeirra. Arath rauf hana með ræski. „Eftir allt sem ég hef séð í dag get ég alveg tekið mark á gömlum barnasögum,“ sagði hann. „En hvað sem það var sem ég varð vitni af, þá verðum við að sjá til þess að upplýsingar um það komist til réttra aðila.“ Með þessu átti hann við yfirboðara þeirra í Baral.

„Þú segir að maðurinn hafi komið úr skóginum í austri,“ sagði Ralek. „Við verðum að gera ráð fyrir því að hann hafist þar við.“

„Hvað leggur þú til að við gerum?“ spurði Arath. „Ég er ekki að fara að leggja líf mitt í sölurnar til þess að rannsaka þennan mann frekar! Ég hef séð hvað hann getur gert, ég held það í það minnsta, og ég er viss um að ef hann finnur okkur þá endum við sem grilluð bráð fyrir villidýrin sem búa á svæðinu í kring!“

Ralek hugsaði sig um stund. „Þá það. Torak verður ekki sáttur við þetta, en við verðum að sleppa því að fylgja þeim fyrirmælum sem við fengum – við getum ekki farið að hætta lífi okkar beggja.“
„Okkar beggja? Þú ætlar þó ek…“

„Þú ferð aftur til Baral og segir honum frá því sem þú sást. Það gengur ekki að mikilvægar upplýsingar eigi á hættu að tapast í einhverri glæfraför. Ég fer og skoða mál þessa manns nánar og sný aftur með allar þær upplýsingar sem ég kemst yfir.“

Það tæki Arath allavega heilan dag, frá sólarupprás til sólseturs, að ferðast til Baral gangandi. Það myndi stytta tímann að hlaupa en regnvot klæði hans og blautir vegir hægðu á ferðum hans. Það var þá sem hann mundi eftir útvarðarstöðinni þar sem þeir fengu vistir sínar. Þar voru hesthús, og þar hlutu að vera hestar. Arath hirti föggur sínar, strengdi bogann sinn yfir bakið. Stuttsverð sat í slíðri sem fest var við beltisól hans. Hann kvaddi Ralek og óskaði honum góðs gengis áður en hann hélt af stað austur á veg. Það var í það minnsta eins og hálfs tíma ganga upp á veg, enda engir stígar sem lágu þangað, og þaðan tók í það minnsta tvær klukkustundir að ganga upp að útvarðarstöðinni.

Ralek horfði á eftir Arath, þungur á brún. Hann smeygði sverði sínu í slíðrið og slengdi skildinum sínum yfir öxlina sína áður en hann hélt af stað í vestur, í áttina að austurhluta skógarins. Ralek gekk rösklega en sýndi umhverfi sínu engu að síður varkárni. Það var tekið að rökkva, og þykk og grá skýin gerðu lítið til þess að bæta skyggnið. Ljósagatið sem Ralek hafði með sér myndi gefa honum það ljós sem hann þarfnaðist, en að taka hann úr leðurskjóðunni myndi setja hann í hættu ef óvinir hans myndu koma auga á hann.

Þegar Ralek hafði gengið um stund missti regnið kraftinn sem það hafði lamið hann af síðan hann skreið út úr röku tjaldinu, og áður en langt um leið stytti algerlega upp. Það hóf að rofa til á milli skýjanna og tunglsljósið braust í gegnum skýin og hóf atlögu sína í gegnum trjátoppana. Myrkrið var ekki lengur allsráðandi og Ralek var fljótlega farinn að notfæra sér þá litlu birtu sem tunglskinið gaf honum til þess að leiða sjálfan sig áfram. Regndropar féllu af laufum trjánna og gáfu frá sér veik hljóð þegar þeir féllu í mjúkan gróðurinn. Endrum og eins mátti heyra í stakri uglu væla, og ef vel var lagt við hlustir, skordýr vera að naga sig í gegnum gömul og rotin tré, en lítið var um að annað dýralíf gerði vart við sig.

Eftir um klukkutíma göngu tók Ralek eftir eldi loga nokkur hundruð metrum norðan þess staðar sem hann stóð á. Hann festi skjöldinn við handlegginn á sér og tók sverðið úr slíðrinu, tilbúinn ef til átaka skyldi koma, og læddist af stað í áttina að upptökum ljóssins. Þrátt fyrir stærð hans tókst honum að halda höfðinu lágt niðri og færði sig þannig lengra nær ljósinu. Rauðhærði maðurinn sem Arath hafði lýst sat á steini fyrir framann logandi varðeld og horfði í kjöltu sér. Ralek heyrði tvær ógreinilegar raddir koma úr áttinni frá manninum, eina karlmannsrödd og eina kvenmannsrödd. Hann læddist nær tjaldbúðunum í því skyni að heyra hvað fór fram á milli raddanna, og komast að því hver það var sem átti hina röddina.

Þegar Ralek færði sig nær þá var ekki um að villast – kvenmannsröddin kom úr kjöltu mannsins.

„Það fer of mikið fyrir þér, Mosran. Ég get ekki gert annað en sagt að ég hafi verið hissa þegar þú sagðir mér frá því hvernig þú ætlaðir að finna hjálparhendur fyrir uppgröftinn, en þú vaktir of mikla athygli með því að senda þá í gegnum Baral, og nú þetta. Þú hefur þjónað mér vel, en mistökin sem þú gerðir í dag verða þér dýrkeypt.“

„Fyrirgefðu mér …“

„ Ef þú gerir ekki eins mörg mistök héðan af og þú hefur gert hingað til mun ég taka til skoðunar hvort ég … vægi refsinguna.“

„Þakka þér, þakka þér …“

„Þegar verki þínu hér er lokið og þú hefur sótt steintöfluna munt þú ferðast vestur að hafinu. Þar munt þú leigja þér skip og halda á haf út. Ég mun leiðbeina þér í ferðum þínum, því það sem þú munt leita að er vel falið fyrir sjónum manna. Þar skalt…“ Röddin þagnaði.

„Þar skal ég hvað? Hvers óskarðu af mér, Nizra?“ spurði Mosran kjöltuna sína.

Ralek sperrti eyrun enn meira en hann hafði gert þegar hann heyrði nafnið.

Röddin hóf upp raust sína á ný, en talaði nú lægri hljóðum sem gerði Ralek ókleyft að greina þau. Mosran leit skyndilega upp úr kjöltu sinni og í áttina að honum. Sá rauðhærði reis upp, stakk einhverjum ógreinilegum hlut inn á sig og lyfti annarri hendi sinni í brjósthæð, líkt og hann væri að halda á ósýnilegri kúlu í hendinni. Lítill eldhnöttur byrjaði að myndast rétt fyrir ofan lófa hans. Ralek sá í hvaða efni stefndi, reisti sverð sitt og skjöld og réðist til atlögu gegn Mosran. En hann var of seinn. Eldhnötturinn hafði stækkað og var nú orðinn álíka stór og mannshöfuð. Mosran kastaði hnettinum í áttina á Ralek, sem reyndi í örvæntingu sinni að verja sig með járnskildinum. Það dugði skammt. Eldhnötturinn skall með látum á skjöldinn, sem varð á örskotsstundu rauðglóandi af hita. Ralek missti tak sitt á handfanginu og öskraði, skaðbrenndur í lófanum, svo skjöldurinn hékk á handlegg hans á litlu öðru en leðurólinni í örfáar sekúndur áður en hún slitnaði vegna hitans frá járnstykkinu sem hún var fest við og hann féll til jarðar. Ralek, sem hafði lokað augum sínum og gníst tönnum til þess að harka af sér sársaukann, leit aftur í áttina að Mosran. Annar eldhnöttur hafði myndast í lófa galdramannsins, sem renndi glotti í áttina að Ralek, og var orðinn enn stærri en sá sem lenti á skildinum. Hann kastaði hnettinum í áttina að Ralek, sem rúllaði sér snögglega til hliðar til þess að forðast það að breytast í grillaða villibráð. Ralek rak upp stór augu þegar hann sá hnöttinn lenda á jörðinni einungis metra frá þeim stað sem hann hafði staðið áður, og horfði á hann springa … hörð höggbylgja kippti undan Ralek fótunum, sem féll í jörðina. Hann reyndi að standa upp en án árangurs.

„Þú neitar að deyja!“ öskraði Mosran reiðilega. „Þú munt kenna á því að vera að hnýsast í mál annarra!“

Sá rauðhærði lyfti hægri hönd sinni upp til himins. Þungar drunur heyrðust að ofan, og elding féll niður skammt frá þeim stað sem Ralek lá. Jörðin skalf og Ralek lagði skaddaða handlegginn þvert yfir andlit sitt til þess að skýla sér frá leiftri frekari eldinga. Nokkrar þrumur heyrðust til viðbótar, og önnur elding skall niður … í þetta sinn í genum líkama Raleks. Hann gaf frá sér kæft öskur, en varð snögglega hljóður og lá eftir það hreyfingarlaus. Glæringarnar frá eldingunni höfðu náð að svíða göt í vot klæði hans svo reykur steig upp frá líflausu líkinu. Mosran færði sig nær líkinu og otaði öðrum fætinum í áttina að því. Engin hreyfing, ekkert líf. Hann brosti lauslega, greinilega sáttur með árangurinn.

* * * * *

Arath hljóp á sama hraða og áður norður eftir veginum og hundsaði þunga regnvotra klæða sinna, líkt og eitthvað ógnvænlegt væri á hælunum á honum. Andardrátturinn var stuttur en reglulegur. Það var ekki langt eftir að útvarðarstöðinni, einungis nokkur hundruð metrar. Þar gæti hann sagt fleirum frá því sem hann hafði orðið vitni af og fengið lánað hross til þess að auðvelda ferð sína til Baral. Drunur heyrðust í fjarska.

Hann jók hraðann, óafvitandi að því að þetta væri einungis byrjunin á hörmungum heimsins.