ég hef verið að skoða þetta áhugarmál svoltið kiar hvatti mig til þess og ég sá að það er eithvað um trúarbrögð enn ekkert um ásatrú enda erum bara 3 sem ég veit um að séu ástrúar á huga

Ásatrú þýðir bókstaflega “trú á Æsi”. Það er þó naumast réttnefni þar sem trúin miðast ekki við Æsi eina en tekur eins til Vana og annara vætta. Vor siður er það sem margir kjósa fremur að nota enda gengur ásatrú meira út á lífsstíl og hegðun en tilbeiðslu guða, og byggist á hinni lifandi náttúru, sem er sá hluti alheimsins sem við sjáum og skynjum.
Goðin gerðu ekki heiminn úr engu, heldur sköpuðu (formuðu) hann úr hinni eilífu orku alheimsins (Ginnungagaps), samkvæmt lögmálunum (örlögunum) sem búa í Aski Yggdrasils.

Sköpun og eyðingin eru endalaust samspil. Hin endanlega sköpun heimsins fór ekki fram í árdaga, né verður endanleg eyðing heimsins allt í einu. Sköpun og eyðing eru eilíf hringrás, sem viðhalda tilverunni.
Samkvæmt Ásatrúnni eru guðirnir ekki stjórnendur heimsins heldur hluti af honum og seldir undir lögmál hans nákvæmlega eins og við jarðneskir menn. Allir hlutir eru forgengilegir, alheimurinn, guðirnir, jörðin og mennirnir eru seldir undir hina endalausu hringrás.

Í helgisiðum sínum taka Ásatrúarmenn mið af því sem skrifað var á fornar bækur. Mest er sótt til Eddukvæðanna og í heimsmynd og siðaboðskap vors siðar. Einnig er að sjálfsögðu tekið tillit til þess að við búum nú í borgarsamfélagi flest öll og hlýtur það að móta allar hugsanir okkar og athafnir.

Ásatrúin á sér enga “biblíu” eins og það er skilið í kristnum sið. Við tökum hins vegar mið af bæði Sæmundar- og Snorra Eddu, en þessar tvær bækur eru bestu heimildirnar um hinn forna átrúnað og reyndar svo einstakar að ef þær væru ekki til væri næsta lítið vitað um bæði íslenska og germanska heiðni.

þekt goð og vættir

Óðinn : æðstur Ása, hann er guð skáldskapar og annarra launhelgra vísinda, svo sem rúna, forspár og galdra, en einnig stríðs og dauða. Til hans í Valhöll fara vopndauðir menn, segir Snorri Sturluson. Nútíma Ásatrúarmenn álíta að þeir sem lifa og deyja sjálfum sér samkvæmir og þeir sem sýna jörðinni virðingu og berjast fyrir hana haldi því áfram í næsta lífi með því að gerast hermenn Óðins í Valhöllu. Óðinn ríður hinum áttfætta Sleipni og honum fylgja úlfar tveir. Hann á einnig tvo hrafna, Hugin og Munin, sem segja honum tíðindi úr öllum heimum.
Frigg Fjörgynsdóttir : eiginkona Óðins, verndari hjúskapar, fjölskyldu og heimilis.
Þór : þrumugoðið. Sonur Óðins og Jarðar, verndari mannanna og Miðgarðs. Hans tákn er hamarinn Mjölnir. Þór er mest dýrkaður allra Ása að fornu og nýju.
Sif : gyðja hins gullna akurs. Hennar séreinkenni er hið gullna hár og hún er eiginkona Þórs.
Loki Laufeyjarson: að hálfu Ás en að hálfu jötunn. Hann er faðir Miðgarðsorms, Fenrisúlfs og Heljar, en móðir Sleipnis. Hann hefur valdið flestu illu meðal manna og goða en kippir hlutunum þó yfirleitt aftur í liðinn áður en stórtjón hlýst af. Í Loka kemur gleggst fram tvíeðli guðanna. Hann er báðu megin borðsins, ef svo má að orði komast. Sem einn af Ásum er hann skapandi, en sem einn af jötnum er hann eyðandi. Í raun tryggir Loki áframhald tilverunnar með gerðum sínum. Með því að leggja lóð sín á vogaskálar guða og jötna á víxl viðheldur hann hinni eilífu hringrás og jafnvægi tilverunnar.
Sigyn : eiginkona Loka
Baldur : hinn hvíti ás. Sonur Óðins og Friggjar. Í dauða Baldurs er samsvörun við jarðargróður, sem fellur að hausti en lifnar aftur að vori. Frá þessu sjónarmiði eru vorrigningarnar grátur náttúrunnar til að leysa Baldur úr Helju.
Nanna : hafgyðja. Eiginkona Baldurs. Þeirra sonur er Forseti.
Týr : goð stríðs og laga. Hann var eina goðið sem hafði kjark til að láta hönd sína að veði þegar Fenrisúlfur var bundinn og er því einhentur.
Freyr : goð frjósemi og jarðargróðurs, af ætt Vana. Sonur Njarðar. Oft líka kallaður Gandálfur. Á Frey skal heita til árs og friðar. Hann leggur ofurást á Gerði jötunmey eina fagra og fær hennar að lokum. Skírnismál fjalla um þennan atburð.
Freyja : gyðja ástar og fugla, systir Freys og dóttir Njarðar. Hún beinir hugum manna til ásta, bæði karla og kvenna. Freyja ekur um í vagni sem dreginn er af tveimur köttum; Högna og Þófni. Hún er ástsælust gyðja að fornu og nýju.
Njörður : Goð vinds, verslunar og sjávar. Kom til Ásgarðs ásamt Frey og Freyju við lok styrjaldarinnar milli Ása og Vana.
Iðunn : gyðja grasa og lækninga. Hún gætir hinna gullnu æskuepla goðanna.
Bragi : skáldskapargoð og líklega goð tónlistar líka. Eiginmaður Iðunnar.
Eir : lækningargyðja, mögulega systir Iðunnar.
Fenrir eða Fenrisúlfur : óvættur í Ásgarði. Sonur Loka og tröllkonunnar Angurboðu.
Hel : gyðja dauðaheims. Hennar ríki er hið kalda Hel og Niflheimar. Dóttir Loka og Angurboðu.
Miðgarðsormur : óvættur sem hringar sig um öll lönd og bítur í sporðinn á sér. Afkvæmi Loka og Angurboðu.
Heimdallur : vörður Bifrastar. Sér hundrað rasta frá og heyrir gras gróa og ull vaxa á kindum. Sonur níu systra. Líka nefndur Rígur og um hann er Rígsþula í Eddukvæðum.
Bifröst : regnbogabrúin sem liggur milli Ásgarðs og Miðgarðs.
Mímir : alviturt goð sem var hálshöggvið. Óðinn lagði jurtir við höfuð hans og lífgaði við aftur. Mímishöfuð er nú helsti ráðgjafi Óðins.
stjórnandi á /skátar