Ég er búin að vera að lesa fyrstu Mósebók í biblíunni og það er svona ýmislegt sem mig rekur augun í, t.d. strax í sögunni um Paradís og fall mannsins. Þannig að ég er búin að vera að spá og spekúlera og ákvað að skrifa það hingað. Þið megið vel vera ósammála mér og ég tek vel í rökræður. Ég er ekkert að setja út á kristna trú þó svo ég skrifi þetta, þetta eru bara svona mínar kenningar út frá að lesa biblíuna. Það sem er innan gæsalappa er tekið beint upp úr bókinni.


„Drottinn Guð plantaði aldingarð í Eden langt austur frá og setti þar manninn, sem hann hafði myndað. Og Drottinn Guð lét upp vaxa af jörðinni alls konar tré, sem voru girnileg á að líta og góð að eta af, og lífsins tré í miðjum aldingarðinum og skilningstréð góðs og ills.“

-Þarna eru semsagt tvö mikilvæg tré í miðjum garðinum.

„Þá tók Drottinn Guð manninn og setti hann í aldingarðinn Eden til að yrkja hann og gæta hans. Og Drottinn Guð bauð manninum og sagði: “Af öllum trjám í aldingarðinum máttu eta eftir vild, en af skilningstrénu góðs og ills mátt þú ekki eta, því að jafnskjótt og þú etur af því, skalt þú vissulega deyja.”“

-Það þýðir að maðurinn má borða ávextina af lífsins tré. Svo býr Guð til konuna af holdi mannsins og þá kemur höggormurinn…

„Höggormurinn var slægari en öll önnur dýr merkurinnar, sem Drottinn Guð hafði gjört. Og hann mælti við konuna: “Er það satt, að Guð hafi sagt: Þið megið ekki eta af neinu tré í aldingarðinum?” Þá sagði konan við höggorminn: “Af ávöxtum trjánna í aldingarðinum megum við eta, en af ávexti trésins, sem stendur í miðjum aldingarðinum, af honum, sagði Guð, megið þið ekki eta og ekki snerta hann, ella munuð þið deyja.” Þá sagði höggormurinn við konuna: “Vissulega munuð þið ekki deyja! En Guð veit, að jafnskjótt sem þið etið af honum, munu augu ykkar upp ljúkast, og þið munuð verða eins og Guð og vita skyn góðs og ills.” En er konan sá, að tréð var gott að eta af, fagurt á að líta og girnilegt til fróðleiks, þá tók hún af ávexti þess og át, og hún gaf einnig manni sínum, sem með henni var, og hann át. Þá lukust upp augu þeirra beggja, og þau urðu þess vör, að þau voru nakin, og þau festu saman fíkjuviðarblöð og gjörðu sér mittisskýlur.“

-En Guð sagði að jafnskjótt og þau myndu borða af aldintrénu að þá myndu þau deyja, en það gerðist ekki, þau lifðu áfram og Adam varð 900 ára! Og það gerðist sem höggormurinn sagði, að þau vissu mun góðs og ills. Höggormurinn sagði satt en Guð ekki. Maður gæti þá sagt að þá hafi maðurinn glatað eilífu lífi ef ekki væri fyrir eftirfarandi:

„Drottinn Guð sagði: “Sjá, maðurinn er orðinn sem einn af oss, þar sem hann veit skyn góðs og ills. Aðeins að hann rétti nú ekki út hönd sína og taki einnig af lífsins tré og eti, og lifi eilíflega!” Þá lét Drottinn Guð hann í burt fara úr aldingarðinum Eden til að yrkja jörðina, sem hann var tekinn af. Og hann rak manninn burt og setti kerúbana fyrir austan Edengarð og loga hins sveipanda sverðs til að geyma vegarins að lífsins tré.“

-Það þýðir að maðurinn var aldrei eilífur áður en hann át af skilningstré góðs og ills. Hins vegar hefur maðurinn núna fengið vit í kollinn og veit hvað það þýðir að borða af lífsins tré og gæti fengið löngun til þess. Guð er reiður og vill koma í veg fyrir það og rekur hann þess vegna úr Eden. Þetta staðfestir líka það að höggormurinn sagði satt, að þau yrðu eins og Guð. Hver er þá “vondi kallinn”? Höggormurinn eða Guð? Höggormurinn sagði konunni ekki að borða af trénu, hann sagði henni bara sannleikann eins og hann var.

„En er þau heyrðu til Drottins Guðs, sem var á gangi í aldingarðinum í kveldsvalanum, þá reyndi maðurinn og kona hans að fela sig fyrir Drottni Guði millum trjánna í aldingarðinum. Drottinn Guð kallaði á manninn og sagði við hann: “Hvar ertu?” Hann svaraði: “Ég heyrði til þín í aldingarðinum og varð hræddur, af því að ég er nakinn, og ég faldi mig.” En hann mælti: “Hver hefir sagt þér, að þú værir nakinn? Hefir þú etið af trénu, sem ég bannaði þér að eta af?” Þá svaraði maðurinn: “Konan, sem þú gafst mér til sambúðar, hún gaf mér af trénu, og ég át.” Þá sagði Drottinn Guð við konuna: “Hvað hefir þú gjört?” Og konan svaraði: “Höggormurinn tældi mig, svo að ég át.”“

-Maðurinn og konan eru bæði jafnsek því þau átu bæði af trénu, alveg sama þó konan hafi rétt honum ávöxtinn. Þau tóku bæði sjálfstæða ákvörðun um að bíta. Þau skella hins vegar bæði skuldinni á einhvern annan. Maðurinn segir það konunni að kenna að hann borðaði, en hann vissi alveg að það mátti ekki og hefði vel getað sagt nei. Konan segir höggorminn hafa tælt sig, en hún þurfti ekkert að borða af trénu frekar en hún vildi, höggormurinn sagði henni bara sannleikann, en Guð hræddi þau með hótunum um skyndilegan dauða.

Það fyrsta sem þau gera eftir að hafa borðað af trénu er að blygðast sín fyrir nektina (sem mér finnst ekkert nema eðlilegt, því þannig fæddumst við) og að skjóta sér undan ábyrgð og ljúga. Mér finnst það ekki sérlega eftirsóknarvert. Og hvers vegna vildi Guð ekki að Adam og Eva vissu muninn milli góðs og ills? Ég á eiginlega bágt með að finna skýringu.

Hvað haldið þið og hvað finnst ykkur um þessar spekúlasjónir mínar?