Þessi texti er tekinn af www.palestina.is

Mótmælastaða fyrir framan Grand Hótel
vegna landkynningar hryðjuverkastjórnar.

Félagið Ísland-Palestína fordæmir þá hryðjuverkastjórn sem situr við völd í Ísrael. Ísraelsríki hefur um áratuga skeið ofsótt Palestínumenn á grundvelli trúarbragða og þjóðernis og svipt þá grundvallarréttindum sínum. Félagið lýsir furðu sinni á þeirri bíræfni ferðamálaskrifstofu ríkisstjórnar Ísraels að efna til kynningar á skemmti- og sólarlandaferðum til landsins á sama tíma og heimurinn stendur á öndinni vegna framferðis Ísraelshers.

Ógnarstefna ríkisstjórnar Ísraels gagnvart Palestínumönnum hefur á undanförnum misserum náð hámarki með skipulagðri aðför fjöldamorðingjans Ariels Sharon að þeirri samfélagsupp-byggingu sem átt hefur sér stað í Palestínu undir takmarkaðri heimastjórn. Framganga Ísraelshers síðasta eina og hálfa árið hefur orðið á annað þúsund manns að bana og valdið ómældri eyðileggingu á heimilum Palestínumanna, heilsugæslu, menntakerfi, samgöngum, lífi þeirra og limum. Tugþúsundir manns hafa slasast, og þar af munu þúsundir búa við ævilanga fötlun. Hér er um skipulagðar þjóðernisofsóknir að ræða, þar sem hernaðarlegum yfirburðum er beitt til að níðast á landlausri þjóð sem getur litla björg sér veitt gagnvart herþyrlum og flugskeytum.

Félagið Ísland-Palestína efnir til mótmælastöðu fyrir framan Grand Hótel, þar sem kynning Ísraelsstjórnar fer fram. Félagið hvetur borgarbúa til að fjölmenna og sýna samhug sinn með þjáningum Palestínumanna og stuðning við baráttu þeirra gegn hernámi. Kynningin hefst klukkan 18:00, fimmtudaginn 14. mars, og mun mótmælastaðan hefjast klukkan 17:30. Nýskipaður sendiherra Ísraels gagnvart Íslandi mun að líkindum verða viðstaddur kynninguna.


Sýnum stuðning okkar í verki og mætum!
Lilja