Smá upprifjun fyrir þá sem vilja skilja aðgerðir
BNA í Írak betur:
Leiðtogar margra ríkja í Austurlöndum nær héldu lengi í þá von að Bandaríkjamenn mundu taka að sér hlutverk málamiðlara og leysa úr verstu flækjunum. Þær vonir brugðust þegar það kom aðallega í hlut leyniþjónustunnar, CIA, að reka erindi Bandaríkjastjórnar á þessum slóðum. Vaxandi mikilvægi olíu átti síðan eftir að rugla Vesturlandabúa enn meira í ríminu og flækja stjórnmálastöðuna.
Starfsmönnum CIA virtist með öllu fyrirmunað að halda rétt á spöðunum. Fyrst studdu þeir Nasser í Egyptalandi en snérust síðan gegn honum þegar Egyptaland hóf að deila við Breta og Frakka um Súesskurðinn 1956. CIA fjölgaði óvinum sínum í þriðja heiminum þegar leyniþjónustan steypti lýðræðisstjórn Guatemala 1954 [Gerald Colby, Thy Will Be Done, bls. 169–70, New York, 1995], en örlagaríkustu mistök Bandaríkjanna í Austurlöndum nær komu þó ári fyrr. Þá stóð CIA fyrir stjórnarbyltingu í Íran og þröngvaði heiðnum keisaranum upp á guðhrædda þjóðina. Njósnari CIA, Kermit Roosevelt (starfaði líka fyrir Northrop vopnafyrirtækið), skipulagði síðan hina illræmdu leyniþjónustu Íran, SAVAK, sem hélt keisaranum við völd með pyntingum og fjöldarnorðum. Hatur almennings á keisaranum—og þá um leið á Bandaríkjunum—jókst stöðugt og varð loks til þess að Ayatullah (höfuðklerkur) Khomeini náði völdum … og alda trúarofstækis reið yfir Austurlönd nær.
Mjög góð heimild um atburðarásina í Austurlöndum nær á milli 1950 og 1980 er bók Bandaríkjamannsins Wilbur Crane Eveland, Ropes of Sand. Eveland starfaði í þessum heimshluta í 30 ár fyrir bandarískar ríkisstofnanir og olíufélög, þekkti fjölda ráðamanna persónulega og ræddi einslega við menn á borð við Saud konung, Nasser og Hussein konung.
Það gerist ekki oft að tjöldunum er lyft og okkur er gefinn kostur á að skyggnast inn í heim leynimakkara á því andartaki er þeir taka ákvarðanir um örlög þjóða, en Eveland leiðir okkur inn á einn slíkan fund í London snemma árs 1956. Þar voru mættir til leiks háttsettir menn í bresku leyniþjónustunni, MI 6, og umræðuefnið var breytt viðhorf Breta til landanna fyrir botni Miðjarðarhafs. Talsmaður Breta á fundinum var George Kennedy Young, aðstoðarmaður Sir John Sinclairs (sem stjórnaði MI 6 og gekk undir dulnefninu e). Án þess að depla auga gerði hann grein fyrir eftirfarandi áætlun Breta, sem hann fullyrti að utanríkisráðherrar Bretlands og Bandaríkjanna—Lloyd og Dulles—hefðu lagt blessun sína yfir (sem getur tæplega hafa verið satt):
… Bretlandi stafaði hætta af Egyptalandi, Saudi Arabíu og Sýrlandi. Það yrði að grafa undan ríkisstjórnum þessara landa eða hrinda af stað byltingu. Írak, hornsteinn stöðugleika á svæðinu, fengi mesta aðstoð frá Bretum. Nauðsynlegt væri að styrkja stöðu forsætisráðherrans, Nuri as Said, eins mikið og eins skjótt og unnt væri. Litið væri á Tyrkland og Íran sem hliðholl ríki er veitt gætu áformum Breta lið. Fyrst ekki væri hægt að stöðva Nasser … þá yrði Sýrland, sem sigldi hraðbyri undir sovésk áhrif, að hafa forgang … næst yrði að steypa Saud konungi. Þar næst, áður en Nasser gæti beitt sovéskum sprengiflugvélum til að afmá Ísrael, yrði að losa sig við hann. Örlög Jórdaníu og Líbanons réðust af því hve skjótt væri hægt að steypa ríkisstjórn Sýrlands … [Wilbur Crane Eveland, Rapes of Sand, bls. 169–70, New York, 1980]
Young útskýrði síðan hvernig staðið yrði að byltingunni í Sýrlandi: (1) Tyrkir áttu að safna liði og láta ófriðlega á landamærum ríkjanna; (2) næst kæmi það í hlut Íraka að kynda undir eyðimerkurættbálkum og koma þeim í vígahug; (3) og loks mundu sýrlenskir útlagar í Líbanon (Partie Populaire Syrienne) storma yfir landamærin. Ringulreiðin sem allt þetta skapaði mundi réttlæta innrás frá Írak!
Skömmu eftir þessi sérkennilegu fundarhöld fóru að berast fréttir frá breskum "blaðamanni" (sem raunverulega var MI 6 njósnari eins og svo margir breskir blaðamenn er störfuðu erlendis) um ófrið á landamærum Sýrlands. Önnur vísbending um að áætlun Breta væri í fullum gangi kom þegar Khrushchev, aðalritari kommúnistaflokks Sovétríkjanna (og forsætisráðherra 1958–1964), kvartaði yfir því við Time að Tyrkir væru að safna liði á landamærum Sýrlands. Byltingin rann þó út í sandinn þegar Ísraelsmenn og Egyptar hófu Súesstríðið aðeins einum degi áður en hún var fyrirhuguð.
Síðasta stórævintýri Vesturlandabúa fyrir botni Miðjarðarhafs var stríðið við Írak. Þess verður lengi minnst fyrir að vera fyrsta tölvustýrða stríðið og hið fyrsta sem flæddi viðstöðulaust inn á heimili fólks í gegnum gervitungl. Þess verður líka minnst fyrir hve auðveldlega blaðamenn létu leiða sig á asnaeyrunum. Þótt styrjöldin á vígvellinum væri barnaleikur þá var áróðursstríðið enn auðveldara.
Í Orwellskum anda snéru áróðursmeistararnir raunveruleikanum á haus og gáfu orðum glænýja merkingu: Scud eldflaugar Íraka unnu hryðjuverk en eldflaugar Bandaríkjamanna hétu föðurlandsvinir (Patriot) og sprengjurnar voru "smart." Vikuritið Newsweek birti forsíðumynd af Stealth sprengjuflugvélinni og spurði: "Hversu mörgum lífum getur hún bjargað?" Eins og bent er á í bókinni Unreliable Sources [Martin A. Lee og Norman Solomon, Unreliable Sources: A Guide to Detecting Bias in News Media, New York, 1991] þá var þetta rauði þráðurinn í áróðrinum: "Amerísk vopn taka ekki líf; þau bjarga þeim!"
Þótt Saddam Hussein væri blóðþyrstur einræðisherra þá var hann besti vinur Bush á meðan hann barðist við klerkaveldið í Íran. Haustið 1989, níu mánuðum fyrir innrás Íraka í Kuwait, hafði Bush t.d. skrifað undir leynilega stefnuyfirlýsingu þar sem hann boðaði nánari tengsl við ríkisstjórn Husseins og gaf henni $1 milljarð í aðstoð. [Los Angeles Times, 23. febrúar 1992] Styrjöldin við Íran var feikilega dýr og Írakar, sem töldu sig líka vera að berjast fyrir hönd auðugu olíuríkjanna, kröfðu Kuwait um $10 milljarða í frekari aðstoð. Stjórnvöld í Kuwait drógu málið þar til þolinmæði Husseins þraut. Hann heimtaði nú að Kuwait gæfi Írak eftir olíulindir og máli sínu til stuðnings sendi hann hersveitir í átt að landamærum ríkjanna. Hussein vildi þó ekki gera innrás fyrr en hugur Bandaríkjastjórnar hafði verið skoðaður.
Sendiherra Bandaríkjanna, April Glaspie, var kölluð á fund einræðisherrans og hann hékk á hverju orði hennar. Frúin virtist sallaróleg yfir stöðu mála og sagði orðrétt: "(Bandaríkin) hafa enga skoðun á erjum á milli Arabaríkja, eins og landamæradeilum ykkar við Kuwait." Hún bætti því við að utanríkisráðherrann, James Baker, hefði sagt að "málið snerti ekki Bandaríkin." Sama viðhorf kom fram fjórum dögum síðar þegar aðstoðarutanríkisráðherrann, John Kelly, sérfræðingur í málefnum Austurlanda nær, svaraði spurningum þingheims.
Írak réðist inn í Kuwait 2. ágúst 1990, sjö dögum eftir fundinn með April Glaspie, og það er vel hugsanlegt að Hussein hafi talið sig hafa grænt ljós frá bandarískum diplómötum. Ef þannig var í pottinn búið þá hefur hann orðið afar hissa þegar vinir hans—Bretar, Frakkar og Þjóðverjar (sem í áratug höfðu mokað í hann vopnum og tækni til að framleiða eiturgas) og Bandaríkjamenn—byrjuðu að kalla hann Hitler, Mússolini og meira að segja "stóra, feita rottu."
Orðum fylgdu athafnir og Vesturveldin byrjuðu fljótlega að vígbúast. Fólk gat brátt byrjað að skemmta sér við að horfa á atburðarás í sjónvarpi sem minnti miklu meira á tölvuleik en mannlegan harmleik. Allir klöppuðu þegar "gáfaðar" sprengjur rötuðu inn um dyr á húsum eða eltu skotmörk sín eins og hugsandi verur. Yfir 100.000 einstaklingum var slátrað—en því myndefni var ýtt til hliðar.
Eins og vani er í styrjöldum þá varð sannleikurinn fyrsta fórnar lambið. Emír (einræðisherra) Kuwaits, Sheikh laber alAhmed al-Sabah—sem eins og aðrir í al-Sabah fjölskyldunni bjó á fimm stjörnu hóteli í útlegðinni—réði virtasta auglýsingafyrirtæki Bandaríkjanna, Hill and Knowlton í Washington, til þess að reka áróðursstríðið fyrir sig. Fyrirtækið tók þá vísu ákvörðun að leiða athyglina í burtu frá al-Sabah fjölskyldunni og gera Hussein að illmenni aldariannar.
George Bush var alltaf í nokkrum vanda þegar hann reyndi að réttlæta stríðið vegna þess að hann vildi ekki viðurkenna að það gengi eingöngu út á aðgang að olíu. Það var ekki nóg að benda á að stærra ríki væri að ofbjóða minna ríki; Sýrlendingar og Ísraelsmenn hafa t.d. oft ráðist inn í Líbanon án þess að nokkur depli auga. Þá gat hann ekki klínt gömlu kommagrýlunni á Hussein eða ásakað hann um að hafa lagt undir sig lýðræðisríki. Kuwait átti ekki samúð allt of margra.
Ríkisborgarar Kuwaits eru sennilegasta latasta fólk í heimi. Helmingur þjóðarinnar eru réttindalausir innflytjendur sem vinna fyrir þá innfæddu. Ráðamenn landsins eru ekki aðeins latir heldur líka, jafnvel í augum annarra Araba, meiri háttar hóglífsmenn og svallarar. Samkvæmt kokkabókum íslam þá má Sheikh laber alAhmed al-Sabah, emír landsins síðan 1977, kvænast fjórum konum. Hann hefur fundið leið í kringum þessa þröngu reglu með því að eiga þrjár eiginkonur og kvænast alltaf nýrri konu á hverjum fimmtudegi! Ef fimmtudagskonan verður ólétt þá er henni skilað ásamt gjöfum til föðurhúsanna [Christopher Dickey. "Kuwait Inc.", Vanity Fair, bls. 156, nóvember 1990 (höfundur bjó í Kuwait)]. Emírinn veit satt að segja ekki barna sinna tal.
Sonur krónprinsins í Kuwait, Fahed al-Sabah, þurfti að vera undir stöðugu eftirliti þegar hann dvaldi í Bandaríkjunum. Nágrannar hans í Watergate byggingunni frægu fengu nærri því taugaáfall þegar hann mataði gæludýr sitt, gleraugnaslöngu, á lifandi fuglum í allra viðurvist. Á tímabili fékk hann líka hnefaleikadellu og notaði þjón sinn, innfluttan frá Kuwait, sem púða og barði hann nærri því til óbóta. Hann skemmti sér líka við að svelta þjóninn og hengdi hann upp á snaga inni í klæðaskáp langtímum saman. [Robert Parry, Fooling America, bls. 138–9, New York, 1992]
Snillingarnir hjá Hill and Knowlton vissu að það var vonlaust að stilla þessu fólki upp sem fórnarlömbum og fyrirtækið beitti því allri orku sinni í að sverta Hussein. Eitt eftirminnilegasta áróðursbragðið—sem Bush og fleiri áttu eftir að vitna til hvað eftir annað og bergmálaði um alla heimsbyggðina—var sviðsett á óvenjulegum fundi hjá Sameinuðu þjóðunum. Þar gekk í sal ung stúlka, kynnt aðeins sem "Nayirah", en seinna nafnið var ekki gefið upp til þess að vernda fjölskyldu hennar í Kuwait. Hún lýsti því klökkum rómi hvernig hermenn Husseins rifu ungbörn á fæðingardeildum úr súrefniskössum og skildu þau eftir dauðvona. Kassarnir væru síðan sendir til sjúkrahúsa í Írak.
Fólki ofbauð náttúrulega hrottaskapurinn og í hugum margra mjókkaði bilið stöðugt á milli Saddams og Satans. En þessi saga var hreinn uppspuni. Ástæðan fyrir því að fjölskyldunafn Nayirah var ekki gefið upp var sú að hún var dóttir sendiherra Kuwaits í Bandaríkjunum! Hún var ekki einu sinn í Kuwait þegar atburðurinn átti að hafa gerst. Óháðar stofnanir, t.d. Middle East Watch, staðfestu að ungbarnasagan væri uppspuni frá rótum. Leyniþjónustan og þar með Bush hljóta að hafa vitað hver Nayirah raunverulega var en almenningur lærði ekki sannleikann fyrr en New York Times birti hann tveimur árum síðar.
Var Saddam Hussein aðeins peð í skák sem hann skildi ekki? Sumir vilja halda því fram að Bush hafi viljað stríð til að ná fótfestu nálægt stærstu olíulindum heims. Scott Armstrong, sem starfaði með Bob Woodward á sínum tíma, skrifaði í Mother Jones [Mother Jones, nóvember–desember 1991] að Bandaríkjamenn og Saudi Arabar hafi á áratugnum fyrir stríðið byggt leynilegar herstöðvar í eyðimörkinni sem kostuðu svimandi upphæðir. Hræðsla almennings í Saudi Arabíu við Írak opnaði landið síðan formlega fyrir erlendum her, sem annars var (og er) mjög óvelkominn.
Í kjölfar stríðsins tók við dýrt uppbyggingarstarf í Kuwait og vinir þeirra í Washington röðuðu sér upp til að græða á því. Neil Bush, Marvin Bush, John Sununu og fleiri græddu stórfé er þeir sömdu um verkefni við ríkisstjórn Kuwaits fyrir hönd bandarískra fyrirtækja. James Baker, utanríkisráðherra Bush, birtist í Kuwait sem fulltrúi Enron, stærsta framleiðanda Ameríku á gasleiðslum. ["The Spoils of the GulfWar", New Yorker, 6. september 1993]
En það voru margir sem töpuðu stórt: Palestínumenn, sem voru ofsóttir í Kuwait eftir stríð og dæmdir til dauða fyrir glæpi á borð við að hafa klætt sig í bol með mynd af Hussein; Kúrdar, sem vissu ekki að þeim yrði fórnað til þess að "valdajafnvægi Írans og Íraks raskaðist ekki," eins og Kissinger orðaði það í viðtali; og hundruð þúsunda barna sem dóu í Írak sökum lyfja- og matvælaskorts vegna þess að "stóra, feita rottan" fékk að halda völdum.

Bætt við 7. desember 2006 - 13:07
Textinn sem vitnað er í er tekinn af vefnum http://www.vald.org/