Í bænum er skemmtistaður sem heitir Píanóbarinn og er þessi skemmtistaður mjög góður en þó hafa skapast fordómar gegn staðnum því að þangað hefur nokkur fjöldi litaðra sótt undanfarin ár.

Hvítt fólk hefur ekki viljað fara á staðinn af því að litaðir hafa sótt hann og hafa hvítir meðal annars uppnefnt staðinn “surtshellir” og “litaver”.

Nú hef ég sjálfur farið nokkrum sinnum á staðinn með kærasta mínum og ég kann mjög vel við mig þarna og hef ég meðal annars ekki orðið fyrir fordómum þar vegna samkynhneigðar minnar eins og ég hef lent í á öðrum stöðum.

Nokkuð hefur verið um að litaðir gestir staðarins hafi sætt ofbeldi vegna kynþáttar síns en ódæðismenn hafa stundum ruðst inn á barinn og verið með leiðindi við litaða og jafnvel beitt þá ofbeldi. Þetta hef ég ekki séð enn en eigandi staðarins sagði þetta einu sinni í sjónvarpsviðtali.

Allir fordómar eru slæmir og því vil ég hvetja alla til þess að líta inn á Píanóbarinn einhverntíman og hætta þessum fordómum gagnvart hinu óþekkta. Litaðir eru ekkert verri en þeir sem eru hvítir og því er það skylda okkar að koma vel fram við þau og blanda geði við þau því að við verðum að læra strax að lifa í fjölþjóðlegu samfélagi svo að vandamál skapist ekki seinna meir eins og hefur gerst t.d. í Danmörku og Frakklandi þar sem lítið umburðarlyndi hefur ríkt og lítil samskipti verið á milli ólíkra kynþátta.