Nytjar
Viður margra fíkjutrjáa er frekar mjúkur, óreglulegur og óhentugur í smíði af flestu tagi. Innan trésmíðasamfélagsins er fíkjuviður þekktur fyrir að vera óstýrlátur og óþægilegur efniviður þrátt fyrir að ljós viðurinn geti oft verið býsna fallegur. En þó svo að fíkjuviðurinn sjálfur sé ekki sérlega hentugur í smíði þá hefur lögun laufblaðanna veitt mörgum innblástur í trésmíði og húsasmíði úr öðrum efnivið. Laufblöð tegundarinnar F. religiosa hafa sett sinn svip á hina hefðbundnum skreytingarsmíði bygginga sem kallast Kbach en slíkar skreytingar eru algengar í Kambódíu og víðar í SA-Asíu. Stíllinn lýsir sér aðallega í fíngerðum útskurði laufblaða og/eða klifurviðju/róta í tré, silfur eða steini. Slíkan útskurð má oft sjá á þakskeggi, burðarsúlum eða þverslám. Á svipuðum nótum mætti einnig nefna að börkur fíkjutrjáa var oft notaður í ákveðna gerð pappírs eða klæðis sem kallst barkar-klæði (e. bark-cloth). Þessi efniviður var (og er) notaður í fatnað eða skreytingar sem svipa til veggteppis eða refils.


Mynd 1 Einkennandi stíll í trésmíði sem má sjá á þverslám og þaksperrum víðsvegar um SA-Asíu. Rætur og lauf fíkjutrjáa eru sögð hafa veitt innblástur að þessu listformi.

Hinar lifandi brýr
Þrátt fyrir upplýsingar og staðreyndir hér að ofan um að viður fíkjutrjáa sé óhentugur til notkunar við byggingar þá eru fíkjutré samt sem áður stundum notuð í mannvirki. Það er hinsvegar gert á fremur óhefðbundinn hátt - fíkjutré eru notuð við byggingu mannvirkja án þess að höggva þau niður. Þessi byggingaraðferð notfærir sér hinn hraða og mikla rótarvöxt fíkjutrjáa til þess að byggja  lifandi mannvirki og lifandi arkítektúr. Algengast er að þessi aðferð sé notuð við byggingu brúa; þá eru rætur fíkjutrésins F. elastica lagðar eða leiddar þvert yfir ánna og festar sitt hvoru megin við ánna við kletta eða fullvaxin tré. Ræturnar vaxa síðan og gildna og mynda þannig mannhelda og jafnvel bílhelda brú yfir ánna.