Úfff þó ég þoli ekki þennan mann þá óska ég honum auðvitað ekki dauða. Ætli hann tvöfaldi lífverðina eftir þetta? Minnir mig á þegar það var hvatt til þess að myrða þá sem teiknuðu skopmyndirnar af Múhammed. Þetta atvik mun líklega halda uppi spennu næstu mánuðina, ég vona að páfi fari varlega og láti ekki drepa sig í kæruleysi.

Mbl.is…

Sjeik Abubukar Hassan Malin, áhrifamikill harðlínuklerkur í Sómalíu, hvatti múslíma til þess í dag að elta Benedikt XVI páfa uppi og drepa hann vegna ummæla hans um Allah og Múhameð spámann. Sagði hann ummælin jafn niðrandi og skáldsagan Söngvar Satans eftir rithöfundinn Salman Rushdie.

“Við hvetjum ykkur múslímar, til þess hvar sem þið eruð að elta uppi páfann vegna villimannslegra ummæla hans líkt og þið gerðuð varðandi Salman Rushdie, óvin Allah sem móðgaði trú okkar,” sagði Malin við föstudagsbænir í gær. “Það ætti að drepa hvern þann sem móðgar Múhameð spámann á staðnum.”

Páfagarður lýsti í dag iðrun páfa vegna ummælanna en leiðtogar múslíma um allan heim hafa krafist afsökunarbeiðni vegna þeirra. Þá hafa fjöldagöngur verið farnar og kveikt hefur verið í kirkjum á Vesturbakkanum. Líkur eru jafnvel taldar á að páfi verði að aflýsa fyrirhugaðri ferð sinni til Tyrklands, vegna reiði múslíma vegna orða hans.