Samfélagsbreytingar í tengslum við virðingu gagnvart trú


Þetta er lokaritgerðin mín í félagsfræðiáfanga. Mér datt í hug að ykkur þætti hún jafn áhugaverð og kennaranum sem gaf mér 9,7 fyrir hana.



„Hann kemur í logandi eldi og lætur hegningu koma yfir þá, sem þekkja ekki Guð, og yfir þá, sem hlýða ekki fagnaðarerindinu um Drottin vorn Jesú. Þeir munu sæta hegningu, eilífri glötun, fjarri augliti Drottins og fjarri dýrð hans og mætti, …“ (1:8-9). Svo hljóðar upphafskafli síðara bréfs Páls til Þessaloníkumanna sem er hluti af Nýja testamentinu. Í nútímasamfélagi vestrænna þjóða er mikil áhersla lögð á virðingu fyrir trú annarra. Gríðarleg samfélagsþróun hefur átt sér stað á síðastliðnum áratugum í tengslum við virðingu. Það er ekki ýkja langt síðan að rasismi var mjög algengur og að manneskjur voru brenndar á báli, líka hér á Íslandi, vegna þess að þær voru taldar vera göldróttar. En hvernig er hægt að elska náungann og elska óvini sína eins og Biblían boðar ef náunginn trúir ekki á sama guð og maður sjálfur? Hvernig getur maður virt náungann ef trúarrit manns segir að frelsari manns muni pynta hann um alla eilífð fyrir að afneita heilögum anda? Þróast samfélögin með trúarbrögðunum eða trúarbrögðin með samfélögunum?


Í mars 2005 flutti biskup Íslands predikun sem bar heitið „Hvernig manneskja viltu vera?”. Í þeirri predikun segir hann m.a. að guðleysi og vantrú sé mannskemmandi og sálardeyðandi. Þessi ummæli hans vöktu ekki mikla athygli þó að mér finnist þau vel vera fréttnæm. Hvernig stendur á því að biskup má segja að trú eða trúleysi annarra sé mannskemmandi og sálardeyðandi en ef Jesús birtist í farsímaauglýsingu eða páskaþætti Spaugstofunnar verður uppi fótur og fit? Mér finnst fáránleika þessarar fullyrðingar biskups vera best lýst með upptalningu á nokkrum þekktum trúleysingjum og efahyggjumönnum:

-Karl Marx (þýskur hagfræðingur, heimspekingur og stjórnmálaspekingur sem sagði: „trú er ópíum fólksins”)
-Stephen Hawking (breskur eðlisfræðingur, þekktur fyrir kenningar sínar um svarthol)
-Richard Dawkins (breskur líffræðingur, hefur gefið út bækur sem mæla mjög gegn trúarbrögðum)
-Marie Curie (pólskur og franskur efna- og eðlis-fræðingur sem fékk tvenn nóbelsverðlaun, þekkt fyrir rannsóknir sínar á geislavirkum efnum)
og síðast en ekki síst:
-Albert Einstein (þýskur eðlisfræðingur, handhafi nóbelsverðlauna í eðlisfræði, þekktur fyrir að hafa sett fram afstæðiskenninguna).

Mér finnst þessar manneskjur ekki vera skemmdar. Eru þessi ummæli biskups þá frávik frá þeirri hegðun sem ætlast er til af fólki í dag?


„Heimskinginn segir í hjarta sínu: „Guð er ekki til.” Ill og andstyggileg er breytni þeirra, enginn gjörir það sem gott er.“ (14:1) Davíðssálmur númer 14 sem er hluti af Gamla testamentinu hefst á þessum orðum. Þeir sem eru kristnir ættu því að taka þessi orð trúanleg en samfélagsbreytingar síðari ára segja okkur að við eigum að virða trú annarra. Samt stendur það þarna svart á hvítu í Biblíunni að þeir sem trúa ekki á guð séu heimskingjar! Stutta upptalningin mín hér fyrir ofan sýnir það þó og sannar að trúleysi jafngildir alls ekki heimsku. Reyndar sagði bandaríski rithöfundurinn Ernest Hemingway eitt sinn „Allir hugsandi menn eru trúleysingjar”. Nú er maður kominn í graut fullyrðinga sem stangast svo gjörsamlega á hver aðra að maður veit alls ekki hverju maður á að trúa.


Kirkjan var eitt sinn mun duglegri að framfylgja þeim reglum sem Biblían setur og má þar sem dæmi nefna raunir tveggja manna, Giordano Bruno og Leonardo da Vinci. Þeir áttu það sameiginlegt að eiga yfir höfði sér dauðadóm fyrir þær sakir að halda því fram að Jörðin sé hnöttur og snúist í kringum sólina, öfugt við útskýringu kirkjunnar á þeim tíma. Munurinn á þeim er hins vegar sá að Bruno baðst ekki vægðar og var drepinn en da Vinci lét undan og dró ummæli sín til baka. Frásagnir herma þó að da Vinci hafi tautað er hann var leiddur frá gapastokknum „hún snýst nú samt…”. Fullyrðingar um snúning Jarðar eru ekki það eina sem kirkjan hefur haft rangt fyrir sér um. Annað mál er enn mikið deiluefni í dag og er það aldur Jarðarinnar. Árið 1654 setti írski presturinn James Ussher fram þá kenningu að Jörðin sé á milli 6.000-12.000 ára gömul. Þessu trúa margir kristnir menn enn þann dag í dag og ganga sumir svo langt að segja að menn og risaeðlur hafi verið uppi á sama tíma. Þetta er náttúrlega svakalega andstætt öllum vísindalegum rannsóknum og kenningum sem segja að Jörðin hafi orðið til fyrir um 4,5 milljörðum ára, að risaeðlurnar hafi dáið út fyrir um 65 milljónum ára og að nútímamaðurinn hafi komið fram í sviðsljósið mun seinna, eða fyrir um 100.000-200.000 árum.


En af hverju hætti kirkjan að ofsækja fólk sem var ekki sammála henni? Hvernig stendur á því að í dag virðum við trúarbrögð annarra í stað þess að hata þau? Ég er með kenningu um það. Eftir síðari heimsstyrjöldina ríkti fremur undarlegt tímabil þar sem að búið var að sigra nasismann sem byggði jú á hatri. Það var í raun verið að berjast gegn hatri og þegar það hafði verið sigrað sá fólk virkilega hverjar afleiðingar haturs eru. Fólk hefur hugsað með sér að virðing borgi sig kannski frekar. Einnig horfði fólk upp á mikla leiðtoga eins og Martin Luther King verða fyrir barðinu á hatursfullum mönnum. Þetta er þó auðvitað bara kenning og gildir aðeins um vestræn samfélög. Í mörgum múslimalöndum er ekki kennd mikil virðing fyrir öðrum trúarbrögðum og þau jafnvel fyrirlitin. Þar er trúin einnig mun meiri félagslegur þáttur en á Vesturlöndum.


Frummenn (sem voru til fyrir meira en 6000 árum) höfðu ekki hugmynd um neinn af þeim fjölmörgu guðum sem nú eru „til staðar” í þeim aragrúa trúarbragða sem nú eru iðkuð. Svo virðist sem að með fólksfjölgun verði æ fleiri trúarbrögð til. Það bendir einungis til þess að trúarbrögðin þróist með samfélögunum nema þar sem trúarbrögð hafa mikil völd eins og þar sem íslam ræður ríkjum. Þar eru samfélögin alveg sniðin að trúnni en trúin ekki sniðin að samfélaginu. Þar sem trúboð er ekki stundað af krafti virðist sem að þróunin færi samfélagið í átt að trúleysi jafnvel án þess að fólk geri sér fulla grein fyrir því. Sterkt dæmi um það eru Íslendingar sem eru að megninu til skráðir kristnir en ef málið er skoðað nánar þá er ekki nema lítið brot sem sækir kirkju reglulega og enn færri sem hafa einu sinni lesið Biblíuna. Richard Dawkins orðaði það svo: „Öll erum við trúleysingjar, sumir fara bara einum guð lengra.”


Heimildaskrá:

Dawkins, Richard, “The design of life”: An atheist's call to arms. Fyrirlestur Richard Dawkins í febrúar 2002. http://www.ted.com/talks/view/id/113
Dawkins, Richard, The God Delusion. 2006. Houghton Mifflin. Fyrsta kafla má nálgast á http://richarddawkins.net/firstChapter,1
Hið íslenska Biblíufélag. Biblían. 1981. Reykjavík.
Karl Sigurbjörnsson, Hvernig manneskja viltu vera? Predikun biskups Íslands í Áskirkju þann 6. mars 2005. http://kirkjan.is/?trumal/predikanir/hvernig_manneskja_viltu_vera

Ýmislegt af netinu:
Tilvitnanir Hemingway og Marx: http://www.wonderfulatheistsofcfl.org/Quotes.htm
Listi yfir þekkta trúleysingja (inniheldur þá sem eru í upptalningu): http://www.machineslikeus.com/cms/famous-atheists.html
6000 ára gömul Jörð, menn og risaeðlur uppi á sama tíma: http://www.livescience.com/strangenews/ap_050523_creation_museum.html
Kenning James Ussher um aldur Jarðar: http://www.answersingenesis.org/creation/v26/i1/archbishop.asp
Réttarhöld Giordano Bruno: http://asv.vatican.va/en/doc/1597.htm