Neðanjarðarlestir Hvern einasta virka morgun klukkan 07:35 stíg ég um borð í strætisvagn númeraðan 110. Næsta hálftímanum eyði ég svo í þessum vagni föstum á Miklubrautinni. Vagninn sniglast áfram innan um nánast tóma fólksbíla á vægast sagt litlum hraða.

Nú halda eflaust flestir að þetta verði stöðluð grein um hina Íslensku umferðarmenningu en svo er ekki. Mér er nokk sama um alla umferðarmenningu. Íslendingar mega eiga eins marga bíla og þeir vilja og keyra eins mikið á þeim og þeir vilja. Það eina sem ég vil er að strætó losni úr þessari umferðarmenningu og myndi sína eigin umferðarmenningu.

Til þess að svo verði eru til nokkrar lausnir. Það má til dæmis vera með sér akgreinar fyrir strætó. Það er samt engin lausn. Íslendingar eru nefinlega svo gríðarlega frjálslyndir að stór hópur myndi fara að líta á bílana sína sem strætisvagna og fara að nýta sér þessar akgreinar.

Þess vegna vil ég ganga lengra. Ég vil leggja strætisvögnunum og fá neðanjarðarlestar í staðinn. En er það raunhæft og myndi það borga sig?

Ef við byrjum á stofnkostnaðinum þá yrði hann vissulega töluverður. Hann þyrfti þó ekkert að vera neitt rosalegur. Bæði þá þarf ekki að leggja lestirnar út í öll útkverfin í upphafi heldur má safna í þær með strætisvögnum. Auk þess þá er byggð á Höfuðborgarsvæðinu mjög strjál svo lítið mál væri að koma teinum fyrir ofanjarðar og minnkar það auðvitað kostnað allverulega.

Þegar þessu væri lokið myndi kostnaður minnka verulega miðað við það sem er í dag. Rekstrarkosntaður lestarkerfi er margfallt minni en strætisvagnakerfis auk þess sem það væri meira notað => meiri peningar í kassann. Meiri notkun leiðir síðan til minni umferðarteppu, færri slysa og enn meiri sparnaðar.

Notkun já, yrði einhver notkun á þessu. Strætisvagnar í dag keyra hálftómir um í bænum og virðist tískan í dag vera að það sé fáránlegt að nota strætó. En þetta myndi breytast. Þegar það færi að vera fljótlegra að fara með almenningssamgöngum í vinnuna en að keyra myndi fólk nýta þann möguleika. Það er líka mun þægilegra að þjóta um með lest en að hendast um með strætó og gerði það þetta því enn vinsælla. Auk þessara tveggja þátta kemur sá að mun skemmtilegra er að bíða eftir neðanjarðarlest en strætó. Ástæðan er að neðanjarðarlestarstöðvar eru neðanjarðar og þar getur því verið þægileg steming þrátt fyrir að norðvestan strekkingur sé úti.

Nú er ég bara búinn að fullyrða og fullyrða án talna og dæma um að þetta gangi í raun. En ekki þarf að leita langt til að fá dæmi. Einungis til yfir Atlantshafið til Osló. Osló sem er 500.000 manna borg er með mjög öflugt lestarkerfi. Það er bæði ofan og neðanjarðar og er mun fljótlegra að ferðast um með því en bíl. Það mikið fljótlegra að ég veit um fjölskyldu sem velur lestina í staðinn fyrir bílinn, þrátt fyrir að hann standi beint fyrir utan og um 5 mínútna labb sé á lestarstöðina. Lestarkerfið í Osló hefur gengið í áratugi og gengur enn og alltaf er verið að stækka. Þarna höfum við því sambærilega borg miðað við Reykjavík með öflugt neðanjarðarlestakerfi. Þetta eru því engir draumórar heldur framkvæmanlegt hugmynd.

Bessi