Veit ekki hvort þetta hefur komið áður upp í umræðuna hérna, biðst velvirðingar ef svo er….en vil endilega fá að vita hið almenna álit á þessu máli, mér er allavega virkilega misboðið.

Grein af MBL, birtist 15.nóvember 2006:

RÍKISSTJÓRNIN samþykkti á fundi sínum í gærmorgun frumvarp samgönguráðherra um breytingar á umferðarlögum. Er því einkum ætlað að bregðast við hraða- og ofsaakstri auk þess sem auknar kröfur verða gerðar til yngri ökumanna. Breytingarnar eiga að taka gildi í síðasta lagi á alþjóðlegum umferðaröryggisdegi, 27. apríl nk.

“Af hálfu ráðuneytisins er alveg skýr stefna að við verðum að ná betri árangri í umferðaröryggismálum,” sagði Sturla Böðvarsson samgönguráðherra eftir fund ríkisstjórnar. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að viðurlög við hraðakstursbrotum verði hert til muna og hlutfallslega hærri sektum beitt þegar akstur hefur í för með sér aukna áhættu. Einnig verður lögreglu gert kleift að gera ökutæki upptæk ef ökumaður verður uppvís að grófum og endurteknum brotum á umferðarlögum. Ekki er talið líklegt að ákvæðinu verði oft beitt en æskilegt þykir að hafa heimildina þannig að hægt sé að grípa til aðgerða gagnvart síbrotamönnum í umferðinni.


Vélarafl takmarkað
Í breytingunum felst heimild til að banna yngri ökumönnum að aka bifreið á tilteknum tímum sólarhrings, fjöldi farþega yngri en 20 ára verði takmarkaður og vélarafl ökutækis sömuleiðis.

“Það er alveg ljóst að ungir ökumenn lenda gjarnan í umferðarslysum og í þessu frumvarpi er verið að taka sérstaklega á því máli,” segir Sturla sem vonast til að hægt verði að stemma stigu við banaslysum. “Ég vona það svo sannarlega því við þurfum á því að halda.”
Í hnotskurn
» Hömlur verða settar á unga ökumenn verði frumvarpið að lögum og verður m.a. hægt að beita þá akstursbanni ef þeir brjóta af sér.
» Vonast er til að með breytingunum verði hægt að fækka bílslysum hjá ungum ökumönnum.
» Heildarkostnaður vegna umferðarslysa á sl. ári var 21-29 milljarðar króna.

Tengill ef þið viljið skoða gripinn sjálfann: http://mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1235059