Ég hef alltaf haft gríðarmikinn áhuga á sögu og les flest um hana sem ég kemst í.Maður þarf ekki að liggja lengi yfir sögunni til að átta sig á að gegnumgangandi eru svik,launráð og baktjaldamakk,menn virðast tilbúnir í flest til að komast til valda og halda þeim.Eins verður manni fljótt ljóst að mörgum sem hefur verið hampað sem mikilmennum og miklum leiðtogum,eru þegar betur er gáð siðblindingjar og illmenni með mikilmennskubrjláæði.Einnig sér maður fljótt að oft virðist vanta að skoðað sé betur hvað var að gerast á bakvið tjöldin,er kannski ekki allt sem sýnist?
Ég ætla að gefa manni að nafni Jóhannes Björn orðið,hann hefur skoðað þessi mál mjög mikið og liggur ekki á upplýsingunum,sama hversu viðkvæmar þær eru.Hér á eftir fer úrdráttur úr bók hans Falið Vald:


Alla daga ársins berast okkur mótsagnakenndar fréttir af tilgangslausum styrjöldum, breytilegu valdajafnvægi og vígbúnaðarkapphlaupi sem aldrei taka enda. Inn í þessa hljómkviðu fléttast alþjóðlegar peningastofnanir, sem allir eru í skuld við en fæstir virðast vita hver stjórnar. Og mitt í allri vitleysunni sjáum við auðjöfra og leiðtoga “lýðræðisríkjanna” hópast á fundi hjá Bilderberg hópnum og öðrum leynifélögum.

Hvað er eiginlega að gerast? Er mannkynið svona takmarkað eða er kannski einhver samnefnari í þessu öllu saman? Margir hafa vafalaust veitt því eftirtekt, að þrátt fyrir tiltölulega hraða endurnýjun á þjóðþingum ríkjanna og tíð stjórnarskipti, þá breytist varla nokkur skapaður hlutur. Sömu mistökin endurtaka sig í sífellu og alltaf er verið að berjast við sömu vindmyllurnar.

Ástæðan fyrir þessu er einföld: Ríkisstjórnir og þjóðþing ráða ekki lengur ferðinni. Dagar lýðræðis—í fyllstu merkingu þess orðs—eru löngu gengnir. Það er meira að segja vafasamt að þeir hafi nokkurn tíma verið til. Vesturlönd (og reyndar flest lönd) hafa fyrir löngu glatað efnahagslegu sjálfstæði sínu—og þar með pólitísku sjálfstæði—og vald kjósandans er nánast ekki neitt. Að því leyti rær hann á sama báti og kjósandinn í Rússlandi.

En hver ræður þá?

Þegar við horfum á atburðarás líðandi stundar með það fyrir augum að greina valdaþræðina, þá verðum við að gera okkur grein fyrir tveim hindrunum sem verða á vegi okkar. Í fyrsta lagi skortir okkur sögulegan bakgrunn. Við búum við fjármálakerfi, eða öllu heldur fjárkúgun, sem tók á sig fast form á síðustu öld og hefur ekki breyst í neinum aðalatriðum síðan. Að ætla sér að skilja sviðið eins og það horfir við í dag, án þess að þekkja upphafið, er eins og ganga inn á miðja kvikmyndasýningu. Það er alveg sama hve skarpur áhorfandinn er, hann áttar sig aldrei fullkomlega á söguþræðinum. Og því meir sem hann sér, því ráðvilltari getur hann orðið. “Þegar þekking okkar er ekki skipulögð,” sagði Herbert Spencer, “þá vex ruglingur okkar í hlutfalli við yfirgrip hennar.” Hin hindrunin sem verður á vegi okkar á rætur sínar í vinnubrögðum flestra sagnfræðinga samtímans og sumir hafa nefnt “slysasagnfræði” eða “slysakenningu” (accident theory).

“Slysasagnfræðin” segir okkur, eins og nafnið bendir til, að flestir atburðir mannkynssögunnar hafi gerst fyrir slysni eða klaufaskap. Þjóðhöfðingjar koma og fara fyrir tilviljun, og heilu menningarsamfélögin rísa og falla án teljandi orsaka. Styrjaldir eru afgreiddar nánast eins og náttúrulögmál, og kreppur eru undantekningarlaust “slys.”

Svo undarlegt sem það annars kann að virðast, þá verður “slysasagnfræðin” ónákvæmari og óraunverulegri eftir því sem nær dregur nútíðinni. Þannig er skólafólki t.d. sagt að Hitler, ættlaus og auralaus, hafi komist til valda vegna “upplausnar og óánægju í Þýskalandi,” en kosningasjóðir nasistaflakksins og fjárreiður stormsveitanna liggja í þagnargildi. Eins er fólki sagt að Lenin og Trotsky hafi tekið við valdataumunum í Rússlandi eftir að “öreigar landsins kölluðu þá heim.” Hitt er svo látið liggja á milli hluta, að nokkrir auðmenn á Vesturlöndum “gáfu” þeim félögum u.þ.b. 40 milljónir dollara í veganesti og lögðu til bæði skip og járnbrautarlest til að koma þeim á leiðarenda (sjá sjötta kafla).

Helsti ókostur “slysasagnfræðinnar” er sá að skoðandinn er ekki knúinn til að taka afstöðu til atburðanna sem hann rannsakar. Hann vinnur því létt verk, styggir engan—en kemst heldur ekki að bitastæðum niðurstöðum. Það er gott og blessað að segja að maður líti hlutlaust á atburðina, en í söguskoðun hefur “hlutleysi” venjulega þýtt að vilja ekki vita neitt. Annað hvort hafa hlutirnir gerst eða ekki. Ekkert hlutleysi getur breytt því.

Whittaker Chambers, maðunnn sem afhjúpaði njósnarann Alger Hiss, talar af reynslu er hann segir:

Enginn sem hefur, jafnvel í eitt skipti, upplifað heimssögulegan atburð, getur eftir það gert ráð fyrir að mannkynssagan sé eins og bækurnar segja hana. Með örfáum undantekningum eru þessar bækur eins og ljósmyndir. Þær sýna aðeins yfirborðsmyndina. Oft skrumskæla þær hana. Þau duldu öfl sem starfa undir yfirborði atburðarásarinnar eru sjaldan dregin fram í dagsljósið.

[Whittaker Chamber. WITNESS. bls. 331 (dagsetningu vantar)]

Við skulum strax gera okkur grein fyrir að styrjaldir og kreppur eru ekki náttúrulögmál. Menn sitja ekki á leynifundum út um allan heim af því að þeir hafa ekkert annað fyrir stafni. Heiminum er—svo ótrúlegt sem það kann að virðast—stjórnað. Eins og Franklin D. Roosevelt sagði einu sinni: “Í stjórnmálum gerist ekkert af slysni. Ef eitthvað gerist, þá geturðu hengt þig upp á að það var skipulagt á þann veg.”

Vesturlandabúar fjasa mikið um frelsi og mannréttindi, og telja sjálfa sig þá gjarna frjálsari en annað fólk. Samt er eins og þeir geri sér alls enga grein fyrir stöðu sinni gagnvart yfirvöldum og grundvallarréttindum. Þetta fólk veit raunverulega ekki hvað einstaklingsfrelsi er og þess vegna hefur það glatað því. Þegar einstaklingurinn sættir sig við að vinna fyrir ótryggðum verðbólgupappír er hann ekki frjáls. Ef þessi sami einstaklingur kýs menn til æðstu embætta sem engu ráða, þá er hann orðinn mjög ófrjáls. Og þegar hann loks hefur verið sviptur friðhelgi einstaklingsins og ævisaga hans er skráð hjá yfirvöldum—þá er hann þræll.

Sú mynd sem hér er dregin upp er svört, en, því miður, hún er allt of sönn. Og það sem verra er: hún verður raunverulegri og skýrari með hverjum deginum sem líður.

Hér verður fjallað um þá menn sem hafa skapað þessa mynd, hið ósýnilega vald sem drottnar yfir þjóðum og einstaklingum. Það vald er fjármálalegt og því allsráðandi á flestum sviðum stjórnmálalífsins. Það er þó hvorki hægri- né vinstrisinnað, heldur hafið yfir alla pólitík og tekur aðeins tillit til eigin þarfa.


Ég get ekki komist hjá því að finnast þetta allt koma mjög vel heim og samann og skýra margt sem ég skildi ekki áður.
Hér er linkur að bókinni
http://www.vald.org/