Er Guð Illur? Þetta er reyndar bara goðsögn en mér fannst þetta þó mjög skemmtileg saga og ber hún þónokkuð skemmtilegan punkt með sér. Þannig að endilega lestu þetta hvort þú sem er trúuð/aður eða ekki.

Háskólaprófessor nokkur varpaði eitt sinn fram eftirfarandi spurningu til nemenda sinna í kennslustund: “Skapaði Guð allt sem til er?”.
Einn nemandinn var djarfari en aðrir, reis á fætur og sagði ákveðið: “Já, það gerði hann.”
Prófessorinn endurtók þá spurninguna, og beindi henni að þeim, er hafði svarað.
“Það held ég nú,” endurtók nemandinn.
“En ef Guð skapaði allt, þá skapaði hann líka illskuna. Og samkvæmt því lögmáli að verk okkar skilgreini hver við erum, þá er Guð illur,” sagði kennarinn.
Nemandinn settist hljóður.
Prófessorinn var mjög ánægður með að hafa mátað hinn trúaða nemanda og notaði tækifærið til að hlakka yfir nemendunum með fullvissuna um, að hafa sannað í eitt skipti fyrir öll að trúin á Guð væri harla ómerk og í raun bara aumasta goðsögn.

Annar nemandi rétti þá upp höndina og spurði hvort hann mætti spyrja spurningar. Það var auðsótt mál og sjálfsagt.
Stóð hann þá upp og spurði:
“Prófessor, er kuldi til?”
“Hvers lags spurning er þetta? Auðvitað er kuldi til. Hefur þér aldrei verið kalt?” svaraði prófessorinn og hló meinhæðnislega.
Ungi maðurinn svaraði“ Í raun, herra, þá er kuldi ekki til. Samkvæmt lögmálum eðlisfræðinnar, þá er það sem við álítum kulda aðeins fjarvera hita. Allir líkamar og allir hlutir eru mældir, þegar þeir hafa eða senda frá sér orku, og hiti er það sem lætur hluti eða líkama hafa orku og senda hana frá sér. Alkul er alger fjarvera hita. Allt efni verður gersamlega líflaust eða hreyfingarlaust og ófært um að veita nokkra einustu svörun við þetta hitastig.
Kuldi er ekki til, heldur höfum við búið þetta orð til, til þess að lýsa því hvernig okkur líður þegar við höfum engan hita.”
Og nemandinn hélt áfram:
“Prófessor, er myrkur til?”
“Auðvitað,” svaraði prófessorinn.
“Einu sinni enn hefurðu rangt fyrir þér,” sagði þá nemandinn.
“Myrkur er ekki heldur til. Myrkur er ekkert annað en fjarvera ljóss. Við getum mælt og rannsakað ljós, en við getum það ekki með myrkur. Við getum notað prismu Newtons (gagnsær strendingur með a.m.k. 2 hliðarflötum sem skerast og er notaður til að brjóta ljós í ákveðnar bylgjulengdir) til að brjóta hvítt ljós í marga liti og mælt mismunandi bylgjulengdir hvers litar fyrir sig. Myrkur er hins vegar ekki hægt að mæla. Einfaldur lítill ljósgeisli getur brotið upp myrka veröld og lýst hana alla upp. Hversu myrk er myrk stofa? Hvernig getur þú vitað hversu myrkt eitthvert herbergi er? Jú, þú mælir hversu mikið ljós er til staðar. Er það ekki rétt? Myrkur er orð sem er notað til að lýsa því hvað gerist þegar ekkert ljós er til staðar.”
Að lokum spurði nemandinn prófessorinn:
“Herra, er illska til?”
Ekki eins ákveðinn og borubrattur og fyrrum svaraði prófessorinn:
“Auðvitað, eins og ég hef áður sagt, þá sjáum við þetta á hverjum einasta degi. Illskan er daglegt dæmi um ómanneskjulega meðferð mannsins á náunga sínum. Þetta sést í öllum glæpum heimsins og ofbeldinu sem flæðir yfir. Þetta sannar óumræðanlega tilvist illskunnar.”
Nemandinn svaraði á ný og sagði:
“Nei, illska er ekki til, eða að minnsta kosti á hún ekki tilvist í sjálfri sér. Illska er ekkert annað en fjarvera Guðs. Rétt eins og með myrkrið og kuldann, þá er þetta orð sem er notað til að lýsa fjarveru Guðs. Guð skapaði ekki illskuna eða það sem illt er. Illska er ekki eins og trú eða kærleikur, sem eru til rétt eins og ljós og hiti. Illskan er það sem á sér stað þegar maðurinn á ekki kærleika Guðs í hjarta sínu. Hún er eins og kuldinn sem kemur þegar enginn hiti er, eða myrkrið sem kemur þegar ekkert ljós er.”

Nú settist prófessorinn hljóður.

Þessi nemandi átti s.s. að hafa verið Albert Einstein en ekki veit ég neitt um sanngildi þessarar sögu =p Gaman að lesa samt sem áður og þrusugóð hugmynd.

Ég get þó ekki annað en bent á vandamál við þessa kenningu. Hvað um óréttlæti? Hvað um 7 ára stelpuna sem dó að völdum snjóflóðs? Stelpan sem bað alltaf bænir sínar á kvöldin með hjarta sitt fullt af kærleik, ást,draumumkenndum vonum og hreinleika? Illska er nefnilega ekki alltaf það sama og óréttlæti og slys. Nei, þetta var allavegana mína fyrsta pæling eftir að hafa lesið þetta og gæti vel verið að ég sé á einhverjum villigötum (enda kannski ekki sniðugt að rökræða við Einstein) Guð er vissulega ekki illur, en ef hann er til og skapaði allt hér á jörðu, þá skapaði hann vissulega hluti sem ekki eru algóðir. Hann skapar hluti sem eru sorglegri en allt annað í heiminum. Trúaðir myndu væntanlega útskýra þetta sem prófraun á trú þeirra því Guð hefur jú alltaf sínar ástæður. En svona atburði mun ég þó aldrei skilja jafnvel þó svo guð mundi bjóða mér í kaffi í eigin persónu og útskýra þetta fyrir mér eins og honum einum er lagið. (Ég veit, barnaleg og einföld nálgun…en þið vitið hvað ég meina).

fékk þetta lánað af blogginu hans bróður míns og fannst þetta mjög áhugavert.

hvað finnst ykkur :)


Adios,
kv. Hauku