Fíkjutré hafa margbreytilegt vaxtarform. Sumar fíkjutegundir vaxa sem tré, aðrar vaxa sem klifurjurtir eða ásætur og enn aðrar vaxa sem runnar og það er munur á lífsferlum og hegðun þessara afbrigða. Í undraheimum fræðanna eru ásætu og tré afbrigðin stundum kölluð kyrkifíkjur (e. strangler figs) og stöngulfíkjur (e. stem figs).


Mynd 1 - Banvænt faðmlag kyrkifíkju. Hýsill þessa fíkjutrés á ekki mikið eftir ólifað enda þrengja ræturnar sífellt að honum.

Kyrkifíkjur eru ásætur og þurfa því á hýsiltré að halda til þess að vaxa. Einstaklingar af þessu afbrigði sýna vel hversu hörð samkeppni getur verið um sólarljós í þéttum regnskógum. Lífsferill kyrkifíkju hefst þegar fræ þeirra berast með hægðum fugla eða annarra dýra upp í annað tré. Fræið spírar í næringarríku umhverfi fuglaskítsins og byrjar að mynda rætur og stöngla. Ræturnar skríða niður trjábol hýsilsins í leit að jarðvegi en stönglarnir vaxa upp í trjákrónu hýsilsins. Þegar rætur fíkjunnar finna loks jarðveg þá fara þær að stela næringarefnum og vatni frá hýsilnum ásamt því að vefja sig utan og þrýsta fast á trjabol hýsilsins og koma þannig í veg fyrir að hýsillinn geti komið næringarefnum og vatni upp í trjákrónuna. Skortur á vatni og næringu ásamt hindrun á vexti leiðir að lokum til þess að hýsillinn deyr. Tré stækka og vaxa með því að auka ummál sitt en það er ógerlegt þegar rætur fíkjunnar þrengja að trjábolnum. Tré hýsilisins brotnar svo niður á næstu árum og áratugum og eftir situr holur, sívalningslaga trjástofn kyrkifíkjunnar (Mynd 2). Nýleg rannsókn hefur þó leitt í ljós að samband ásætu og ásætis sé ekki hreint og beint sníkjulíf en línan á milli sníkjulífi og samlífi er oft frekar óskýr. Niðurstöður rannsóknarinar sýndu að kyrkifíkjur veittu hýslum sínum stuðning í miklum vindum - rótarkerfi fíkjutrésins festu hýsilinn betur við jarðveginn (Leora S. Richard o.fl. 2017).


Mynd 2 - Hægfara morð. Passið ykkur á kyrkifíkjunum krakkar.

Áhugamaður um alvarleg málefni.