Mér finnst afskaplega tilgangslaust fyrir kennara að fara í verkfall. Tilgangurinn með því að heilu starfsstéttirnar taki sig til og leggi niður vinnu hlýtur að vera sú að skapa pressu á samningsaðila með því að hafa lamandi eða í það minnsta slævandi áhrif á atvinnulífið. Þetta tekst kennurum ekki, a.m.k. ekki fyrr en eftir þó nokkur ár þegar allt í einu hættir að koma menntað fólk út á vinnumarkaðinn. Akkúrat núna hefur kennaraverkfallið engin slæm áhrif á atvinnulífið og meira að segja er það svo núna að flestir atvinnurekendur eru sáttir við þetta verkfall og vilja hafa það sem lengst vegna þess vinnuafls sem streymir út á markaðinn í formi nema sem hafa ekkert að gera. Af því leiðir að enginn þrýstingur myndast á ríkisstjórnina um það að semja og þess vegna eru þeir ekkert að flýta sér. Þess vegna finnst mér kennarar alveg geta hætt þessu verkfalli og byrjað aftur að kenna. Þeir geta haldið áfram að reyna að semja þrátt fyrir að þeir séu að kenna því það breytir ekki miklu um þeirra samningsaðstöðu.